Categories
Fréttir

„Menntun er undirstaða samkeppnishæfni Íslands“

Deila grein

15/05/2019

„Menntun er undirstaða samkeppnishæfni Íslands“

Alex B. Stefánsson, varaþingmaður, ræddi mikilvægi menntunar í störfum þingsins, á Alþingi, í gær. Breytingar í tækni hafa áhrif á líf okkar dagsdaglega, algríma og gervigreind ráða ríkjum. Áskorun samfélagsins er að skapa „menntatækni framtíðarinnar, börnunum okkar og öllum til góða“.

„Virðulegur forseti. Á hverjum morgni hlaupa börn spennt af stað í grunnskóla landsins til að mennta sig fyrir framtíðina. Við útskrift úr grunnskóla hafa þau eytt um 65% ævi sinnar í að undirbúa sig fyrir áskoranir framtíðarinnar. Það er alla vega það sem við ætlum menntakerfinu að gera, en er það raunin?
Síðastliðinn áratug hefur heimurinn umturnast vegna hinna ýmsu tækniframfara sem ekki sér fyrir endann á. Þær breytingar hafa áhrif á það hvernig við högum lífi okkar. Ein mest áberandi birtingarmynd þeirra framfara er snjallsímarnir sem flestir eru orðnir órjúfanlegur þáttur í daglegu lífi. Breytingar hafa ekki bara breytt lífi okkar því að varla er til sá iðnaður sem ekki hefur breyst af tækninnar völdum. Nú er talað um að við séum gengin af stað í fimmtu iðnbyltinguna þar sem algríma og gervigreind ráða ríkjum.
Með leyfi forseta:
„Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir 2019 og 2023 er lögð áhersla á að námsefni þurfi að standast samanburð við það sem best gerist á öðrum tungumálum og vera þannig úr garði gert að það veki áhuga á íslenskum veruleika og íslenskri tungu.“
Herra forseti. Menntun er undirstaða samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavísu og því mikilvægt að við breytum þessu landslagi, byggjum upp stefnu og framtíðarsýn fyrir menntakerfið, sem tryggir að kynslóðir sem koma á eftir okkur fái bestu mögulegu menntun sem völ er á, framtíðarsýn sem endurspeglar breytingar fjórðu og fimmtu iðnbyltingarinnar. Aðeins með þeim hætti getum við sagt að við séum að undirbúa börnin okkar fyrir framtíðina. Tökum höndum saman, stígum þetta framfaraskref og sköpum menntatækni framtíðarinnar, börnunum okkar og öllum til góða.“