Categories
Greinar

Ólgan í pólitíkinni

Deila grein

21/11/2018

Ólgan í pólitíkinni

Það er ólga í bæjarpólitíkinni í Vestmannaeyjum þessa dagana. Það ætti engum að dyljast það sem á annað borð fylgist með umræðunni. Í henni eru stóru orðin sjaldnast spöruð og því er ekki nema von um að fólk spyrji mig hvort allt sé hreinlega að verða vitlaust.

Meiri- og minnihlutinn hafa vissulega tekist á, meira að segja nokkuð harkalega í hinum ýmsu málum, stórum og smáum. Og manni finnst stundum eins og smáum málum sé breytt í stórmál og að það sé fyrst og fremst gert til þess að vísvitandi skapa ókyrrð og öldurót í bæjarpólitíkinni. En í hverju gæti þessi ólga falist?

  • Ólgan getur falist í því að draga ítrekað í efa heiðarleika Helgu Jóhönnu Harðardóttir formanns fjölskylduráðs, eina heiðarlegustu og samviskusömustu manneskju sem ég hef hitt, í stað þess að umræðan snúist fyrst og fremst um það hvort breyta eigi aldursviðmiðum við úthlutun frístundastyrks til ungmenna.
  • Ólgan getur falist í því að vera tilbúin til þess að saka meirihlutann um ólýðræðisleg vinnubrögð og svik við kjósendur fyrir það eitt að vilja fara að lögum sem sjálfstæðismenn hafa brotið ár eftir ár, allar götur frá árinu 2012.
  • Ólgan getur falist í því að mæta á fund fræðsluráðs án þess að svo mikið sem kynna sér þau gögn sem lágu fyrir fundinum og vera tilbúin til þess, með sömu gömlu rökunum um einræðisleg vinnubrögð, að berjast gegn afnámi ósanngjarnrar vísitölutengingar leikskólagjalda sem orsakaði það að fjölskyldufólk í Vestmannaeyjum þurfti að borga hæstu leikskólagjöld á landinu.
  • Ólgan getur falist í því að koma því þannig fyrir að ekki færri en þrjá bæjarstjórnarfundi þurfti til þess að klára eins ópólitískt mál og hugsast getur; skipun almannavarnarnefndar.
  • Og það er hægt er að skapa ólgu með útúrsnúningum um að meirihlutanum ætli að fela kostnað við framkvæmdir, þrátt fyrir að vita það mæta vel að sérsamþykkt við fjárhagsáætlun þarf til að fara í kostnaðarsamar framkvæmdir á vegum bæjarins, og þær samþykktir eru ræddar bæði í bæjarráði og í bæjarstjórn áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Þegar stjórnmálaöfl boða svo til súpukennslustundar í ólgu og pólitískum óróleika er ekki nema eðlilegt að velta því fyrir sér hvort ástandið þurfi virkilega að vera með þeim hætti sem einkennt hefur kjörtímabilið hingað til. Fyrir mína parta er það alveg ljóst að fólk á að geta sameinast um að vinna að hag bæjarins og íbúa hans á sanngjarnan á heiðarlegan hátt. Úfin pólitísk alda og jafnvel brotsjór er ekki eðlilegt ástand.

Viljum við ekki róa í sameiningu um lygnari sjó?

Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs í Vestmannaeyjum.

Greinin birtist fyrst á eyjarfrettir.is 19. nóvember 2018.