Categories
Fréttir

Ný öflug stjórn — samvinnan sterkasta tólið sem við höfum

Deila grein

05/05/2022

Ný öflug stjórn — samvinnan sterkasta tólið sem við höfum

Miðvikudaginn 27. apríl var haldinn aðalfundur Framsóknarfélagsins í Árborg. Fyrir fundinn var ljóst að þrír aðalmenn myndu víkja úr stjórn. Það voru þau Björn Harðarson formaður, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir gjaldkeri og Vilhjálmur Sörli Pétursson meðstjórnandi.

Björn Harðarson hefur verið formaður félagsins undanfarin átta ár og verið formaður kjördæmaráðs Suðurlands síðastliðin 6 ár. Undir stjórn Bjarnar komst Framsókn í meirihluta í bæjarstjórn árið 2018 með Helga Sigurð Haraldsson sem oddvita flokksins. Listinn bauð þá fram undir nafninu „Framsókn og óháðir“. Síðastliðið ár átti stjórnin og félag Framsóknar í Árborg hlut í því að Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir var tilnefnd í prófkjör fyrir alþingiskosningarnar 2021 sem endaði með því að hún var kjörinn á þing sem þriðji þingmaður Framsóknar og 7. þingmaður Suðurkjördæmis.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir víkur úr stjórn sem gjaldkeri og meðstjórnandi félagsins. Hafdís kom inn í stjórn félagsins árið 2019 eftir að hafa aðstoðað með sveitarstjórnarkosningarnar 2018, þar sem hún sá meðal annars um samfélagsmiðla framboðsins. Eins og öllu Framsóknarfólki er kunnugt um þá var  Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir kjörin á Alþingi síðastliðið haust.

Vilhjálmur Sörli Pétursson hefur verið meðstjórnandi félagsins síðastliðin í 7 ár og hefur meðal annars gengt stöðu ritara stjórnar. Hann hefur komið að kosningastjórn í sveitastjórnarkosningum og hefur ásamt konu sinni Fjólu Ingimundardóttur séð um vöfflukaffið í Árborg til fjölda ára. Vöfflukaffið hefur verið helsta límið í félagsstarfsemi Framsóknar í Árborg og eiga þau stóran þátt í að halda grasrótinni virkri undanfarin ár. Hjónin hafa sinnt þessu óeigingjarna starfi af ást og alúð.

Þrátt fyrir að framangreindir aðilar eru farin úr stjórn félagsins er fullvíst að þau munu taka þátt í félagsstarfsemi Framsóknar, munu hafa aðhald að nýkjörinni stjórn og leggja sitt að mörkum í að endurvekja öflugt Framsóknarvígi í Árborg.  

Á aðalfundinum var kosið um nýjan formann og stóð kjörið milli Andra Björgvins Arnþórssonar og Valgeirs Ómars Jónssonar. Niðurstaða kosningarinnar var sú að Andri Björgvin Arnþórsson hlaut meirihluta greiddra atkvæða og úr varð að hann er nýkjörinn formaður Framsóknarfélagsins í Árborg. Andri Björgvin er lögfræðingur og starfar hjá Lögvernd lögmannsstofu og er kosningastjóri Framsóknar í Árborg í yfirstandandi kosningum.

Eins og við Framsóknarfólk vitum best er samvinnan sterkasta tólið sem við höfum og því skiptir teymið mestu máli. Auk formannsins er var öflug stjórn kosin og hana skipa þau:

Anný Björk Guðmundsdóttir, rekstrarstjóri Johan Rönning á Selfossi,
Kolbrún Júlía Erlendsdóttir, sérfræðingur á sviði kjaramála hjá VR,
Páll Sigurðsson, skógfræðingur, og
Stefán Gunnar Stefánsson, iðnfræðingur og fageftirlitsmaður fjárfestingarverkefna hjá Veitum.

Varamenn eru þau:
Ingibjörg Jóhannesdóttir,
Fjóla Ingimundardóttir, hjúkrunarfræðingur, og
Valgeir Ómar Jónsson, vélfræðingur og sagnfræðingur.