„Hæstv. forseti. Ég er hér í dag til að ræða málefni sem snertir barnafólk á landsbyggðinni. Á síðastliðnum árum og áratugum hefur fæðingarþjónusta á landsbyggðinni verið skert gríðarlega mikið og er í dag aðeins hægt að fæða börn á örfáum stofnunum á landinu. Þessum skerðingum hefur ekki verið fylgt eftir hvað varðar stuðning við foreldra sem þurfa að sækja fæðingarþjónustu langa leið og þurfa jafnvel að halda tvö heimili á meðan beðið er eftir fæðingu, sem geta verið nokkrir dagar og allt upp í nokkra mánuði.
Hv. þm. Framsóknarflokksins, Silja Dögg Gunnarsdóttir, hefur lagt fram frumvarp sem snýr að því að lögum verði breytt svo að þeir foreldrar sem búa fjarri fæðingarstað og þurfa að bíða fæðingar fjarri heimili fái þann tíma sem viðbót við fæðingarorlof. Þetta frumvarp er mikilvægur hluti í að bæta úr þessu vandamáli en það þarf að huga að fleiri þáttum. Röskun á heimilislífi, kostnaður við að halda tvö heimili, barnapössun, vinnutap — þetta eru aðeins nokkur atriði sem þarf að huga að. Í dag er enginn styrkur í boði fyrir fólk í þessum aðstæðum nema hægt er að fá greiddan ferðakostnað frá heimili að fæðingardeild og til baka. Ástæðan sem er gefin er sú að fólk velur sjálft að búa á stað fjarri fæðingardeild og því er þetta á þeirra kostnað. Það er að mínu mati ekkert jafnrétti í því.
Einn kostur í stöðunni væri að hafa sérstaka verðskrá fyrir fólk í þessari stöðu á sjúkrahóteli en í dag þarf barnsfaðir að greiða 6 þús. kr. á sólarhring á meðan móðir, sjúklingurinn, greiðir tæpar 1.500 kr á sólarhring. Þarna þarf líka að huga að jafnrétti.
Ég vil biðla til þingsins að hafa þetta í huga og koma þessum málum í góðan farveg. Það er alveg nógu mikið álag að koma nýju lífi í þennan heim án þess að fjárhagsáhyggjur og fleira bætist þar ofan á.“
Lilja Sigurðardóttir í störfum þingsins 7. febrúar 2017:
Categories
Nauðsyn stuðnings við foreldra vegna fæðingarþjónustu
08/02/2017
Nauðsyn stuðnings við foreldra vegna fæðingarþjónustu