Íslendingar búa við öfundsverða stöðu í samanburði við margar aðrar Evrópuþjóðir. Atvinnuleysi hefur ekki verið þjóðarmein hér á landi, eins og sums staðar annars staðar í Evrópu. Sérstaklega ber að nefna stöðu ungs fólks í álfunni þar sem atvinnuleysi mælist sums staðar mjög hátt og hefur verið viðvarandi vandamál í áratugi. Einnig blasir við að hagvöxtur er hverfandi í mörgum þessara ríkja og samfélög þeirra glíma við alvarlegar áskoranir í rekstri og uppbyggingu velferðar.
Í þessu ljósi er mikilvægt að staldra við þegar rætt er um að hefja vegferð inn í Evrópusambandið. Slík vegferð mun óhjákvæmilega kljúfa þjóðina í andstæðar fylkingar og færa fókusinn frá því sem er brýnasta verkefni okkar allra: að ná tökum á efnahagsmálum þjóðarinnar.
Umræða um aðildarviðræður við Evrópusambandið virðist nú, að minnsta kosti að hluta, tilraun til að beina athyglinni frá þeim áskorunum sem stjórnvöld glíma við í efnahagsmálum. Þjóðin finnur fyrir þrýstingi vegna hárra vaxta, viðvarandi verðbólgu og – þess vegna – óvissu í daglegu lífi. Við vitum að lausnin felst ekki í því að hefja langvarandi og erfiða vegferð sem krefst mikils tíma, fjármagns og pólitísks þunga, heldur í því að stjórnvöld standi sig í grunnverkefnunum heima fyrir.
Við í Framsókn leggjum ríka áherslu á að sýna þjóðinni traust í jafn stóru álitaefni líkt og aðildarviðræður við Evrópusambandið eru. Það hefur áður sýnt sig að þjóðin getur tekið afgerandi ákvarðanir um stór mál sem varða framtíð hennar. Í Icesave-málinu hrakti þjóðin áætlanir Jóhönnustjórnarinnar 2009-2013 í þjóðaratkvæðagreiðslum, meðal annars fyrir tilstilli öflugs málflutnings okkar í Framsókn á Alþingi. Sumir kölluðu það málþóf, en sagan hefur sýnt að málflutningurinn var réttlætanlegur og að niðurstaðan var þjóðinni til heilla. Af þeirri reynslu má draga skýra ályktun: ef rætt er um að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið er eðlilegast að þjóðin sjálf hafi upphafsorðið um hvort farið sé í þá vegferð.
Við í Framsókn stöndum vörð um þá einföldu en mikilvægu staðreynd að Ísland hefur alla burði til að móta sína eigin framtíð. Við búum yfir miklum auðlindum, sterkri stöðu í atvinnumálum og samfélagi sem hefur margoft sýnt getu til að mæta áskorunum. Þess vegna segjum við: Þetta er ekki rétti tíminn til að etja þjóðinni í innbyrðis deilur um aðild að Evrópusambandinu.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. ágúst 2025.