Categories
Fréttir Greinar

Lýðræðið er ekki excel-skjal

Deila grein

01/11/2025

Lýðræðið er ekki excel-skjal

Umræða um breytingar á kosningakerfi landsins og jöfnun atkvæðavægis hefur verið nokkuð áberandi að undanförnu í kjölfar þess að dómsmálaráðherra skipaði sérstakan starfshóp til að endurskoða þessi mál.

Margt þarf að hafa í huga við endurskoðun kosningakerfisins og mikilvægt er að nálgast verkefnið af yfirvegun og ábyrgð, því hér er um að ræða flókið viðfangsefni þar sem vegast á ólík sjónarmið um lýðræði, stjórnsýslu og lífsskilyrði fólks – í landi þar sem nær öll stjórnsýsla er í Reykjavík.

Ekki séríslenskt fyrirbrigði

Vert er að hafa í huga að misvægi atkvæða milli kjördæma er ekki séríslenskt fyrirbrigði. Í mörgum lýðræðisríkjum, til dæmis í Noregi, Finnlandi og í Kanada er meðvitað tekið tillit til byggðasjónarmiða. Í Noregi hefur flatarmál fylkjanna áhrif á fjölda þingsæta, í Finnlandi er tryggður ákveðinn lágmarksfjöldi fulltrúa fyrir strjálbýl kjördæmi og í Kanada hafa fámenn og víðfeðm héruð sína fulltrúa. Þannig er viðurkennt að lýðræði felst ekki einvörðungu í jöfnu vægi atkvæða, heldur líka í því að tryggja að landfræðileg og samfélagsleg fjölbreytni komi fram.

Nær öll stjórnsýsla er í Reykjavík

Þingmönnum ber skylda til að sækja þingfundi og af því leiðir að þeir hafa allir aðsetur í nágrenni Alþingishússins stærstan hluta ársins. Öll ráðuneyti og helstu stofnanir eru staðsettar í Reykjavík, þar sem teknar eru stórar ákvarðanir sem hafa bein áhrif á líf og afkomu fólks um allt land. Það er því brýnt að gæta þess að rödd landsbyggðarinnar veikist ekki enn frekar með breytingum á kosningakerfinu.

Ef ríkisstjórninni er raunverulega alvara með þessum fyrirætlunum, þá hlýtur að vakna sú spurning hvort ekki eigi jafnframt að flytja hluta ráðuneyta og ríkisstofnana út á land, til að tryggja raunverulegt jafnvægi í stjórnsýslu og ákvarðanatöku.

Sterk landsbyggð er styrkur þjóðarinnar

Landsbyggðin þarf að eiga sínar raddir á Alþingi – fulltrúa sem hafa þekkingu og tengsl við viðkomandi svæði og skilja hagsmuni og tækifæri utan höfuðborgarsvæðisins. Mörg byggðarlög hafa háð mikla varnarbaráttu á undanförnum áratugum, en gleðilegt er að sjá að víða um land blæs nú byrlega til framfara. Þó megum við ekki gleyma þeim svæðum sem enn heyja sitt varnarstríð – þar sem fólk vinnur dag hvern að því að viðhalda lífi, þjónustu og starfsemi í sinni heimabyggð.

Rekstur stjórnsýslu og lýðræðis kostar sitt. Stærstur hluti útflutningstekna Íslands kemur frá atvinnugreinum sem byggja á auðlindum landsins – sjávarútvegi, landbúnaði, orkuframleiðslu og ferðaþjónustu – og þær greinar eru að stærstum hluta á landsbyggðinni. Það væri hvorki rétt né sanngjarnt að færa ákvörðunartöku í meira mæli frá þeim svæðum sem skapa þessi verðmæti.

Hagsmunir íbúa höfuðborgarsvæðisins byggjast einmitt á því að byggðir um land allt dafni og að þær undirstöðuatvinnugreinar sem skapa þjóðarbúinu gjaldeyri standi sterkar. Í þessari umræðu ættum við að horfa frekar á það sem sameinar landshlutana og styrkir tengsl þeirra með því að byggja brýr og efla samvinnu. Það er vilji flestra landsmanna að halda landinu öllu í byggð – ekki aðeins vegna menningar og sjálfsmyndar, heldur einfaldlega vegna þess að það er þjóðhagslega hagkvæmt.

Pólitísk viðbrögð vekja spurningar

Það vekur athygli að Samfylkingin og Flokkur fólksins skuli blessa þetta verklag Viðreisnar og dómsmálaráðherra en það kemur kannski síður á óvart að Viðreisn haldi þessari línu. Það má hins vegar efast um að þessi nálgun, ásamt orðræðu sumra ráðherra ríkisstjórnarinnar, muni leiða til aukins trausts eða stuðla að samheldni þjóðarinnar. Þvert á móti gæti hún grafið undan tiltrú fólks á Alþingi, okkar grundvallarstofnunar, þar sem umræða og ákvarðanataka á að endurspegla allt landið og fólkið sem það byggir.

Það eru því margar hliðar á þessu flókna viðfangsefni og ráðherra hefði mátt hafa það í huga þegar hún skipaði starfshópinn – að tryggt væri að fjölbreytt sjónarmið kæmust að í umræðu og vinnu hópsins.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. nóvember 2025.