Categories
Fréttir

Sandra Rán býður sig fram í formann SUF

Deila grein

08/02/2017

Sandra Rán býður sig fram í formann SUF

file
Sandra Rán Ásgrímsdóttir býður sig fram til formanns Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF) á komandi sambandsþingi SUF 17.-18. febrúar n.k.  í Kópavogi. Sandra Rán yrði þá fimmta konan til að gegna embætti formanns SUF í 79 ára sögu sambandsins. Áður hafa Siv Friðleifsdóttir, Dagný Jónsdóttir, Bryndís Gunnlaugsdóttir og Ásta Hlín Magnúsdóttir gegnt embætti formanns SUF.
Framboðsyfirlýsing Söndru Ránar:
Í gegnum árin hef ég öðlast góða þekkingu á fjölbreyttu starfi SUF, styrkleikum þess og veikleikum. Við búum yfir fjölbreyttum hópi ungmenna um allt land og þessi hópur gefur okkur góða yfirsýn yfir málefni sem snúa að ungu fólk.  Með það að markmiði að gera gott starf enn betra hef ég ákveðið að gefa kost á mér til formanns Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF) á komandi Sambandsþingi þann 18. febrúar.
Ég lauk B.Sc. námi í umhverfis- og byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands 2013 og mastersnámi í sjálfbærniverkfræði frá Cambridge háskóla í Englandi árið 2015. Í dag starfa ég sem verkfræðingur í Reykjavík en er fædd og uppalin á Höfn í Hornafirði. Ég hef verið virk í starfi Sambands ungra Framsóknarmanna frá því að ég flutti í höfuðborgina og hef komist í kynni við fjölbreytt störf innan sambandsins. Ég hef meðal annars gengt embætti ritara og gjaldkera, verið formaður alþjóðanefndar ásamt því að vera almennur meðlimur í stjórn og varastjórn SUF. Ég hef sótt viðburði erlendis fyrir sambandið og er í dag varaformaður ungliðahreyfinga norrænna miðjuflokka (NCF) fyrir hönd SUF. Ég hef einnig gengt trúnaðarstörfum innan flokksins, átt sæti í miðstjórn og verið á lista flokksins í Suðurkjördæmi í síðustu tvennum þingkosningum.
Ég tel að það sé mikilvægt að við eflum samband SUF við ungt fólk um allt land en einnig við aðrar stofnanir flokksins. SUF á að vera málsvari ungs fólks í Framsóknarflokknum og því er mikilvægt að vera í góðu sambandi við forsvarsmenn flokksins ásamt því að veita þingflokknum gott aðhald í þeim málefnum sem að okkur snúa.
Sandra Rán Ásgrímsdóttir