Categories
Fréttir

Tryggja betur með lögum öryggi þolenda í heimilisofbeldismálum

Deila grein

15/10/2019

Tryggja betur með lögum öryggi þolenda í heimilisofbeldismálum

Silja Dögg Gunnarsdóttiralþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um „upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál“. „Hugmyndin að þessu máli kviknaði þegar ég hlustaði á Kverkatak, útvarpsþátt á Rás 1, sem útvarpsmaðurinn Viktoría Hermannsdóttir gerði. Í þáttunum eru viðtöl við þolendur heimilisofbeldis og sérfræðinga sem sinna slíkum málum. Það var augljóst að gera mætti betur í þessum málaflokki og tryggja betur með lögum öryggi þolenda,“ sagði Silja Dögg.
Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að setja á fót starfshóp sem verði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun um heimilisofbeldismál á milli kerfa félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í júní 2020.

„Ég fór að skoða málið og fékk álit hjá fjölmörgum sérfróðum aðilum. Þingsályktunartillagan eins og hún liggur fyrir núna er niðurstaða þess samtals. Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft við því að tilkynna lögreglu um ofbeldið enda er gerandinn oft einstaklingur sem er nákominn þolanda. Í smærri sveitarfélögum þar sem íbúar þekkja flestir hver annan getur það ekki síður verið þungbært að tilkynna um heimilisofbeldi. Því er mikilvægt að þau stjórnvöld sem starfa náið með íbúum hafi víðtækar heimildir til að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð við slíkum brotum,“ sagði Silja Dögg.
„Markmiðið með þingsályktunartillögu þessari er að núverandi kerfi verði endurskoðað með það fyrir augum að einfalda félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og menntamálayfirvöldum að miðla upplýsingum sín á milli og til lögreglu,“ sagði Silja Dögg.