Margir muna eftir sögunni um litlu gulu hænuna sem fann hveitifræ. Hún áttaði sig á því að ef hún myndi sá, slá, þreskja og mala hveitifræið og baka svo brauð, þá væri hægt að njóta ávinningsins. Hún bað önnur dýr á bænum að hjálpa en hundurinn, kötturinn og svínið höfnuðu því öll. Þegar brauðið var loks tilbúið vildu þau þó öll fá sneið, en þá sagði litla gula hænan nei, aðeins hún sem vann verkið ætti rétt á brauðinu.
Fyrirverandi bankastjóri Evrópska seðlabankans og forsætisráðherra Ítalíu, Mario Draghi, er í hlutverki litlu gulu hænunnar. Draghi hefur ítrekað varað við því að Evrópusambandið sé að missa samkeppnishæfni sína vegna aðgerðaleysis. Á síðasta ári lagði hann fram 383 tillögur um umbætur sem gætu aukið framleiðni og hagvöxt, ásamt því að efla ESB-ríkin í tæknikapphlaupinu gagnvart Bandaríkjunum og Kína. Tillögurnar voru samþykktar en aðeins um 11 prósentum hefur verið hrint í framkvæmd. Afgangurinn af tillögunum er fastur í ágreiningi og skrifræði.
Draghi óskar eftir aðstoð: „Hver vill hjálpa mér að sá, mala og uppskera?“ En svörin eru lítil. Leiðtogar ESB-ríkja viðurkenna vandann, jafnvel framkvæmdastjórinn Ursula von der Leyen, en þegar til kastanna kemur er viljinn ekki nægur. Sagan um litlu gulu hænuna felur í sér ákveðinn boðskap. Ef enginn er tilbúinn að leggja hönd á plóginn, þá verður ekkert brauð til að deila. Hagkerfi margra ESB-ríkja er í þeirri stöðu að verðmætasköpun er að minnka. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ESB-ríki geti bakað sitt brauð, en gallinn er að kerfið sem búið er að setja upp dregur úr hvatanum til þess. Gjaldmiðill þeirra hefur ekki skilað þeim árangri sem vænst var í upphafi, fjármögnun erfið, umgjörðin um ríkisfjármálin ekki nægilega sterk og ekki hefur verið ráðist í nauðsynlegar efnahagslegar kerfisbreytingar til að létta róðurinn. Á meðan vex hagkerfi Bandaríkjanna átta sinnum hraðar en hagkerfi Evrópu. Þar hefur fjárfesting í nýsköpun, orkuöryggi og gervigreind skapað mikla framþróun. Kína er á fleygiferð í gervigreindinni, en einnig í innviðum og iðnaði, og styrkir áhrif sín í Asíu og Afríku. Evrópa stendur hins vegar í stað og glímir við að brúa bilið milli háleitra áforma og raunverulegra framkvæmda.
Eins og staðan er í dag, þá á Ísland að tryggja viðskiptakjör sín með alþjóðlegri samvinnu og efla samkeppnishæfni og hagvöxt. Ísland hefur náð miklum framförum síðustu áratugi og gert það í krafti sjálfstæðis með tryggt eignarhald á auðlindum sínum. Ísland á ekki að gerast aðili að ESB, sem er ekki tilbúið að gera það sem þarf til að baka brauðið og njóta síðan ávinningsins.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. september 2025.