Categories
Fréttir Greinar

Meirihlutinn sem segir nei

Deila grein

12/03/2025

Meirihlutinn sem segir nei

Nú bíða nokk­ur hundruð for­eldr­ar í Reykja­vík eft­ir dag­vist­un fyr­ir börn sín. Þá staðreynd tek ég al­var­lega og vil leggja lóð á vog­ar­skál­arn­ar til þess að styðja við for­eldra sem hafa lokið fæðing­ar­or­lofi og kom­ast ekki út á vinnu­markaðinn vegna skorts á dag­vist­un. Við í Fram­sókn lögðum því fram til­lögu í borg­ar­stjórn um heim­greiðslur til for­eldra sem bíða eft­ir dag­vist­un. Til­lag­an gerði ráð fyr­ir að greiðslurn­ar væru skil­yrt­ar við virka um­sókn um dag­vist­un og féllu niður um leið og dag­vist­un­ar­plássi væri út­hlutað.

Fjölg­un leik­skóla­plássa er for­gangs­mál og þarf ekki að fara mörg­um orðum um mik­il­vægi leik­skól­ans fyr­ir mennt­un og þroska barna og fyr­ir tekju­öfl­un og jafn­ari at­vinnuþátt­töku for­eldra. En staðreynd­in er sú að jafn­vel þótt það sé eitt af for­gangs­verk­efn­um sveit­ar­fé­laga að tryggja yngstu íbú­un­um leik­skóla­vist verður að telja það óraun­hæft að 12 mánaða börn kom­ist í dag­vist­un í bráð. Því þótt við mynd­um bæta við nægj­an­lega mörg­um bygg­ing­um und­ir starf­semi leik­skóla og tryggja ávallt nægi­legt rekstr­ar­fé þarf að manna stöður leik­skóla­kenn­ara, sem eru ekki á hverju strái. Fjölg­un ein­stak­linga í mik­il­vægri stétt leik­skóla­kenn­ara er verðugt mark­mið en það mun taka tíma og því þarf að leita annarra leiða og lausna til að mæta for­eldr­um sem eru í bráðum vanda og bíða eft­ir dag­vist­un­ar­plássi. Það er bara ekki hægt að gera ekki neitt. Meiri­hlut­inn kaus hins veg­ar gegn til­lög­unni með tvenn­um rök­um.

Of kostnaðarsamt?

Í fyrsta lagi taldi meiri­hlut­inn til­lög­una of kostnaðarsama og hún gæti þar af leiðandi dregið úr upp­bygg­ingu leik­skóla­plássa. Auðvitað kost­ar það að greiða fjöl­skyld­um heim en það er okk­ar sem sitj­um í sal borg­ar­stjórn­ar að ákveða hvernig við verj­um fjár­mun­um borg­ar­inn­ar. Við get­um ákveðið að bæði upp­bygg­ing leik­skóla og heim­greiðslur séu for­gangs­mál. Til að mæta kostnaðinum get­um við hagrætt í rekstri borg­ar­inn­ar – af nógu er að taka í þeim efn­um. En ljóst er að meiri­hlut­inn vill for­gangsraða fjár­magni í annað en stuðning við for­eldra sem bíða eft­ir dag­vist­un. For­eldra sem bíða vegna þess að borg­in hef­ur ekki staðið sig nægi­lega vel í því að fjölga leik­skóla­pláss­um þrátt fyr­ir ít­rekuð lof­orð Sam­fylk­ing­ar­inn­ar um pláss fyr­ir 12 mánaða börn.

Ógn við jafn­rétti?

Í öðru lagi tel­ur meiri­hlut­inn að heim­greiðslur séu kvenna­gildra sem grafi und­an jafn­rétti kynj­anna. Þau telja að greiðslurn­ar muni leiða til þess að kon­ur séu leng­ur heima. Slík gagn­rýni bygg­ist á þeirri for­sendu að fólk hafi val um að senda barn ekki í leik­skóla og fái þess í stað greiðslur. Staðreynd­in er þó sú að for­eldr­ar eru hvort sem er heima vegna skorts á dag­vist­unar­úr­ræðum – það er hin raun­veru­lega „kvenna­gildra“. Greiðslurn­ar milda það tekjutap sem mynd­ast á meðan beðið er eft­ir dag­vist­un og með því að skil­yrða greiðslurn­ar við um­sókn um dag­vist­un er dregið úr áhrif­um kynjam­is­rétt­is. Mörg heim­ili standa frammi fyr­ir erfiðum aðstæðum að loknu fæðing­ar­or­lofi vegna skorts á dag­vist­un. Vand­inn hef­ur vaxið í þrálátri verðbólgu, jafn­vel þótt for­eldr­ar sýni fyr­ir­hyggju með því að dreifa fæðing­ar­or­lofinu eða spara fyr­ir tekjutap­inu sem fylg­ir barneign­um. Sér í lagi ef aðeins eitt for­eldri get­ur aflað tekna á meðan beðið er eft­ir dag­vist­un. Spurn­ing­in er því: Hvort er betra að for­eldr­ar séu heima án tekna eða fái greiðslur sem hjálpa til við að halda heim­il­is­bók­hald­inu rétt­um meg­in við núllið?

Þá hef­ur því verið haldið fram að það séu börn­in sem mest þurfi á því að halda að fara í leik­skóla sem séu heima vegna heim­greiðslna, t.d. börn inn­flytj­enda sem þurfi að til­einka sér tungu­mál þess lands sem þau búa í. Án frek­ari mála­leng­inga má sjá að áður­nefnd rök um skil­yrt­ar heim­greiðslur eiga einnig við hér. Ljóst er þó að huga þarf sér­stak­lega að börn­um sem eru ekki í leik­skóla, greina hvers vegna svo er og hvort ástæða sé til að mæta því með ein­hverj­um hætti.

Sama gamla upp­skrift­in

Fyrst og fremst snýst þetta um börn og for­eldra þeirra, sem mörg hver eru í veru­leg­um vanda með að brúa bilið og ná end­um sam­an. Meiri­hlut­inn virðist þó ekki vera til­bú­inn að sýna það í verki að Reykja­vík styðji við barna­fjöl­skyld­ur. Ekki má horfa til fjöl­breyttra lausna. Ekki má semja við vinnustaði um rekst­ur leik­skóla og ekki er hægt að koma á fót heim­greiðslum, þrátt fyr­ir að Pírat­ar, Flokk­ur fólks­ins og Sósí­al­ist­ar, sem nú eru í meiri­hluta, hafi áður talað fyr­ir heim­greiðslum. Rík­is­stjórn­in virðist þá ekki held­ur ætla að lengja fæðing­ar­or­lofið. Nei – enn og aft­ur á að reyna við sömu gömlu upp­skrift­ina sem ekki hef­ur skilað nægj­an­leg­um ár­angri.

Við eig­um að hlusta á for­eldra og taka ósk­ir þeirra og ábend­ing­ar al­var­lega. Þær eru ekki auka­atriði og stjórn­mál­in verða hverju sinni að ganga var­lega þann veg að ákveða hvað sé fólki fyr­ir bestu. Við meg­um ekki gleyma því að börn og for­eldr­ar lifa þenn­an raun­veru­leika í dag, á meðan rif­ist er yfir göml­um kredd­um. Það er okk­ar verk­efni að létta róður­inn með því að leggj­ast á ár­arn­ar og brúa bilið á milli fæðing­ar­or­lofs og leik­skóla og draga úr fram­færslu­kvíða for­eldra.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borg­ar­full­trúi Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. mars 2025.