Categories
Fréttir

Willum Þór – eldhúsdagsumræður

Deila grein

31/05/2019

Willum Þór – eldhúsdagsumræður

Willum Þór Þórsson, alþingismaður, var ræðumaður Framsóknar í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í vikunni. Í ræðu sinni fór hann yfir mikilvægi þess að ákvarðanir Alþingis fyrir landsmenn, atvinnulíf og heimili hafi góðáhrif til framtíðar, að alþingismenn allir séu þátttakendur í móta jöfn tækifæri fyrir alla til að nýta krafta sína, tækni og hugvit til framfærslu og framfara fyrir land og þjóð. Kraftmikið samkeppnishæft atvinnulíf sé gunnur lífsgæða og bættra lífskjara.
Framsýni, samvinna og samstaða einkennir störf ríkisstjórnarinnar sagði Willum Þór og sagði þessa stefnu ríma vel við áherslur og stefnu Framsóknar. Fjárlög ársins 2019 endurspegluðu hagvöxt á liðnum árum, þar sem áfram sé verið að byggja upp samfélagslega innviði á sama tíma og greitt er af skuldum. Aukin séu framlög til samgöngumála og fjarskipta þar sem uppsöfnuð viðhalds- og nýfjárfestingarþörf er hvað mest, til heilbrigðis- og velferðarmála, menntamála, nýsköpunar og rannsókna og umhverfis- og loftslagsmála.
Lífskjarasamningarnir leggja frekari grunn að „efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. Í þeim felst aukinn jöfnuður þar sem áherslan er á tekjulægri hópa og barnafjölskyldur með skattkerfisbreytingum og lægri sköttum, hækkuðum barnabótum, lengra fæðingarorlofi og hærri orlofsgreiðslum. Samanlagt geta til að mynda ráðstöfunartekjur fjögurra manna fjölskyldu aukist um 411.000 kr. á ári,“ sagði Willum Þór og minnti einnig á fjölmargar lausnir á sviði húsnæðismála:

  • aðstoð við fyrstu kaup,
  • aukið framboð á félagslegu húsnæði,
  • nýting séreignarsparnaðar og tilgreindrar séreignar, „svissneska leiðin“
  • endurskoðun á húsnæðislið vísitölunnar og verðtryggingar

„Lífskjarasamningarnir eru gífurlega mikilvægt innlegg og gefa svigrúm til vaxtalækkunar Seðlabankans sem um leið er merki um aukinn styrk hagkerfisins, trúverðugleika bankans og sjálfstæða stefnu. Það hefur lengi verið kallað eftir því að peningamálastefna og ríkisfjármálastefna togi í sömu átt.“
Hvað er skynsamlegast að gera fyrir land og þjóð?
„Mér finnst svarið blasa við: Ábyrg stefna og sterk staða ríkissjóðs gerir það að verkum að við erum í færum til að halda áfram samfélagslegri uppbyggingu, að bæta í skynsamlegar innviðafjárfestingar og stuðla að sjálfbærum hagvexti til góða fyrir alla landsmenn,“ sagði Willum Þór.
Ræða Willum Þórs Þórssonar á eldhúsdegi á Alþingi 29. maí 2019.