Laxeldi í sjó hefur á undanförnum árum vaxið hraðar en flestar aðrar atvinnugreinar á Íslandi. Þessi ört stækkandi atvinnugrein nýtir stórbrotnar auðlindir okkar; hafsvæðið, hreina orku, vatnið og landið sjálft. Í ljósi þess að áðurnefndar auðlindir eru takmarkaðar er mikilvægt að horfa til framtíðar með langtímahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi þegar kemur að eignarhaldi og stjórn þessa geira.
Í dag er staðan sú að stór hluti fyrirtækja í sjókvíaeldi við Íslandsstrendur er í eigu erlendra aðila, einkum frá Noregi. Erlend fjárfesting er mikilvæg íslensku samfélagi, en það má ekki gleymast að yfirráð yfir auðlindum og lykilinnviðum eiga að vera í höndum þjóðarinnar sjálfrar.
Því er skrefið sem lagt er til í þingsályktunartillögu, sem ég hef lagt fram á Alþingi ásamt þingflokki Framsóknar, um að takmarka eignarhald erlendra aðila í sjókvíaeldi við 25% afar mikilvægt. Ég vona að aðrir flokkar muni styðja við framgang þessa mikilvæga máls á þingi. Þetta mál er í samræmi við aðrar áherslur Framsóknarflokksins um að tryggja innlent eignarhald á bújörðum og forgang almennings að raforku, og eru þetta þingmál sem Framsókn hefur lagt fram á þessu löggjafarþingi. Markmiðið er að tryggja yfirráð þjóðarinnar yfir lykilauðlindum sínum. Með því styrkjum við sjálfsforræði Íslendinga yfir atvinnustarfsemi sem byggir á þjóðarauði, rétt eins og gert hefur verið í sjávarútvegi um árabil. Við tryggjum að ábatinn verði nýttur innanlands til að efla byggðir, stuðla að nýsköpun, standa undir vaxandi kröfum um sjálfbærni og verja náttúru landsins.
Löggjöf í anda þessarar tillögu er ekkert einsdæmi. Í Færeyjum hafa sambærilegar reglur tryggt að arðurinn af laxeldi nýtist færeysku samfélagi, og reynslan þaðan sýnir að sjálfstæð eignarstaða styrkir bæði atvinnugreinina og samfélagið sem styður við hana.
Með skýrum reglum um eignarhald í laxeldi tryggjum við að auðlindir okkar verði áfram undir okkar stjórn, að íslenskt samfélag njóti ávinningsins og að við byggjum undir framtíðarvelferð í sátt við náttúruna. Það er lykilatriði fyrir sjálfstæði okkar sem þjóðar og fyrir heill næstu kynslóða.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. maí 2025.