Categories
Fréttir Greinar

Nýtt upphaf?

Deila grein

28/01/2025

Nýtt upphaf?

Þann 4. fe­brú­ar næst­kom­andi verður Alþingi sett og hefst þar með nýtt kjör­tíma­bil nýrr­ar rík­is­stjórn­ar. Rétt er í upp­hafi að óska þeirri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um fyr­ir land og þjóð. Í stefnu­yf­ir­lýs­ingu nýrr­ar rík­is­stjórn­ar seg­ir að fyrsta verk henn­ar sé að ná stöðug­leika í efna­hags­lífi, lækka vexti og vinna að auk­inni verðmæta­sköp­un í at­vinnu­lífi. Það er vel, en hins veg­ar er lítið fjallað um það í meðfylgj­andi 23 aðgerðum hvernig þessu skuli náð. Þó er sagt að ný rík­is­stjórn muni rjúfa kyrr­stöðu í at­vinnu­líf­inu.

Hvað er kyrrstaða?

Óneit­an­lega vakn­ar þá spurn­ing­in um hvað kyrrstaða er í hug­um odd­vita rík­is­stjórn­ar­inn­ar, þegar at­vinnuþátt­taka hef­ur sjald­an verið meiri á Íslandi síðustu miss­eri. At­vinnu­leysi er lítið. Á síðustu 7 árum hafa 25 þúsund nýj­ar íbúðir komið á markað. Meiri kraft­ur hef­ur verið í bygg­inga­geir­an­um hér­lend­is en á nokkru byggðu bóli í Evr­ópu. Á sama tíma hef­ur stærsta ein­staka fjár­fest­ing rík­is­ins verið í full­um gangi, þ.e.a.s. bygg­ing nýs Land­spít­ala með um 20 millj­arða fjár­fest­ingu á síðasta ári. Á bil­inu 20-30 millj­arðar ár­lega hafa farið í upp­bygg­ingu vega, t.a.m. Reykja­nes­braut­ar, Arn­ar­nes­veg­ar, Vest­ur­lands­veg­ar um Kjal­ar­nes, Suður­lands­veg­ar og tengi­vega um land allt, stór­fellda fækk­un ein­breiðra brúa m.a. yfir Horna­fjarðarfljót og ekki síst upp­bygg­ingu á Vest­fjörðum á Dynj­and­is­heiði og um suðurf­irði Vest­fjarða. Þá eru ótal­in verk­efni á veg­um Höfuðborg­arsátt­mál­ans og und­ir­bún­ing­ur Sunda­braut­ar. Metnaðarfull jarðganga­áætl­un lá fyr­ir í sam­göngu­áætlun, m.a. með Fjarðar­heiðargöng­um og flýti­rann­sókn­um á Siglu­fjarðarsk­arðsgöng­um og um Súðavík­ur­hlíð. Mik­il og löngu þörf upp­bygg­ing var á flug­völl­um lands­ins, m.a. á Ak­ur­eyri og Eg­ils­stöðum. Komið var á vara­flug­vall­ar­gjaldi og stuðnings­kerf­inu Loft­brú. Hafna­bóta­sjóður var stór­auk­inn og mörg verk­efni eru orðin að veru­leika eða að verða eins á Ísaf­irði, Njarðvík, Sauðar­króki og Þor­láks­höfn. Það er von­andi að ný rík­is­stjórn nái að halda vel á spöðunum áfram og jafn­vel bæti í – það er þörf á því, en allt tal um kyrr­stöðu síðustu ára hljóm­ar í besta falli eins og lé­leg öf­ug­mæla­vísa á þorra­blóti.

Byggj­um upp traust og sam­heldni

Hin nýja rík­is­stjórn seg­ist ein­setja sér að vinna gegn sundr­ung og tor­tryggni og byggja und­ir traust og sam­heldni í ís­lensku sam­fé­lagi. Það vek­ur því furðu að sama fólk ætl­ar sér – þrátt fyr­ir enga umræðu í aðdrag­anda kosn­inga – að draga þjóðina inn í umræðu um aðild að tolla­banda­lagi ESB, þar sem vitað er að þjóðin er djúpt klof­in gagn­vart þeirri veg­ferð. Meiri­hluti þjóðar­inn­ar mun aldrei gefa af­slátt á að missa for­ræði yfir auðlind­um lands­ins. Evr­ópu­sam­bandið er í stór­kost­legri krísu þessi miss­er­in, hag­vöxt­ur nær eng­inn, at­vinnu­leysi vax­andi, kaup­mátt­ur al­menn­ings rýrn­ar, eng­inn kraft­ur í ný­sköp­un eða nýt­ingu gervi­greind­ar til hags­bóta fyr­ir sam­fé­lagið. Ólíkt Íslandi, þar sem síðustu 10 ár hafa verið saga mik­ils hag­vaxt­ar og auk­ins kaup­mátt­ar launa­fólks – ekki síst þeirra sem lægstu laun­in hafa. Veru­leg ný­sköp­un hef­ur átt sér stað á öll­um sviðum og upp­bygg­ing nýrra verðmætra skap­andi út­flutn­ings­greina eins og lyfjaiðnaðar, fisk­eld­is og ekki síst skap­andi greina.

Sem fyrsta markverða skrefið til að draga úr tor­tryggni og auka traust mætti benda nýrri rík­i­s­tjórn á að hætta strax við öll ESB-áform. Ólíkt því sem birt­ist í aðgerðaplani nýrr­ar rík­is­stjórn­ar væri rétt­ara að leggja mesta áherslu á sam­starf við okk­ar helstu vinaþjóðir, á Norður­lönd­um, í stað þess að setja Evr­ópu­sam­bandið þar fremst. Norður­landa­rík­in eru öll í NATO og ásókn stórþjóða í áhrif á norður­slóðum vex. Mik­il­vægi ná­ins sam­starfs Norður­landa­ríkj­anna hef­ur aldrei verið meira. Sam­vinna okk­ar við önn­ur nor­ræn ríki hef­ur hjálpað til við að skapa fé­lags­legt rétt­læti og aukið lífs­gæði og sam­keppn­is­hæfni á alþjóðavísu. Græn­land, Fær­eyj­ar og Álands­eyj­ar eru á sama veg nauðsyn­leg­ir sam­starfsaðilar.

Fjár­mál stjórn­mála­flokka og gegn­sæi

Til að auka traust á lýðræðinu og stjórn­kerf­inu væri einnig gott næsta skref að yf­ir­fara fjár­mál stjórn­mála­flokka. Rann­saka hverj­ir eiga rétt á slík­um greiðslum og krefjast end­ur­greiðslu frá þeim sem upp­fylla ekki skil­yrði til að fá greiðslur frá fólk­inu í þessu landi til að standa straum af rekstri og kosn­inga­bar­áttu síns flokks. Auka gegn­sæi. Þannig væri hægt að byggja upp traust og sam­heldni og eyða tor­tryggni og sundr­ung.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður og formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. janúar 2025.