Categories
Fréttir

Salan á Mílu ógnar ekki þjóðaröryggi Íslands – en sala á grunninnviðum er ekki áhættulaus

Deila grein

20/01/2022

Salan á Mílu ógnar ekki þjóðaröryggi Íslands – en sala á grunninnviðum er ekki áhættulaus

Franskur sjóðsstýringarfyrirtækið Ardian France SA hefur keypt Mílu af Símanum. Stjórnvöld hafa til skoðunar og mats á því hvort áform um fjárfestingu á tilteknum sviðum geti ógnað tilteknum grundvallarhagsmunum ríkisins og almennings þegar íslenskt einkafyrirtæki selur erlendum aðila undirfyrirtæki sem er samfélagslega mikilvægt.

Stjórnvöld fóru í viðræður við Símann sem seljanda Mílu, Ardian sem kaupanda Mílu, sem og við Mílu. Það leiddi til samkomulags um tilteknar kvaðir vegna þjóðhagslega mikilvægra fjarskiptaneta Mílu. Samkomulagið er í takt við upplegg og áherslur ríkisstjórnarinnar í viðræðunum og er samningurinn staðfestur af ríkisstjórninni. Jafnframt fór fram rýni á grundvelli laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og var kallað eftir upplýsingum um eigendur og helstu lykilstarfsmenn Ardian.

Ardian er franskt sjóðastýringarfyrirtæki með u.þ.b. 120 milljarða dala í stýringu. Fjárfestar í þeim sjóðum Ardian sem hér eiga í hlut eru 190 talsins og þar er einkum um að ræða alþjóðlega stofnanafjárfesta. Fjárfestarnir, sem eru að meginstefnu til lífeyrissjóðir og vátryggingafélög, eiga ekki að hafa áhrif á einstaka fjárfestingarsjóði Ardian og niðurstaðan var að ekki sé tilefni til að stöðva viðskiptin. Salan er hins vegar til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, sagði í sérstakri umræðu á Alþingi um sala Símans á Mílu til erlendra fjárfesta þurfi að sæta eftirfylgni stjórnvalda og byggja á skýru verklagi og ferlum um upplýsingamiðlun og reglubundnu endurmati, hver svo sem kaupandinn er, hvort sem hann er innlendur eða erlendur.

„Hins vegar er sala á grunninnviðum, eins og kerfi Mílu, ekki áhættulaus.“

Fyrir liggur að einkafyrirtæki er að selja erlendum aðila undirfyrirtæki. Stjórnvöld eru með til skoðunar og mats á því hvort áform um fjárfestingu á tilteknum sviðum geti ógnað tilteknum grundvallarhagsmunum ríkisins og almennings.

„Félagið Míla er samfélagslega mikilvægt og heldur utan um þá grunninnviði sem eru þjóðhagslega mikilvægir. Fjarskipti verða sífellt nauðsynlegri liður nútímasamfélags. Það er ekki bara að ná í næsta mann eða geta unnið heiman frá sér heldur er þjóðaröryggi undir. Þeir innviðir sem til þarf eru mikilvægir í því sambandi og sá grunnur sem nútímasamfélagið og atvinnulíf okkar stendur á. Tilgangur Mílu er að byggja upp, viðhalda og reka innviði fjarskiptaþjónustu um allt land. Félagið snertir því okkur öll. Kerfi Mílu eru grunnur að fjölþættri fjarskiptaþjónustu,“ sagði Halla Signý.

„Við erum með lög í landinu sem tryggja staðsetningu kjarnabúnaðar á sviði fjarskipta hérlendis. Það er gert með vísan til þjóðaröryggishagsmuna og í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland er kveðið á um að tryggja skuli vernd grunnvirkja og núverandi starfsemi Mílu lýtur nú þegar ákvæðum laga er varða öryggishagsmuni,“ sagði Halla Signý.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, fór og yfir málið í sömu umræðu og sagði söluna hafa verið til umfjöllunar hjá þjóðaröryggisráði.

„Þeirri skoðun er ekki lokið en af aðgengilegum gögnum get ég ekki séð að salan ógni þjóðaröryggi Íslands. Í nýjum lögum um Fjarskiptastofu eru ríkar heimildir til eftirlits sem og skilyrði um að allur búnaður þurfi að vera framleiddur af ríkjum sem Ísland á í öryggissamstarfi við, eða ríkjum innan EES,“ sagði Hafdís Hrönn.

Í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland er tryggð vernd grunnvirkja og hægt að lögbinda staðsetningu kjarnabúnaðar á sviði fjarskipta í landinu.

Eftirfylgni stjórnvalda með framkvæmd samkomulagsins verður að byggjast á skýru verklagi og ferlum um upplýsingamiðlun, nauðsynlegt samstarf og reglubundið endurmat með tilliti til mikilvægis þjóðaröryggishagsmuna.

„Með nýframlögðu frumvarpi um breytingu á lögum um fjarskipti og lögum um fjarskiptastofu og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri tel ég að við getum tryggt betur öryggi fjarskiptanets Íslendinga með góðum hætti. Mikilvægt er að enginn vafi leiki á því að öryggi grunninnviða fjarskipta á Íslandi sé með öllu tryggt til hlítar því að það skiptir miklu máli að þingið taki umræðuna og ég þakka fyrir að fá tækifæri til að koma að fyrrgreindum sjónarmiðum,“ sagði Hafdís Hrönn.