Þann 4. febrúar næstkomandi verður Alþingi sett og hefst þar með nýtt kjörtímabil nýrrar ríkisstjórnar. Rétt er í upphafi að óska þeirri ríkisstjórn velfarnaðar í störfum sínum fyrir land og þjóð. Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar segir að fyrsta verk hennar sé að ná stöðugleika í efnahagslífi, lækka vexti og vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífi. Það er vel, en hins vegar er lítið fjallað um það í meðfylgjandi 23 aðgerðum hvernig þessu skuli náð. Þó er sagt að ný ríkisstjórn muni rjúfa kyrrstöðu í atvinnulífinu.
Hvað er kyrrstaða?
Óneitanlega vaknar þá spurningin um hvað kyrrstaða er í hugum oddvita ríkisstjórnarinnar, þegar atvinnuþátttaka hefur sjaldan verið meiri á Íslandi síðustu misseri. Atvinnuleysi er lítið. Á síðustu 7 árum hafa 25 þúsund nýjar íbúðir komið á markað. Meiri kraftur hefur verið í byggingageiranum hérlendis en á nokkru byggðu bóli í Evrópu. Á sama tíma hefur stærsta einstaka fjárfesting ríkisins verið í fullum gangi, þ.e.a.s. bygging nýs Landspítala með um 20 milljarða fjárfestingu á síðasta ári. Á bilinu 20-30 milljarðar árlega hafa farið í uppbyggingu vega, t.a.m. Reykjanesbrautar, Arnarnesvegar, Vesturlandsvegar um Kjalarnes, Suðurlandsvegar og tengivega um land allt, stórfellda fækkun einbreiðra brúa m.a. yfir Hornafjarðarfljót og ekki síst uppbyggingu á Vestfjörðum á Dynjandisheiði og um suðurfirði Vestfjarða. Þá eru ótalin verkefni á vegum Höfuðborgarsáttmálans og undirbúningur Sundabrautar. Metnaðarfull jarðgangaáætlun lá fyrir í samgönguáætlun, m.a. með Fjarðarheiðargöngum og flýtirannsóknum á Siglufjarðarskarðsgöngum og um Súðavíkurhlíð. Mikil og löngu þörf uppbygging var á flugvöllum landsins, m.a. á Akureyri og Egilsstöðum. Komið var á varaflugvallargjaldi og stuðningskerfinu Loftbrú. Hafnabótasjóður var stóraukinn og mörg verkefni eru orðin að veruleika eða að verða eins á Ísafirði, Njarðvík, Sauðarkróki og Þorlákshöfn. Það er vonandi að ný ríkisstjórn nái að halda vel á spöðunum áfram og jafnvel bæti í – það er þörf á því, en allt tal um kyrrstöðu síðustu ára hljómar í besta falli eins og léleg öfugmælavísa á þorrablóti.
Byggjum upp traust og samheldni
Hin nýja ríkisstjórn segist einsetja sér að vinna gegn sundrung og tortryggni og byggja undir traust og samheldni í íslensku samfélagi. Það vekur því furðu að sama fólk ætlar sér – þrátt fyrir enga umræðu í aðdraganda kosninga – að draga þjóðina inn í umræðu um aðild að tollabandalagi ESB, þar sem vitað er að þjóðin er djúpt klofin gagnvart þeirri vegferð. Meirihluti þjóðarinnar mun aldrei gefa afslátt á að missa forræði yfir auðlindum landsins. Evrópusambandið er í stórkostlegri krísu þessi misserin, hagvöxtur nær enginn, atvinnuleysi vaxandi, kaupmáttur almennings rýrnar, enginn kraftur í nýsköpun eða nýtingu gervigreindar til hagsbóta fyrir samfélagið. Ólíkt Íslandi, þar sem síðustu 10 ár hafa verið saga mikils hagvaxtar og aukins kaupmáttar launafólks – ekki síst þeirra sem lægstu launin hafa. Veruleg nýsköpun hefur átt sér stað á öllum sviðum og uppbygging nýrra verðmætra skapandi útflutningsgreina eins og lyfjaiðnaðar, fiskeldis og ekki síst skapandi greina.
Sem fyrsta markverða skrefið til að draga úr tortryggni og auka traust mætti benda nýrri ríkistjórn á að hætta strax við öll ESB-áform. Ólíkt því sem birtist í aðgerðaplani nýrrar ríkisstjórnar væri réttara að leggja mesta áherslu á samstarf við okkar helstu vinaþjóðir, á Norðurlöndum, í stað þess að setja Evrópusambandið þar fremst. Norðurlandaríkin eru öll í NATO og ásókn stórþjóða í áhrif á norðurslóðum vex. Mikilvægi náins samstarfs Norðurlandaríkjanna hefur aldrei verið meira. Samvinna okkar við önnur norræn ríki hefur hjálpað til við að skapa félagslegt réttlæti og aukið lífsgæði og samkeppnishæfni á alþjóðavísu. Grænland, Færeyjar og Álandseyjar eru á sama veg nauðsynlegir samstarfsaðilar.
Fjármál stjórnmálaflokka og gegnsæi
Til að auka traust á lýðræðinu og stjórnkerfinu væri einnig gott næsta skref að yfirfara fjármál stjórnmálaflokka. Rannsaka hverjir eiga rétt á slíkum greiðslum og krefjast endurgreiðslu frá þeim sem uppfylla ekki skilyrði til að fá greiðslur frá fólkinu í þessu landi til að standa straum af rekstri og kosningabaráttu síns flokks. Auka gegnsæi. Þannig væri hægt að byggja upp traust og samheldni og eyða tortryggni og sundrung.
Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður og formaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. janúar 2025.