Categories
Fréttir

Viðvörunarbjöllur klingja

Deila grein

08/02/2017

Viðvörunarbjöllur klingja

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Líkt og þorrinn kemur alltaf með sín þorrablót, mikla gleði og spenning en óhjákvæmilega timburmenn í kjölfarið í sumum tilfellum, þá rennur hið svokallaða áfengisfrumvarp út frá Sjálfstæðismönnum með reglubundnum hætti. Enn er það komið fram.
Hæstv. forseti. Ég ætlaði svo sem ekkert að næra þetta mál með mikilli athygli en get þó ekki orða bundist. Það er yfirlýst stefna núverandi ríkisstjórnar að setja heilbrigðismálin í forgang. Það er vel. En það skýtur verulega skökku við að hér ætli menn að leggja fram þetta mál sem, eins og rannsóknir sýna, mun skaða þjóðina bæði heilsufarslega og fjárhagslega. Þurfum við ekki að taka mark á sérfræðingum og fræðimönnum þegar kemur að áfengi og meðferð þess? Hverjir munu græða á þessu? Hverjum er það hagfellt að hafa aukið aðgengi að áfengi?
Það munu fáir græða á því ef af verður. Viðvörunarbjöllur klingja. Landlæknir varar við og bendir á ýmsar rannsóknir máli sínu til stuðnings. En hér eru menn bara hressir og finnst upplagt að ganga á móti t.d. tillögu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem felur m.a. í sér bann á auglýsingum og takmörkuðu aðgengi að áfengi til að varna ofneyslu þess.
Við höfum ágætt fyrirkomulag sem aðrar þjóðir horfa til sem fyrirmyndar. Ég sé ekki ástæðu til að koma á breytingum sem lýðheilsurannsóknir benda til að auki neyslu í öllum hópum samfélagsins og muni hafa skaðleg áhrif á heilsufar þjóðarinnar.
Í ljósi þess að það kostar sitt og í ljósi þess að flutningsmenn hafa talað fyrir ráðdeildarsemi og góðri nýtingu fjármuna ríkisins skil ég ekki þetta framtak sem aukið gæti kostnað þjóðarinnar um 35 milljarða, samkvæmt því sem fram kom í fréttum í gær.
Hæstv. forseti. Mér sýnist ekki veita af því að heilbrigðisáætlun okkar Framsóknarmanna komist til framkvæmda.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 7. febrúar 2017.