Categories
Fréttir

„Mannkynið verður að sigra“

Deila grein

13/11/2023

„Mannkynið verður að sigra“

„Það er sannarlega sorglegt að verða vitni að ólýsanlegum mannlegum þjáningum og eyðileggingu af völdum átaka og styrjalda á svo mörgum stöðum í heiminum. Rússar halda áfram grimmilegu árásarstríði sínu gegn Úkraínu og í Ísrael og Palestínu eru saklausir borgarar helstu fórnarlömb stríðsins. Á þessum myrku tímum er mikilvægt að virðing fyrir alþjóðalögum, mannréttindum og mannúðarlögum sé virt. Mannkynið verður að sigra,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra meðal annars í ræðu sinni á aðalráðstefnu Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í París í síðustu viku.

Lilja Dögg vakti sérstaklega athygli á stöðu afganskra kvenna í ávarpi sínu.

„Átakanleg og kerfisbundin brot á mannréttindum afganskra kvenna og útilokun þeirra frá nánast öllum sviðum samfélagsins fela í sér alvarlegar takmarkanir á réttindum og frelsi í umboði UNESCO. Afganskar konur og stúlkur þurfa á fullum stuðningi okkar að halda. Athygli á áframhaldandi brotum á mannréttindum kvenna og stúlkna verður að vera ofarlega á dagskrá samtakanna.“

Menntun til friðar

Ráðherra tók jafnframt þátt í ráðherrafundi á aðalráðstefnunni um menntun til friðar í höfuðstöðvum UNESCO í París. Þar talaði hún um þær margvíslegu ógnir sem heimurinn stendur nú frammi fyrir svo sem afturhvarfi lýðræðis, átökum og stríðum, útbreiðslu ofbeldisfullrar og hatursfullrar hugmyndafræði og upplýsingaóreiðu, loftslagsbreytingum og tapi á líffræðilegum fjölbreytileika, auk langvarandi samfélagslegs ójöfnuðar og hlutdrægni.

„Allar þessar áskoranir geta ógnað heilsu okkar, vellíðan og friði og verður því að bregðast við af ásettu ráði,“ sagði Lilja Dögg meðal annars í ávarpi sínu.

„Menntun er öflugasta tækið sem völ er á til að efla mannréttindi, frið og fjölbreytileika og hvetja komandi kynslóðir til að tryggja sjálfbæra framtíð fyrir alla. Hlutverk UNESCO skiptir sköpum við að efla, vernda og þróa gæðamenntun án aðgreiningar um allan heim sem byggir á grunnmanngildum.“

Myndatexti: Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra í París. Með henni eru Guðni Olgeirsson, Auðbjörg Halldórsdóttir, Sigrún Brynja Einarsdóttir, Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir og Kristín Halla Kristinsdóttir.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra í París. Með henni eru Guðni Olgeirsson, Auðbjörg Halldórsdóttir, Sigrún Brynja Einarsdóttir, Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir og Kristín Halla Kristinsdóttir.

Friður og öryggi með alþjóðlegri samvinnu

42. aðalráðstefna UNESCO er þetta árið haldin í París dagana 7.-22. nóvember.. Ráðstefnan er haldin á tveggja ára fresti og fer með æðsta stefnumótandi og ákvarðanatökuvald UNESCO. Ísland á sæti í framkvæmdastjórn UNESCO 2021-2025. Íslenska UNESCO-nefndin undirbýr faglega þátttöku í öllum málaflokkum fyrir aðalráðstefnuna í samvinnu við fastanefnd Íslands gagnvart UNESCO.

UNESCO vinnur að því að stuðla að friði og öryggi með alþjóðlegri samvinnu milli aðildarríkja á sviði mennta-, vísinda- og menningarmála. Ísland gerðist aðili að stofnuninni árið 1964 en í dag eru 194 ríki aðilar að UNESCO.

Ísland tekur virkan þátt í starfsemi samtakanna á sviði menningarmála, m.a. með fullgildingu menningarsamninga, innleiðingu þeirra og þátttöku á ráðstefnum og fundum. Meðal samninga UNESCO á sviði menningarmála sem Ísland hefur fullgilt eru: Samningur um að vernda og styðja við fjölbreytileg menningarleg tjáningarform, samningur um varðveislu menningarerfða, samningur um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins, samningur um leiðir til að hindra ólöglegan inn- og útflutning menningarverðmæta og samningur um vernd menningarminja í átökum.

Heimild: stjr.is