Categories
Greinar

Til hamingju með alþjóðadag barna

Deila grein

20/11/2018

Til hamingju með alþjóðadag barna

Alþjóðadagur barna er haldinn hátíðlegur í dag, 20. nóvember og í tilefni þess er um allan heim vakin sérstök athygli á málefnum sem varða stöðu og réttindi barna. Þetta er mikilvægur dagur fyrir börn og okkur öll, ekki síst vegna þess að þennan dag fyrir 29 árum var Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna samþykktur.

Alþingi Íslendinga samþykkti í tengslum við 25 ára afmæli Barnasáttmálans að helga 20. nóvember ár hvert fræðslu um mannréttindi barna í skólum landsins. Á alþjóðadegi barna minnum við því á þau mikilvægu réttindi sem Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna veitir öllum börnum um allan heim og hve mikilvægt það er að þessi réttindi séu virt og að þeim sé jafnframt fagnað. Það er mikilvægt fyrir samfélagið allt að börn njóti verndar og réttinda á öllum tímum og öllum stöðum, á heimilum sínum, í skólanum og hvar annars staðar í samfélaginu, þannig að þau geti lifað, vaxið, lært og náð að blómstra á eigin forsendum.  Þetta eru ekki bara falleg orð heldur fjárfesting til framtíðar, því hamingja og velgengni barna er fjárfesting í næstu kynslóð. Við eigum að vera meðvituð um þetta og hafa metnað til að gera sífellt betur til að byggja upp betra samfélag og betri heim fyrir börn.

Hér á Íslandi tökum við þessi mál alvarlega og því er þegar hafin endurskoðun á þjónustu við börn og á réttindum barna, þvert á ráðuneyti með aðkomu allra hlutaðeigandi ráðherra og helstu sérfræðinga, þvert á pólitík með samvinnu allra flokka á þingi og þvert á kerfi og fagþekkingu. Allt er þetta skipulagt á þeim grundvelli að við viljum setja börnin í fyrsta sæti og fjárfesta í þeim og framtíð þeirra. Þarfir barna eru mismunandi, almennar og sértækar og það er til margs að líta. Verkefnið er sannarlega umfangsmikið en sú samvinna, samstaða og ástríða fyrir því að gera vel sem einkennir vinnu og samskipti í málaflokknum í tengslum við þessi áform fyllir mig eldmóði og bjartsýni um að raunverulegar breytingar í þágu barna verði að veruleika á næstu árum.

Til marks um mikilvægi þessa og skýran vilja stjórnvalda um að auka áherslu á málefni barna og ungmenna, verður samkvæmt þingsályktunartillögu sem nú liggur fyrir á Alþingi gerð breyting á embættistitli mínum. Frá 1. janúar 2019, sem er þrjátíu ára afmælisár Barnasáttmálans, verður titill minn félags- og barnamálaráðherra. Nýtt ráðuneyti félagmála mun leiða endurskoðun á þjónustu við börn, móta stefnu Íslands til framtíðar og markmið í málefnum barna, tryggja að börn séu í forgangi í allri stefnumótun og tengja betur saman stefnu í málefnum barna og stefnu í efnahagsmálum. Aukið samstarf allra aðila er lykilþáttur við heildarendurskoðun núverandi kerfis, þjónustunnar og úrræða fyrir börn. Þegar rætt er um samstarf og samvinnu í málefnum barna megum við ekki gleyma okkar dýrmætustu ráðgjöfum; börnunum sjálfum.  Barnasáttmálinn kveður skýrt á um að börn skuli ávallt fá að tjá sig um mál sem þau varðar. Við viljum í þessari vinnu að gefa börnum tækifæri til að tjá skoðanir sínar og tala fyrir réttindum sínum og annarra barna heima hjá sér, í skólanum og úti í samfélaginu.

Það er spennandi ferðalag framundan sem við öll þurfum að taka þátt í. Verkefni sem nær yfir öll kerfi og alla pólitík. Verkefni sem, ef vel tekst til, verður besta fjárfesting sem við sem samfélag höfum gert.

Til hamingju með daginn öll börn í nútíð og framtíð, til hamingju allir landsmenn.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. nóvember 2018.