Categories
Fréttir

„Mér fannst umræðan ná nýrri lægð síðustu vikurnar“

Deila grein

13/03/2024

„Mér fannst umræðan ná nýrri lægð síðustu vikurnar“

Brynja Dan Gunnarsdóttir, varaþingmaður, fór í störfum þingsins yfir mikilvægi aðgerðaráætlunar gegn hatursorðræðu og að sveitarfélög búi yfir skýru verklagi og viðbragði við rasisma.

„Á síðasta þingi var lögð fram aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu sem náði því miður ekki fram að ganga en það þýðir ekki að ráðuneytin og sveitarfélögin geti ekki farið í fræðslu fyrir sína starfsmenn um þessi mál. Þess vegna hef ég lagt fram fyrirspurnir til innviðaráðherra um fræðslu hjá sveitarfélögum og til allra ráðherra um fræðslu innan þeirra ráðuneyta,“ sagði Brynja Dan.

„Ég vil einhvern veginn aldrei vera viðkvæm eða setja sjálfa mig inn í þessa jöfnu en það er víst þannig að minn veruleiki er að vissu leyti annar en ykkar flestra og ég á til að mynda önnur samtöl við barnið mitt en þið flest sem hér inni sitja,“ sagði Brynja Dan og hélt áfram, „[é]g bý við forréttindastöðu þegar kemur að mörgu en ég finn sterkt í ýmsum aðstæðum að ég er oft ein eða ein af mjög fáum með annan húðlit. Ísland hefur verið einstaklega einsleitt samfélag en það er sem betur fer að breytast. Það væri svo frábært ef öll sveitarfélög væru með verklag, forvarnir og aðgerðaáætlun þegar upp kemur rasismi í skólum, leikskólum, innan íþróttahreyfingarinnar eða annars staðar í samfélaginu. Það myndi veita öryggi, traust og utanumhald fyrir jaðarsetta hópa.“

„Ég hvet því allar sveitarstjórnir til að taka þessu alvarlega, að setja af stað einhvers konar aðgerðaáætlun sem unnin er með fagfólki, taka af skarið og vera leiðandi. En staðreyndin er sú að þeir sem eru af erlendu bergi brotnir búa við annan veruleika og það þarf að hafa skýrt verklag og viðbragð við rasisma.

Að því sögðu vil ég nota tækifærið og hrósa Menntaskólanum að Laugarvatni fyrir afdráttarlausa afstöðu og vönduð vinnubrögð í síðustu viku þegar mál af þessum toga kom upp,“ sagði Brynja Dan að lokum.

***

Ræða Brynju Dan í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Á síðasta þingi var lögð fram aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu sem náði því miður ekki fram að ganga en það þýðir ekki að ráðuneytin og sveitarfélögin geti ekki farið í fræðslu fyrir sína starfsmenn um þessi mál. Þess vegna hef ég lagt fram fyrirspurnir til innviðaráðherra um fræðslu hjá sveitarfélögum og til allra ráðherra um fræðslu innan þeirra ráðuneyta. En af hverju er ég að tala um þetta núna? Jú, því að mér fannst umræðan ná nýrri lægð síðustu vikurnar. Ég vil einhvern veginn aldrei vera viðkvæm eða setja sjálfa mig inn í þessa jöfnu en það er víst þannig að minn veruleiki er að vissu leyti annar en ykkar flestra og ég á til að mynda önnur samtöl við barnið mitt en þið flest sem hér inni sitja. Ég bý við forréttindastöðu þegar kemur að mörgu en ég finn sterkt í ýmsum aðstæðum að ég er oft ein eða ein af mjög fáum með annan húðlit. Ísland hefur verið einstaklega einsleitt samfélag en það er sem betur fer að breytast. Það væri svo frábært ef öll sveitarfélög væru með verklag, forvarnir og aðgerðaáætlun þegar upp kemur rasismi í skólum, leikskólum, innan íþróttahreyfingarinnar eða annars staðar í samfélaginu. Það myndi veita öryggi, traust og utanumhald fyrir jaðarsetta hópa. Ég hvet því allar sveitarstjórnir til að taka þessu alvarlega, að setja af stað einhvers konar aðgerðaáætlun sem unnin er með fagfólki, taka af skarið og vera leiðandi. En staðreyndin er sú að þeir sem eru af erlendu bergi brotnir búa við annan veruleika og það þarf að hafa skýrt verklag og viðbragð við rasisma.

Að því sögðu vil ég nota tækifærið og hrósa Menntaskólanum að Laugarvatni fyrir afdráttarlausa afstöðu og vönduð vinnubrögð í síðustu viku þegar mál af þessum toga kom upp.“