Categories
Fréttir

Micro:bit-tölvan

Deila grein

22/11/2018

Micro:bit-tölvan

„Ég er mjög hlynnt þessu verkefni og mun skoða það enn frekar hvernig á því stendur að staðan á því er eins og hv. þingmaður lýsir. En það er fullur vilji hjá þessum ráðherra til að halda áfram með þetta verkefni“, sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
En fyrirspyrjandi, Björn Leví Gunnarsson, alþingismaður, telur að menntamálaráðuneytið ætli að hætta fjárveitingum til verkefnisins þar sem að tölvunni hafi ekki verið dreift núna í haust til allra nemenda í 6. og 7. bekk á Íslandi. Björn Leví benti á að micro:bit-tölvan væri lítil, handhæg og forritunarleg tölva fyrir unga sem aldna. „Þann 5. maí síðastliðinn var tilkynnt á vef Stjórnarráðsins að hópur nemenda í tölvunarfræði hefði lokið við að þýða forritunarritil tölvunnar yfir á íslensku. Þetta eða sambærilegt verkefni er gríðarlega mikilvægt fyrir vegferð íslenska menntakerfisins inn í 4. iðnbyltinguna. Þetta er fullkomið innlegg fyrir eflingu stafrænna smiðja, samanber tillögu sem samþykkt var í þinginu í vor“, sagði Björn Leví.
Lilja Dögg benti á að ríkisstjórnin leggi mikla áherslu á nýsköpun, rannsóknir og þróun. „Við sjáum að framlög til þessara málaflokka hækka á milli ára um 16,3%. Verið er að setja gríðarlega metnaðarfulla stefnu af stað á vegum ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um að efla þennan málaflokk.“
„Varðandi þetta verkefni þá erum við bara mjög hlynnt því. Við viljum að það haldi áfram. Búið er að fjárfesta heilmikið í því og við munum sjá til þess að sú mikla fjárfesting sem við erum búin að setja í það verkefni geti haldið áfram. Við vitum að það er mikil ánægja með það í grunnskólanum og það er rétt sem fram kemur í máli hv. þingmanns, þetta er einföld tölva. Hún kennir forritun og hjálpar verulega til við það. Það er því ekki á stefnuskrá þessara ráðherra að hætta við þetta verkefni”, sagði Lilja Dögg.
***
Til upplýsingaMicro:bit tölvan