Categories
Greinar

Ég vil hlakka til að eldast með reisn í Kópavogi

Deila grein

05/05/2022

Ég vil hlakka til að eldast með reisn í Kópavogi

Eldri íbúar Kópavogs hafa aldrei verið fleiri en akkúrat núna, þau eru rúmlega 5000 talsins og þessi hópur kemur aðeins til með að stækka á komandi árum. Sem er vel og hafa skal í huga að þessi sístækkandi hópur, nær yfir fólk sem er eins mismunandi og þau eru mörg. Aldursbreidd aldraðra í Kópavogi spannar 36 ár, eða frá 67 til 103 ára. Það liggur því í augum uppi að hópurinn hefur ólíkar þarfir og ótækt að ætla að setja þetta fólk allt saman undir einn hatt. Það þýðir meðal annars að við getum alls ekki gert ráð fyrir að þau þurfi einsleita þjónustu. Einhverjir þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, læknisaðstoð og aðhlynningu meðan aðrir eru mjög frískir og fjörugir og vilja ólíkt meiri afþreyingu, fjölbreytta hreyfingu og mögulega heimaþjónustu. Við þurfum að mæta öllu þessu fólki og gera það vel.

Það eru forréttindi að fá að eldast og sveitarfélög eiga og mega setja það í forgang að hlúa vel að eldra fólki sem vill sækja þá þjónustu sem því hugnast innan síns sveitarfélags. Við hljótum öll að geta verið sammála um að vilja stuðla að því að fólki líði sem best, það haldi góðri heilsu og geti verið heima hjá sér í öryggi eins lengi og þau vilja. Fólk verður að hafa val og það verður að geta sótt þá þjónustu sem hentar hverjum og einum. Gleymum því heldur ekki að sumir njóta þess að búa heima hjá sér en vilja gjarnan eiga kost á því að fara í þjálfun eða dagdvöl á daginn.

Framsókn telur sérlega mikilvægt að bæta við dagþjálfunardeildum í bænum. Þar verðum við að gera betur! Að gera eldra fólki kleift að eldast með reisn á að vera forgangsatriði hjá okkur. Við í Framsókn viljum brúa bilið milli þess að búa heima og flytja á hjúkrunarheimili með því að stuðla að byggingu minni íbúða sem tengjast þjónustukjarna sem ætlaður er eldri borgurum. Það hefur sýnt sig að það er form sem hentar eldri borgurum vel. Við viljum hjálpa eldra fólki að styrkja félagsnet sitt og vinna að forvörnum gegn félagslegri einangrun og einmannaleika með eflingu félagsmiðstöðvanna í bænum.

Fjölbreytni, framboð og val er lykillinn að góðri lýðheilsu eldra fólksins okkar og með þau gildi að leiðarljósi, getum við öll hlakkað til að eldast í Kópavogi.

Björg Baldursdóttir, skólastjóri Kársnesskóla skipar 3.sæti á lista Framsóknar í Kópavogi..

Greinin birtist fyrst á kgp.is 5. maí 2022.