Categories
Fréttir

Nýtt námsstyrkjakerfi: „Róttæk breyting á núverandi fyrirkomulagi“

Deila grein

10/07/2019

Nýtt námsstyrkjakerfi: „Róttæk breyting á núverandi fyrirkomulagi“

Frumvarpsdrög nýrra laga um námsstyrkjakerfi Stuðningssjóðs íslenskra námsmanna (SÍN) hafa nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Með frumvarpinu er lagt til að innleitt verði nýtt námsstyrkjafyrirkomulag samhliða námslánakerfinu.
„Þetta er róttæk breyting á núverandi fyrirkomulagi sem mun stuðla að lægri skuldsetningu námsmanna að námi loknu. Þetta er mikilvægt skref í þá átt að bæta kjör og aðstæður námsmanna líkt og fjallað er um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Nýtt námsstyrkjakerfi mun stuðla að bættri námsframvindu háskólanema, og þar með aukinni skilvirkni og betri nýtingu fjármuna í menntakerfinu. Námsaðstoð ríkisins verður gagnsærri, staða þeirra námsmanna sem þurfa á frekari styrkjum að halda sökum félagslegra aðstæðna verður efld og jafnræði mun aukast milli námsmanna. Þá veitir nýja fyrirkomulagið lánþegum meira frelsi til að velja hvernig þeir haga sínum lánamálum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Meðal helstu breytinga í frumvarpinu:

Lánþegar sem ljúka prófgráðu innan tilgreinds tíma geta fengið námsstyrk sem nemur 30% af höfuðstóli námsláns þeirra. Styrkurinn er í formi niðurfellingar sem kemur til framkvæmda að námi loknu.

Námsstyrkur verður veittur vegna framfærslu barna lánþega.

Veitt er heimild til tímabundinna ívilnana við endurgreiðslu námslána til lánþega sem búa og starfa í brothættum byggðum.

Veitt er heimild til tímabundinna ívilnana við endurgreiðslu námslána til lánþega vegna tiltekinna námsgreina, svo sem starfs- og verknáms eða kennaranáms.

Endurgreiðslutími námslána er almennt háður lántökufjárhæð en námslán skal ávallt vera að fullu greitt á 65. aldursári lánþega. Námslán greiðast með mánaðarlegum afborgunum í stað tveggja afborgana á ári hverju. Ljúki lánþegi námi fyrir 35 ára aldur getur hann valið hvort endurgreiðslan sé tekjutengd eða með jöfnum greiðslum.

Nýmæli er að lánþegar geta valið við námslok um hvort þeir endurgreiði námslán með óverðtryggðu eða verðtryggðu skuldabréfi.

Framfærsla námsmanna verður almennt sú sama á Íslandi og erlendis. Veitt er heimild til stjórnar SÍN um að bæta við staðaruppbót til erlendra lánþega í úthlutunarreglum sjóðsins, þ.e. viðbótarláni sem miðast við kostnað og aðrar sérstakar aðstæður á hverjum stað.

Frumvarpið mun leysa af hólmi gildandi lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992. Það er afrakstur heildarendurskoðunar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem lengi hefur staðið yfir. Á undanförnum árum hafa verið lögð fram tvö frumvörp til heildarlaga um Lánasjóð íslenskra námsmanna, á 141. löggjafarþingi vorið 2013, og 145. löggjafarþingi vorið 2016. Athugasemdir sem bárust við þau frumvörp voru höfð til hliðsjónar við gerð þessa frumvarps.

***

Nýtt námsstyrkjafyrirkomulag samhliða námslánakerfinu:

Róttæk breyting – lægri skuldsetning – bætt námsframvinda – efld staða vegna félagslegra aðstæðna – aukið jafnræði – meira valfrelsi.