Categories
Fréttir

Menntun í matvælaframleiðslu – vá fyrir dyrum?

Deila grein

05/06/2019

Menntun í matvælaframleiðslu – vá fyrir dyrum?

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi mikilvægi menntunar fyrir matvælaframleiðslu í landinu í störfum þingsins á Alþingi í dag.
„Í morgun hlustaði ég á umfjöllun þar sem kallað var eftir fleiri nemendum í næringar- og matvælafræði en hlutfallslega færri mennta sig á því sviði hér en í löndunum í kringum okkur. Auk þekkingar á matvælafræði er undirstaða matvælaframleiðslu alltaf þekkingu á náttúrunni og náttúrulegum ferlum, svo sem úr líffræði og jarðfræði. Í búfræði fléttast svo saman þekking á náttúrunni, sjálfbærri landnýtingu og matvælaframleiðslu,“ sagði Líneik Anna.
Rakti Líneik Anna að nemum á sviði landbúnaðar og meistara- og doktorsnemum í landbúnaðarfræðum hafi fækkað stórlega. Þessari þróun sé mikilvægt að snúa við og að tryggt sé að á Íslandi séu til fræðimenn til að byggja á til framtíðar, með þekkingu á íslenskum aðstæðum og tengja hana aðþjóðlegri þekkingu. Fjöldinn allur af verkefnum er í landbúnaðarfræðum, en samt hafi fastráðnum vísindamönnum fækkað.
„Það vill svo til að sami menntunargrunnur er líka mjög mikilvægur fyrir þekkingu á allri sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og umhverfisvernd, bæði fyrirbyggjandi aðgerðir og viðbrögð við hamfarahlýnun byggja á þekkingu,“ sagði Líneik Anna.
Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur, alþingismanns, í störfum þingins á Alþingi 5. júní 2019.