Categories
Fréttir

„Það sést ekki á mér að ég drekki Kristal“

Deila grein

05/06/2019

„Það sést ekki á mér að ég drekki Kristal“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, fór yfir breytingar á lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar í störfum þingsins á Alþingi í dag. Sagði hún að verið væri að stíga skref til mikilla réttarbóta fyrir öryrkja. „Markmiðið er að draga úr áhrifum annarra tekna en bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri fyrir framfærslu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og afnema þar með það sem kallað er í daglegu tali króna á móti krónu skerðing,“ sagði Halla Signý.
Öryrkjum hefur fjölgað undanfarin ár af margvíslegum ástæðum. Halla Signý hefur kallað eftir með þingsálylktun á Alþingi að heilbrigðisyfirvöld beiti sér fyrir fræðslu til almennings um vefjagigt, þessum þögla sjúkdómi. Mikilvægt sé að styrkja greiningarferlið og boðið sé upp á heildræna meðferð, byggða á niðurstöðum gagnreyndra rannsókna. Vill hún að viðurkennt sé að vefjagit sé stór þáttur í að fólk á öllum aldri detti út af vinnumarkaði. Sjúklingar einangrast á heimilum sínum með verkjasjúkdóma sem geri hann óvirkan, bæði á vinnumarkaði og sem þátttakanda í samfélaginu.
„Í einni auglýsingu segir að það sjáist hverjir drekka Kristal. Þeir sem eru með vefjagigt bera það ekki utan á sér. Þessi þingsályktunartillaga fær sennilega bíða úrlausnar á næsta þingi en vonandi nær hún þá í gegn. Það virðist vera stærri og mikilvægari mál, virðulegi forseti, sem þurfa að taka tíma hér á Alþingi, t.d. þurfa sumir þingmenn tíma til að upplýsa þjóðina um hvaða vá liggur fyrir henni ef Alþingi samþykkir að byggja undir sjálfstæði Orkustofnunar. Það sér ekki fyrir endann á þeirri ógn.
Það sést ekki á mér að ég drekki Kristal en vonandi ber ég með mér fyrir hvað ég stend,“ sagði Halla Signý.

 Ræða Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, alþingismanns, í störfum þingsins á Alþingi 5. júní 2019.