Categories
Fréttir

Höfum alla burði til að framleiða eigið rafeldsneyti úr innlendri endurnýjanlegri orku

Deila grein

13/03/2024

Höfum alla burði til að framleiða eigið rafeldsneyti úr innlendri endurnýjanlegri orku

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, var málshefjandi í sérstakri umræðu um rafeldsneytisframleiðslu á Alþingi í vikunni. Sagði hún að spara mætti gjaldeyri og auka orkusjálfstæði Íslendinga enn frekar og skapa ákveðið forskot. Það verði þó ekki gert nema með skýrum „áherslum stjórnvalda varðandi rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi, svo sem varðandi þýðingu eða vægi hennar í orkuskiptum, hver áætluð innanlandsþörf er, stefnu um framleiðslu umfram innanlandsþörf og öflun eða framboð orku til framleiðslunnar og mögulega samstarfsaðila og eignarhald.“ Rafeldsneyti getur t.d. verið vetni, ammoníak, metanól eða metan.

„Við verðum að horfa til framtíðar og til allra þátta orkuskiptanna. Rafmagn notast ekki beint til orkuskipta á stærri farartækjum, stórum flutningabílum, vinnuvélum, stærri skipum eða í millilandaflugi.

Í stað rafmagns á rafgeymum þarf eldsneyti til að knýja þessi farartæki. Þess vegna þarf að tryggja aðgengi að eldsneyti ef full orkuskipti eiga að nást í samgöngumál á Íslandi og til og frá landinu,“ sagði Líneik Anna.

„Íslendingar ættu að hafa alla burði til að framleiða eigið rafeldsneyti úr innlendri endurnýjanlegri orku, spara þannig gjaldeyri og auka orkusjálfstæði enn frekar. Raunar má segja að Íslendingar gætu haft ákveðið forskot inn á þennan markað, en ekkert gerist af sjálfu sér.“

Fjöldi álitaefna þarf að ræða

„Framleiðsla af þessu tagi yrði stórframleiðsla raforku á alþjóðasamkeppnismarkaði og framleiðslan félli því í flokk stórnotenda eins og stóriðja. Þá er ljóst að viðskipta- og tækniumhverfið er býsna flókið. Framleiðsla er eitt og notkun innan lands annað og það er ekkert sem segir að framleiðsla og innleiðing notkunar innan lands haldist í hendur í upphafi, hvorki hvað varðar magn né tegund eldsneytis,“ sagði Líneik Anna og hélt áfram, „[þ]ví velti ég fyrir mér hvort fram hafi farið greining á ávinningi af því að framleiða rafeldsneyti á Íslandi og hvaða áskoranir og tækifæri kunni að fylgja slíkri framleiðslu í ljósi sjálfbærni og skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum.

  • Hafa stjórnvöld látið greina innanlandsþörfina og hvort innanlandsþörf ein geti staðið undir hagkvæmri framleiðslu?
  • Ef grundvöllur framleiðslunnar kallar á framleiðslu til útflutnings samhliða, hversu mikla endurnýjanlega orku úr íslenskri náttúru erum við sem samfélag tilbúin að nota til framleiðslu eldsneytis til útflutnings?“

Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir að koma hér til að ræða um rafeldsneytisframleiðslu. Sumum kann að þykja sérstakt að setja þessa umræðu í forgang í ljósi stöðu á raforkumarkaði þessi misserin. En það verður að segjast eins og er að fátt bar hærra í kjördæmaviku okkar þingmanna í Norðausturkjördæmi en raforkuskortur sem sett hefur fyrirtæki í þá stöðu að auka olíunotkun eða draga úr framleiðslu þannig að við verðum af gjaldeyristekjum alla daga. Þrátt fyrir þessa stöðu, sem auðvitað er afleit, vil ég leggja á það áherslu að samhliða því að greiða úr viðfangsefnum dagsins í dag verðum við að horfa til framtíðar og til allra þátta orkuskiptanna. Rafmagn notast ekki beint til orkuskipta á stærri farartækjum, stórum flutningabílum, vinnuvélum, stærri skipum eða í millilandaflugi. Í stað rafmagns á rafgeymum þarf eldsneyti til að knýja þessi farartæki. Þess vegna þarf að tryggja aðgengi að eldsneyti ef full orkuskipti eiga að nást í samgöngumál á Íslandi og til og frá landinu.

Ýmsar áskoranir fylgja því að binda orkuna í rafeldsneyti. Þar er t.d. mikilvægt að sem minnst orka tapist í vinnsluferlinu, eldsneyti taki ekki of mikið pláss, sé auðvelt í flutningi og framleiðslan valdi ekki mengun eða óafturkræfum umhverfisáhrifum. Rafeldsneyti getur t.d. verið vetni, ammoníak, metanól eða metan. Íslendingar ættu að hafa alla burði til að framleiða eigið rafeldsneyti úr innlendri endurnýjanlegri orku, spara þannig gjaldeyri og auka orkusjálfstæði enn frekar. Raunar má segja að Íslendingar gætu haft ákveðið forskot inn á þennan markað, en ekkert gerist af sjálfu sér. Þess vegna er mikilvægt að ræða þennan þátt orkuskiptanna hér í þingsal og í umræðunni kalla ég eftir áherslum stjórnvalda varðandi rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi, svo sem varðandi þýðingu eða vægi hennar í orkuskiptum, hver áætluð innanlandsþörf er, stefnu um framleiðslu umfram innanlandsþörf og öflun eða framboð orku til framleiðslunnar og mögulega samstarfsaðila og eignarhald.

Ég geri mér ljóst að fjöldi álitaefna kunni að vera uppi en það eru einmitt þau sem við þurfum að ræða. Framleiðsla af þessu tagi yrði stórframleiðsla raforku á alþjóðasamkeppnismarkaði og framleiðslan félli því í flokk stórnotenda eins og stóriðja. Þá er ljóst að viðskipta- og tækniumhverfið er býsna flókið. Framleiðsla er eitt og notkun innan lands annað og það er ekkert sem segir að framleiðsla og innleiðing notkunar innan lands haldist í hendur í upphafi, hvorki hvað varðar magn né tegund eldsneytis. Því velti ég fyrir mér hvort fram hafi farið greining á ávinningi af því að framleiða rafeldsneyti á Íslandi og hvaða áskoranir og tækifæri kunni að fylgja slíkri framleiðslu í ljósi sjálfbærni og skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum. Hafa stjórnvöld látið greina innanlandsþörfina og hvort innanlandsþörf ein geti staðið undir hagkvæmri framleiðslu? Ef grundvöllur framleiðslunnar kallar á framleiðslu til útflutnings samhliða, hversu mikla endurnýjanlega orku úr íslenskri náttúru erum við sem samfélag tilbúin að nota til framleiðslu eldsneytis til útflutnings?

Það liggur fyrir að erlendir fjárfestar sem hafa sérþekkingu á framleiðslu rafeldsneytis telja framleiðslu fýsilega hér á landi og hafa töluverðan áhuga á að fjárfesta, bæði í orkuöflun og innviðum til framleiðslu. Þessir sömu aðilar búa líka yfir mikilvægri þekkingu á framleiðslunni og a.m.k. sumir hafa yfirsýn um framtíðarþörf og uppbyggingu markaða á heimsvísu. Í því ljósi álít ég mikilvægt að við ræðum kosti og galla erlendra fjárfestinga á þessu sviði og hvort og þá hvernig stjórnvöld hvetji til fjárfestinga í rafeldsneytisframleiðslu. Ef rafeldsneytisframleiðsla á að verða að veruleika þarf meiri orku og hefur verið horft til nýtingar vindorkunnar í því sambandi. Nýting vindorku kallar á jöfnunarraforku frá vatnsafli. Það er því ljóst að lög og reglur varðandi virkjun vindsins og sátt um afgjald vegna orkuframleiðslu til nærsamfélaga mun hafa áhrif á áform um framleiðslu rafeldsneytis.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er eitthvað í núverandi lagaumgjörð sem stendur í vegi fyrir rafeldsneytisframleiðslu hér á landi og hvaða ákvarðanir þurfa stjórnvöld og löggjafinn að taka til þess að slík framleiðsla gæti hafist?“