Categories
Greinar

Stuðningssjóður íslenskra námsmanna

Deila grein

10/07/2019

Stuðningssjóður íslenskra námsmanna

Frum­varps­drög til nýrra laga um náms­styrkja­kerfi Stuðnings­sjóðs ís­lenskra náms­manna (SÍN) hafa nú verið birt í sam­ráðsgátt stjórn­valda. Að þeim hef­ur verið unnið á vett­vangi mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­is­ins um hríð, í góðu sam­starfi við helstu hags­munaaðila. Mark­miðið nýs kerf­is er aukið jafn­rétti til náms, jafn­ari styrk­ir til náms­manna, betri nýt­ing op­in­bers fjár og auk­inn stuðning­ur við fjöl­skyldu­fólk. Þetta er rót­tæk breyt­ing á nú­ver­andi fyr­ir­komu­lagi sem mun stuðla að betri stöðu náms­manna að námi loknu. Þetta er mik­il­vægt skref í þá átt að bæta kjör og aðstæður náms­manna líkt og fjallað er um í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Skýr­ari stuðning­ur

Grund­vall­ar­breyt­ing með nýju frum­varpi er að lánþegar sem ljúka próf­gráðu inn­an til­greinds tíma geta fram­veg­is fengið náms­styrk sem nem­ur 30% af höfuðstóli náms­láns þeirra. Það er mik­il kjara­bót fyr­ir náms­menn en styrk­ur­inn er í formi niður­fell­ing­ar sem kem­ur til fram­kvæmda að námi loknu. Þá verður veitt­ur náms­styrk­ur vegna fram­færslu barna lánþega og veitt­ar heim­ild­ir til tíma­bund­inna íviln­ana við end­ur­greiðslu náms­lána, t.d. vegna lánþega sem stunda ákveðnar teg­und­ir náms og þeirra sem búa og starfa í brot­hætt­um byggðum.

Aukið jafn­ræðiog frelsi

Nýtt náms­styrkja­kerfi mun stuðla að bættri náms­fram­vindu há­skóla­nema og þar með betri nýt­ingu fjár­muna í mennta­kerf­inu og auk­inni skil­virki. Breyt­ing­arn­ar munu meðal ann­ars hafa í för með sér að námsaðstoð rík­is­ins verður gagn­særri, staða þeirra náms­manna sem þurfa á frek­ari styrkj­um að halda sök­um fé­lags­legra aðstæðna verður efld og aukið jafn­ræði verður milli náms­manna. Þá veit­ir nýja fyr­ir­komu­lagið lánþegum meira frelsi til þess að velja hvernig þeir haga sín­um lána­mál­um, til dæm­is með því að lánþegar geta við náms­lok valið hvort þeir end­ur­greiði náms­lán sín með óverðtryggðu eða verðtryggðu skulda­bréfi.

Tíma­bær­ar breyt­ing­ar

Staða Lána­sjóðs ís­lenskra náms­manna er sterk og skap­ar kjöraðstæður til að ráðast í kerf­is­breyt­ing­ar sem lengi hafa verið í far­vatn­inu. Nýtt styrkja- og náms­lána­kerfi er að fullu fjár­magnað en að auki verða fram­lög til sjóðsins end­ur­skoðuð ár­lega miðað við fjölda lánþega hverju sinni. Ég þakka náms­manna­hreyf­ing­unni og þeim fjöl­mörgu sem komið hafa að und­ir­bún­ingi þessa tíma­mótafrum­varps og hvet áhuga­sama til þess að kynna sér frum­varps­drög­in sem nú eru aðgengi­leg í sam­ráðsgátt stjórn­valda.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júlí 2019.