Categories
Fréttir

„Mikilvægt skref til að jafna aðstöðumuninn“

Deila grein

20/01/2022

„Mikilvægt skref til að jafna aðstöðumuninn“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, vakti athygli á í störfum þingsins að frá áramótum muni Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í ferðakostnaði vegna ítrekaðra ferða einstaklinga í fyrirbyggjandi meðferð sem ætlað er að koma í veg fyrir illkynja sjúkdóma. Hrósaði hún þeim einstaklingum og samtökum sem hafa barist fyrir úrbótum í þessum efnum en jafnframt stjórnvöldum fyrir að hafa brugðist við. 

„Það er samt óásættanlegt að hver og einn einstaklingur þurfi að berjast fyrir sínum rétti eða að breytingar bíði þar til einhver sem hefur orku til fer í að berjast fyrir framförum,“ sagði Líneik Anna.

„Á síðasta þingi vakti ég ítrekað athygli á aðstöðumun fólks eftir búsetu ef það ber meinvaldandi BRCA-gen og nýtir sér fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu í samræmi við ráðleggingar þar um. Kostnaður vegna tíðra ferða í tengslum við eftirlit vegna BRCA og aðgerða getur orðið gríðarlegur fyrir hvern einstakling. Til dæmis má gera ráð fyrir 8–20 ferðum í tengslum við áhættuminnkandi aðgerðir. Bara ferðakostnaðurinn getur þá orðið hálf til ein milljón. Ferðir geta líka orðið fleiri og þar fyrir utan er það dvalarkostnaðurinn,“ sagði Líneik Anna.

Sagði hún nauðsynlegt að reglur um endurgreiðslu ferðakostnaðar þeirra sem búsettir eru á landsbyggðinni og þurfa að sækja sérhæfða heilbrigðisþjónustu til höfuðborgarsvæðisins séu endurskoðaðar jafnóðum samhliða þróun þjónustunnar. 

„Það getur ekki verið að fólk á landsbyggðinni eigi að vera í þeirri stöðu að taka ákvarðanir um nýtingu á heilbrigðisþjónustu í ljósi ferðakostnaðar og fjárhagsstöðu. Hér var stigið mikilvægt skref til að jafna aðstöðumuninn með breytingu á reglugerð. Því ber að fagna. Höldum áfram á sömu braut,“ sagði Líneik Anna.