Categories
Fréttir

Mikil uppbygging í kjördæminu

Deila grein

18/10/2023

Mikil uppbygging í kjördæminu

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ræddi kjördæmaviku þingmanna Norðausturkjördæmis í upphafi októbermánaðar í störfum þingsins.

„Þessi vika er afar mikilvæg okkur þingmönnum sem störfum í þágu landsmanna allra og nauðsynlegt fyrir okkur að nýta þetta tækifæri einmitt til að ná samtali, hvort sem það er við stjórnendur sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skólastofnana eða jafnvel fyrirtækja. Seinni kjördæmavikan, sem verður eftir áramót, er þá hugsuð meira fyrir flokkana og líka til að ná frekara samtali við grasrótina,“ sagði Ingibjörg.

Sagði hún þingmenn hafa náð mikilvægum fundum í kjördæminu þó svo að um langan veg hafi verið að fara, enda Norðausturkjördæmi gríðarlega stórt kjördæmi og víðfemt. Voru þingmenn vel nestaðir fyrir verkefni vetrarins.

„Það kemur kannski ekki á óvart að samgöngur voru rauði þráðurinn á öllum þeim fundum sem við áttum með fólki þar sem var verið að tala um mikilvægi þess að tengja saman atvinnusvæði, stytta vegalengdir og auka umferðaröryggi,“ sagði Ingibjörg.

Heilbrigðismál voru rædd og kom fram að margt hefur verið gert, m.a. „að fjölga heilsugæslulæknum og bæta bráðaþjónustu, en auðvitað má standa enn betur að þessu þó að vel sé gert.“

„Það var virkilega ánægjulegt að sjá þessa miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað í kjördæminu, húsnæðisuppbyggingu víða þar sem ekki hefur sést húsnæðisuppbygging í mörg ár, mikil uppbygging hvað varðar atvinnu og tækifæri og fleira og fleira,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Mig langar að nýta tækifærið hér og fara aðeins yfir kjördæmavikuna okkar sem var haldin í upphafi októbermánaðar. Við þingmenn Norðausturkjördæmis ferðuðumst saman og byrjuðum á Austurlandi og fikruðum okkur sífellt nær Norðurlandinu. Þessi vika er afar mikilvæg okkur þingmönnum sem störfum í þágu landsmanna allra og nauðsynlegt fyrir okkur að nýta þetta tækifæri einmitt til að ná samtali, hvort sem það er við stjórnendur sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skólastofnana eða jafnvel fyrirtækja. Seinni kjördæmavikan, sem verður eftir áramót, er þá hugsuð meira fyrir flokkana og líka til að ná frekara samtali við grasrótina.

Það er óhætt að segja að Norðausturkjördæmi sé gríðarlega stórt kjördæmi og víðfemt og um langan veg að fara en við náðum mjög mikilvægum fundum með sveitarstjórnarfólki, stjórnendum heilbrigðisstofnana, menntastofnana og við heimsóttum einnig fjölmörg fyrirtæki. Það er hægt að segja það að við fengum gríðarlega mikilvægt veganesti inn í störf okkar núna í vetur og efni sem við erum enn að vinna með. Vissulega náðum við ekki, því miður, að heimsækja alla en nú er unnið að því að skipuleggja fundi með þeim aðilum.

Það kemur kannski ekki á óvart að samgöngur voru rauði þráðurinn á öllum þeim fundum sem við áttum með fólki þar sem var verið að tala um mikilvægi þess að tengja saman atvinnusvæði, stytta vegalengdir og auka umferðaröryggi. Við sjáum það á landsbyggðinni hversu mikilvægt þetta er þar sem vegalengdirnar eru langar. Einnig var verið að ræða heilbrigðismál og hvað hefur verið gert því að það er ansi margt sem hefur verið gert í þeim málum, m.a. að fjölga heilsugæslulæknum og bæta bráðaþjónustu, en auðvitað má standa enn betur að þessu þó að vel sé gert. Það var virkilega ánægjulegt að sjá þessa miklu uppbyggingu sem hefur átt sér stað í kjördæminu, húsnæðisuppbyggingu víða þar sem ekki hefur sést húsnæðisuppbygging í mörg ár, mikil uppbygging hvað varðar atvinnu og tækifæri og fleira og fleira. Ég vil nýta tækifærið og þakka þeim sem sá um skipulagið fyrir mig og með mér, þ.e. SSNE og Austurbrú.“