Categories
Fréttir

Ný Framsókn fyrir landið allt

Deila grein

21/03/2022

Ný Framsókn fyrir landið allt

Samantekt af 36. Flokksþingi Framsóknar

Nú um helgina kom Framsókn saman á fyrsta flokksþingi í 4 ár. Góð mæting var á þingið og greina mátti mikla ánægju með það að lífið er að færast í eðlilegt horf eftir heimsfaraldur Covid-19.

Í stjórnmálaályktun frá þinginu kemur fram að Framsókn standi heils hugar með fólkinu í Úkraínu. Með innrás sinni brjóta yfirvöld í Rússlandi landamæri og alþjóðleg lög og stefna milljónum saklausra borgara á flótta frá heimilum sínum. Þingið var sammála um að við eigum að gera allt það sem í okkar valdi stefndur til þess að hjálpa úkraínsku þjóðinni og taka á móti fólki sem neytt hefur verið á flótta. Á þinginu var meðal annars ályktað um eftirfarandi málaflokka.

Erfið staða er á húsnæðismarkaði, tryggja þarf nægjanlegt lóðaframboð og stórauka húsnæðisbyggingu á næstu árum um allt land. Takast þarf á við hækkandi verðbólgu og halda þarf áfram að reka ábyrga hagstjórn sem byggir á stöðugleika og hefur það að markmiði að tryggja kaupmátt hins almenna borgara.

Styðja þarf við uppbyggingu hringrásarhagkerfis og sporna gegn sóun. Framsókn vill að markvisst verði stefnt að því að uppfylla Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal þau sem varða umhverfis- og loftlagsmál og að almenningur hafi tækifæri til þess að hafa áhrif á þau.

Tryggja þarf að nægt framboð sé til staðar af grænni orku fyrir heimilin í landinu, atvinnulífið og orkuskiptin, ásamt framleiðslu á rafeldsneyti. Ísland hefur öll tækifæri til þess að verða leiðandi í grænum lausnum sem leysa munu jarðefnaeldsneyti af hólmi og í því samhengi er mikilvægt að hið opinbera og almenningur styðji við nýsköpunarfyrirtæki.

Innlend matvælaframleiðsla hefur aldrei verið brýnni en nú þar sem hún eykur fæðuöryggi og dregur úr kolefnisspori landsins í heild. Tryggja þarf matvælaframleiðendum á Íslandi sanngjörn starfsskilyrði og ýta undir nýsköpun í allri matvælaframleiðslu. Sækja þarf fram í íslenskum matvælaiðnaði og draga fram sérstöðu íslenskra matvæla. Mikilvægt er að við séum sjálfum okkur nóg.

Hlúa þarf vel að fjölskyldufólki og létta byrðar á þeim sem þyngstar bera og þá sérstaklega einstæðum foreldrum. Endurskoða þarf sérstaklega stuðningskerfi ríkisvaldsins með hliðsjón af þessu.

Huga þarf að okkar eldri fólki og tryggja að þau hafi sjálfræði yfir eigin lífi. Setja á málefni eldra fólks í sama farveg og málefni barna. Einstaklingurinn á að vera hjartað í kerfinu. Framsókn vill fjárfesta í fólki.

Fara þarf í heildarendurskoðun á málefnum öryrkja með það að markmiði að bæta stöðu þeirra og virkni innan samfélagsins og vinnumarkaðarins. Koma þarf til móts við húsnæðisvanda öryrkja með húsnæðisátaki.

Flokksþing Framsóknar haldið á Grand hótel Reykjavík 19.-20. mars 2022

Halda þarf áfram markvissri uppbyggingu heilsugæslunnar og auka þátt hennar í fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu. Auka þarf fjarheilbrigðisþjónustu og bæta aðgengi að sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni. Skoða þarf einnig til hlítar hvernig skilvirkni í heilbrigðiskerfinu er aukin, hvort sem þjónustan byggir á einka- eða ríkisrekstri.

Mikilvægt er að styðja enn frekar við skapandi greinar, listir og menningarstarfsemi, ekki síst vegna þess að sýnt hefur verið fram á að slíkur stuðningur skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Þá vill Framsókn hækka endurgreiðslu til kvikmyndargerðar í 35%, en kvikmyndagerð er ört vaxandi iðngrein sem hefur alla burði til að styðja við verðmætasköpun og samkeppnishæfni þjóðarbúsins á næstu árum og áratugum.