Bæjarfulltrúar Framsóknar og Okkar Hveragerðis skrifuðu í kvöld undir málefnasamning um meirihlutasamstarf á komandi kjörtímabili í Lystigarðinum Fossflöt í Hveragerði.
Í málefnasamningnum segir að framboðin munu á kjörtímabilinu fjárfesta í innviðum sveitarfélagsins samhliða íbúafjölgun. Ábyrgur rekstur verði í forgangi og lögð áhersla á opna og gagnsæja stjórnsýslu ásamt því að veita íbúum framúrskarandi þjónustu.
Megináherslur málefnasamningsins eru tilgreindar í helstu málaflokkum. Nýi meirihlutinn hyggst auglýsa starf bæjarstjóra og ráða í það á faglegum forsendum.
Framboðin munu skipta með sér verkum á kjörtímabilinu þannig að forseti bæjarstjórnar kemur úr röðum Framsóknar fyrsta og þriðja árið og Okkar Hveragerði annað og fjórða árið. Á móti verður sami háttur hafður á varðandi formann bæjarráðs, þannig að hann kemur úr röðum Okkar Hveragerði fyrsta árið.
Framsókn mun sinna formennsku í menningar-, íþrótta- og frístundanefnd, skipulags- og mannvirkjanefnd og kjörstjórn Hveragerðisbæjar. Okkar Hveragerði mun sinna formennsku í fræðslunefnd og umhverfisnefnd.
Í kosningunum þann 14. maí síðastliðinn fengu Okkar Hveragerði og Framsókn samtals fimm bæjarfulltrúa af sjö en Sjálfstæðisflokkurinn tvo.
Fréttin birtist fyrst á Sunnlenska.is 25. maí 2022
Frekari upplýsingar um kosningarnar af vefnum kosningasaga:
Í kjöri voru listar Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Okkar Hveragerði. Sjálfstæðisflokkur hlaut 2 bæjarfulltrúa, tapaði tveimur og meirihlutanum í bæjarstjórn. Okkar Hveragerði hlaut 3 bæjarfulltrúa og bætti við sig einum og Framsóknarflokkur hlaut 2 bæjarfulltrúa og bætti einnig við sig einum. Sjálfstæðisflokkinn vantaði 120 atkvæði til að koma sínum þriðja manni að á kostnað Okkar Hveragerðis.
Úrslit:
Hveragerði | Atkv. | % | Fltr. | Breyting | |
B-listi Framsóknar | 480 | 27.54% | 2 | 13.00% | 1 |
D-listi Sjálfstæðisflokks | 572 | 32.82% | 2 | -19.58% | -2 |
O-listi Okkar Hveragerði | 691 | 39.64% | 3 | 6.58% | 1 |
Samtals gild atkvæði | 1,743 | 100.00% | 7 | 0.00% | 0 |
Auðir seðlar | 28 | 1.58% | |||
Ógild atkvæði | 0 | 0.00% | |||
Samtals greidd atkvæði | 1,771 | 77.54% | |||
Kjósendur á kjörskrá | 2,284 |
Kjörnir sveitarstjórnarmenn | Atkv. |
1. Sandra Sigurðardóttir (O) | 691 |
2. Friðrik Sigurbjörnsson (D) | 572 |
3. Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir (B) | 480 |
4. Njörður Sigurðsson (O) | 346 |
5. Alda Pálsdóttir (D) | 286 |
6. Halldór Benjamín Hreinsson (B) | 240 |
7. Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir (O) | 230 |
Næstir inn | vantar |
Eyþór Ólafsson (D) | 120 |
Andri Helgason (B) | 212 |