Categories
Greinar

Land er auðlind

Deila grein

22/11/2018

Land er auðlind

Undanfarið hefur talsverð umræða átt sér stað í samfélaginu um eignarhald á bújörðum. Margir hafa áhyggjur af því að Íslendingar séu með andvaraleysi að tapa eignarhaldi á auðlindum á landi. Í september birtist álit starfshóps um endurskoðun eignarhalds á bújörðum. Þar voru settar fram átta tillögur að breytingum á jarðalögum og ábúðarlögum í því skyni að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Forsætisráðuneytið mun leiða áframhaldandi vinnu með tillögurnar, enda snúa sumar þeirra að fleiru en einu ráðuneyti.

Ég álít allt land vera auðlind, landið sjálft, jarðveginn og gróðurinn sem þar þrífst. Sumt land nýtist til matvælaframleiðslu, annað til útivistar og auk þess geta fylgt landi önnur gæði sem enn auka á verðmæti þess, t.d. veiði og vatnsréttindi. Meðferð og notkun alls lands skiptir alla landsmenn máli, bæði nú og til framtíðar. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands og því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og á hverri annarri fasteign.

Þjóðlendur eru nú um 44% landsins, öðru landi er skipt upp í jarðir og þéttbýli. Bújarðir ná því yfir meira en 50% Íslands og eru um 7.000 talsins. Undanfarin ár hefur fólk sem ekki er búsett á Íslandi sóst í auknum mæli eftir eignarhaldi á jörðum. Við það færist eignarhald auðlinda úr landi, auk þess hafa vaknað spurningar um eignasöfnun á fárra hendur og ítrekað kemur upp vandi vegna óþekkts og óljóss fyrirsvars jarða.

Reglulega kemur upp umræða um mögulegar leiðir til að hafa áhrif á ráðstöfun lands en útfærslan hefur þvælst fyrir okkur. Ástæðuna tel ég m.a. vera að það vantar ákveðinn grunn. Annars vegar þarf að undirbyggja markmið landnýtingar í skipulagsáætlunum sveitarfélaga og hins vegar þarf að bæta skráningu á landi.

Stjórnvöld geta beitt ýmsum tækjum til að hafa áhrif á ráðstöfun lands. Ég tel mögulegt að festa í lög eða reglugerð skilyrði um að einstaklingar sem öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir landi skuli hafa lögheimili hér á landi eða hafa haft það áður í tiltekinn tíma. Ég tel að slíkar takmarkanir eigi ekki að vera bundnar við land í landbúnaðarnotum, heldur ná yfir allt land. Eignarhaldi og umsjón lands eiga að fylgja skýr ábyrgð og skyldur.

Stjórnvöld og almenningur hafa áhrif á landnýtingu í gegnum skipulagsáætlanir sveitarfélaga. Þar er hægt að setja markmið um búsetu og sjálfbæra landnýtingu. Sveitarfélög geta skilgreint landbúnaðarland sem halda skal í ræktanlegu ástandi. Þau geta líka tilgreint jarðir þar sem heilsársbúseta telst æskileg og geta þar komið inn fleiri sjónarmið en nýting til landbúnaðar, svo sem styrking samfélaga, öryggissjónarmið, eftirlit lands, eftirlit minja og náttúruvernd.

Við þurfum að þekkja landið, skrá það og skipuleggja. Á þeim grunni getum við útfært eðlilegar takmarkanir og búið til hvata til búsetu, nýtingar og nýsköpunar, í strjálbýli.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. nóvember 2018.