Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 19. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi 2019

Deila grein

15/10/2019

Stjórnmálaályktun 19. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi 2019

Stjórnmálaályktun 19. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi haldið 12.-13. október 2019 að Holti í Önundarfirði.

Kjördæmisþingið lýsir ánægju sinni með stjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs. Ríkisstjórnin hefur með áherslum sínum í síðustu kjarasamningum, lífskjarasamningunum, tekist að jafna kjör og vinda ofan af því launaskriði sem var orðið í efstu lögum samfélagsins á meðan millistéttir og láglaunafólk mátti sitja eftir. Með þessu náðist fram sátt á vinnumarkaði og áframhaldandi stöðugleiki í íslensku efnahagslífi.

Þingið lýsir fullum stuðningi við þingflokkinn og ráðherra flokksins í þeirra mikilvægu störfum fyrir land og þjóð. Þingið leggur áherslu á að halda til haga stefnumálum Framsóknarflokksins í ríkisstjórnarsamstarfinu og gæta þess að rödd hans heyrist sem víðast.

Sjávarútvegur er gríðarlega mikilvægur í öllu kjördæminu og því hefur viðgangur greinarinnar mikil áhrif á flest öll sveitarfélög á svæðinu. Kjördæmisþingið ítrekar mikilvægi þess að sá kvóti sem ríkið hefur ráðstöfunarrétt yfir eða 5.3% aflaheimilda á hverja fisktegund, verði nýttur til byggðafestu og til að byggja undir fjölbreytni sjávarútvegs hringinn í kringum landið.

Kjördæmisþingið fagnar þeirri tæknibyltingu sem er að verða í veiðitækni, aflameðferð og fullvinnslu afurða um þessar mundir. Mikilvægt er að staðinn verði vörður um samkeppnis- og rekstrarhæfi íslensks sjávarútvegs á sama tíma og arður af sameiginlegum auðlindum landsmanna verði nýttur til uppbyggingar innviða og eflingar byggðarlaga vítt og breytt um landið. Þingið minnir á að engin ein löggjöf hefur haft viðlíka jákvæð áhrif á umhverfið á Íslandi og lög um stjórn fiskveiða sem sett voru undir forystu Framsóknarflokksins.

Kjördæmisþingið fagnar þeirri uppbyggingu sem hefur orðið á fiskeldi og telur það vera einn af megin atvinnuvegum þjóðarinnar. Þingið hvetur stjórnvöld til að byggja undir sterkt lagaumhverfi fyrir þessa nýju atvinnugrein. Mikilvægt er að mótvægisaðgerðum verði beitt og stuðla að umhverfisvænum rekstri til hagsbóta fyrir samfélagið.

Nauðsynlegt er að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins í byggðamálum. Þar er lögð áhersla á jafnrétti til búsetu og að íbúar landsins njóti þeirrar grunnþjónustu sem gerð er krafa um í nútímasamfélagi. Nauðsynlegt er að samræming í ákvarðanatöku sé til staðar svo markmið byggðastefnu nái fram að ganga.

Undir forystu Framsóknar hefur verið unnið að jöfnu aðgengi landsmanna að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu með eflingu fjarheilbrigðisþjónstu. Þingið bendir á mikilvægi þess að samningar við sérfræðilækna náist.

Kjördæmisþingið vill leggja áherslu á löggæslumál á landsbyggðinni. Skortur á fjármagni og sameining lögregluumdæma má aldrei verða til þess að íbúar á landsbyggðinni hljóti skerta þjónustu í formi lengri útkallstíma eða manneklu.

Grundvallaratriði í byggðaþróun og grunnþjónustu við íbúa er aðgengi að menntastofnunum. Kjördæmisþingið leggur áherslu á að tryggt verði aðgengi nemenda að framhaldsskólum í kjördæminu og fjármunir til að standa undir fjölda nemendaígilda til að mæta þeirri eftirspurn. Mjög mikilvægt er að styrkja stoðir menntastofnana og dreifnáms í Norðvesturkjördæmi. Þá þarf að tryggja fjárhagsstöðu, rekstrargrundvöll og framtíð mennta- og menningarstofnana í kjördæminu.

Þingið leggur áherslu á að flutnings- og dreifikerfi rafmagns á Íslandi tryggi fullnægjandi afhendingaröryggi raforku um landið. Einnig að lokið verði við uppbyggingu á þriggja fasa rafmagni til að tryggja nýsköpun, atvinnu- og byggðarþróun í dreifðari byggðum kjördæmisins. Þingið leggur áherslu á við stjórnvöld að núverandi rammaáætlun verði virt og lýsir stuðningi sínum við gerð Hvalárvirkjunar.

Orkustofnun hefur bent á að mikil eftirspurn sé eftir raforku á Íslandi og að brýnt sé að huga sérstaklega að lagarammanum um nýtingu vindorku þar sem hagsmunir samfélagsins og sjálfbærni eru hafðir að leiðarljósi. Smávirkjanir eru liður í uppbyggingu dreifikerfis raforku og telur þingið að kanna þurfi betur virkjunarkosti víða um land og einfalda umsagnaferlið þeirra.

Dreifingarkostnaður raforku hefur hækkað meira í dreifbýli en þéttbýli á undanförnum árum og telur þingið brýnt að stjórnvöld hraði vinnu við jöfnun raforkukostnaðar. Hár raforkukostnaður dregur úr hvata til uppbyggingar í hinum dreifðu byggðum og minnkar samkeppnishæfni dreifbýlisins.

Kjördæmisþingið hafnar alfarið raforkusölu um sæstreng til annarra landa.

Þingið hvetur til áframhaldandi uppbyggingar ferðaþjónustu í landinu. Endurskoða þarf skiptingu tekna af ferðamönnum milli ríkis og sveitarfélaga þannig að sveitarfélög fái tekjur til að standa að uppbyggingu innviða.

Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi skorar á stjórnvöld að nýtingar- og/eða búsetuskylda á bújörðum í landinu verði tryggð með lagasetningu, þannig að með eignarhaldi á bújörð fylgi ákveðnar skyldur. Mikilvægt er að horft sé til þess landgæði á hverjum stað stuðli að aukinni atvinnusköpun, matvælaframleiðslu og eflingu byggðar í landinu.

Íslenskur landbúnaður er og verður hornsteinn byggðar um allt land. Óásættanlegt er að fluttar séu inn búvörur sem framleiddar eru við minni kröfur um aðstæður, lyfjanotkun og aðra þætti er lúta að heilbrigði afurða, en gerðar eru hér á landi. Þingið fagnar góðum árangri við ljósleiðaravæðingu í kjördæminu.

Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi hafnar framkomnum hugmyndum um þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Þingið leggur áherslu á að fyrirliggjandi tillaga um stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands felur í sér skerðingu á valdheimildum sveitarfélaga, réttindum íbúa þeirra ásamt því að koma í veg fyrir frekari orkuöflun á miðhálendinu. Mikilvægt er að loka ekki fyrir nýtingu nýrra endurnýjanlegra orkukosta á miðhálendinu í ljósi áætlunar ríkisstjórnarinnar um orkuskipti í samgöngum.

Fyrirliggjandi tillaga hvað varðar mörk þjóðgarðs á miðhálendinu virðist fyrst og fremst tilkomin til þess að styrkja eignar- eða ráðstöfunarrétt ríkisins yfir landi í hálendi Íslands.

Kjördæmisþingið hvetur stjórnvöld til þess að bregðast hratt við ótryggu og hættulegu ástandi vega í kjördæminu.

***