Categories
Fréttir

Málefnaályktanir 35. FLOKKSÞINGS FRAMSÓKNARMANNA 2018

Deila grein

23/03/2018

Málefnaályktanir 35. FLOKKSÞINGS FRAMSÓKNARMANNA 2018

35. FLOKKSÞING FRAMSÓKNARMANNA haldið 9.-11. mars 2018 fagnar sterkri stöðu efnahagsmála á Íslandi. Staðan endurspeglast í fjárlagafrumvarpi núverandi ríkisstjórnar þar sem lögð er áhersla á uppbyggingu innviða íslensks samfélags. Það er stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar á næstu misserum. Í öðrum ályktunum flokksþingsins koma fram ítarlegri áherslur í einstökum málum sem forystu flokksins er falið að fylgja eftir í ríkisstjórn og á Alþingi.
Samhliða verður að gæta að því að skilyrði séu til áframhaldandi verðmætasköpunar atvinnulífsins og þar með bættra lífskjara landsmanna. Eitt af forgangsverkefnum í efnahagsmálum verður endurskipulagning fjármálakerfisins. Þar þarf að móta skýra samfélagslega framtiðarsýn. Í því felst meðal annars að leita þarf leiða til að auka samkeppni á viðskiptabankamarkaði, á sama tíma og að dregið verði úr þeirri áhættu sem skattgreiðendur bera af starfsemi fjármálafyrirtækja. Jafnframt verði verðtrygging afnumin af lánum til neytenda og fyrsta skrefið yrði að fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvísitölunnar.
Uppbygging sterkra innviða er grundvöllur þess að hægt sé að tryggja jafnrétti til búsetu um allt land, þar sem allir hafi sama aðgang að grunnþjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu, menntun, samgöngum og fjarskiptum.
Tryggja þarf sterka stöðu sveitarfélaganna í landinu, þar sem stutt er við tekjuöflun þeirra og að samvinna sé höfð um frekari flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Skoða þarf frekari flutning opinberra starfa frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðar með það að markmiði að auka fjölbreytileika atvinnutækifæra í dreifðari byggðum.
Málefnaályktanir 35. Flokksþings Framsóknarmanna 9.-11. mars 2018.