Categories
Fréttir

Líneik Anna – eldhúsdagsumræður

Deila grein

31/05/2019

Líneik Anna – eldhúsdagsumræður

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, var ræðumaður Framsóknar í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í vikunni. Líneik Anna vildi minna á frumkvæði Framsóknarmanna á töluverða umfjöllun um auðlindir á landi, svo sem um:

  • um landnýtingu,
  • ráðstöfun og eignarhald jarða,
  • ráðstöfun og nýtingu takmarkaðra auðlinda á landi,
  • fyrirkomulag samstarfs um skipulag,
  • nýtingu og vernd miðhálendisins og náttúruverndarsvæða,
  • nýtingu lands í vinnunni gegn loftslagsbreytingum,
  • ný heildarlög, bæði um landgræðslu og skógrækt.

Kom Líneik Anna inn á að allt landið sé auðlind sem nýtist í margt, svo sem til matvælaframleiðslu og sem aðdráttarafl ferðamanna. Landi geti fylgt hlunnindi eins og veiði-, námu- og vatnsréttindi. „Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands og því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi og um hverja aðra fasteign væri að ræða,“ sagði Líneik Anna. Og í framhaldi benti hún á að tryggja verði eignarhald landsmanna og að takmarka fjölda jarðeigna í eignarhaldi sömu aðila, einnig nefndi hún að skýra verði ábyrgð og skyldur þeirra sem fara með ráðstöfunarrétt á landi. Nefndi Líneik Anna að nýta eigi skipulag betur sem stjórntæki við landnýtingu og bæta skráningu landeigna.
„Ég hef miklar væntingar til vinnu sem nú er unnin á vegum ríkisstjórnarinnar um endurskoðun laga og reglna varðandi eignarhald á landi og fasteignum,“ sagði Líneik Anna.
Líneik Anna kom inn á í ræðu sinni vinnu við gróður- og jarðvegsvernd, endurheimt vistkerfa og uppbyggingu gróðurauðlindar og minnti á sú vinna veltur á miklu að rækta samstarf við bændur og aðra sem beri ábyrgð á landi eða búa í strjálbýli. Minnti á Líneik Anna á mikilvægi þess að flétta saman sem flest markmið uppbyggingar, verndar og sjálfbærrar nýtingar við landnotkun, landgræðslu, skógrækt og landvörslu. „Samvinna skilar samfélagslegum ávinningi langt umfram það sem gerist ef hver vinnur í sínu horni. Þar á meðal er skilgreind nágrannavarsla við náttúruperlur og viðkvæm svæði. Við vorum svo rækilega minnt á það nú í vor, þegar ryk frá Sahara fauk yfir landið, að alþjóðasamfélagið þarf að leggja miklu meiri áherslu á landgræðslu í baráttunni gegn fátækt og loftslagsvánni,“ sagði Líneik Anna.
„Öll verkefni stjórnmálanna eru samvinnuverkefni sem hríslast um allt samfélagið. Vinna okkar þarf að sameina krafta og hvetja til þróunar á öllum sviðum. Við getum aldrei leyft okkur að hafa bara eitt mál á dagskrá og það er aldrei nóg að segja nei, það þarf alltaf að finna lausnir. Bestu óskir um gott sumar um allt land. Áfram veginn,“ sagði Líneik Anna.
Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur á eldhúsdegi á Alþingi 29. maí 2019.