Í síðustu viku lagði ríkisstjórnin fram fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030. Þrátt fyrir yfirlýsingar um ábyrgð og gegnsæi vekur áætlunin áleitnar og alvarlegar spurningar um skort á skýrleika og aðgengi Alþingis og landsmanna að upplýsingum um hvert stefnir í fjármálum almennings og hins opinbera næstu ár. Hvaða stofnanir verða lagðar niður? Hver verður stefnan í gjaldtöku auðlinda? Hvar á að hagræða? Hvaða verkefni á að stöðva?
Blindflug eða langtímahorfur
Í mars 2025 kynnti fjármálaráðherra skýrslu um langtímahorfur í efnahagsmálum. Þrátt fyrir að veita almenna yfirsýn um áskoranir næstu ára og áratuga fjallaði skýrslan því miður hvorki um mikilvæga þætti eins og vaxandi þrýsting frá NATO um hærri útgjöld til varnarmála, tollastríð sem gæti haft áhrif á gengi krónunnar og útflutning (s.s. ferðaþjónustu), né tölulegt umfang innviðaskuldar sem krefst langtímafjárfestinga. Þessi vanræksla er mjög bagaleg.
Óljós fjármálastefna
Með sama hætti eru forsendur nýframlagðrar fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára (2026-2030) í besta falli óljósar. Eins og í skýrslu fjármálaráðherra um langtímahorfur í efnahagsmálum, sem birt var í mars, er í fjármálastefnunni lítið sem ekkert fjallað um fyrirhuguð aukin útgjöld til varnarmála næstu ára, sem utanríkisráðherra hefur þó gefið til kynna, nú síðast um liðna helgi.
Þá er engan veginn fjallað um möguleg neikvæð áhrif tollastríðs á íslenskt efnahagslíf, sérstaklega ferðaþjónustu. Útlitið er ekki bjart. Það veit fólk sem starfar í greininni. Engar tölulegar forsendur eru lagðar fram í því ljósi, sem vekur spurningar um hvort forsendur hagstjórnar séu réttar, hvort tekju- og útgjaldaforsendur standist og hvort afkomumarkmið séu raunhæf.
Óljós fjármálaáætlun
Svokölluð fjármálaáætlun er svo enn einn hluti af gangverki stefnumörkunar hins opinbera, og kemur í kjölfar fjármálastefnu. Fjármálaáætlun á að veita Alþingi og almenningi skýra og innihaldsríka mynd af þróun útgjalda og tekna málefnasviða eins og starfsemi framhaldsskóla, háskóla, landbúnaðar, sjávarútvegs og heilbrigðismála.
Í áætluninni á að birta áherslur, markmið og mælikvarða um starfsemi s.s. á sviði mennta- og heilbrigðismála og sýna forgangsröðun næstu fimm árin. Nánast engin slík markmið koma fram. Almenningur getur engan veginn áttað sig á hvað árangri ríkisstjórnin hyggst ná á fyrrnefndum málefnasviðum, enda vantar alla mælikvarða.
Alþingi sjálft veit lítið sem ekkert og áætlunin uppfyllir með engu móti þær kröfur sem gera verður til ríkisvaldsins um vandaða stefnumótun.
Réttur Alþingis til grunnupplýsinga
Samkvæmt lögum um opinber fjármál á Alþingi rétt á aðgangi að skýrum gögnum um markmið, mælikvarða, tímasetningar og fjármögnun aðgerða innan hvers málefnasviðs sem fjalla á um í greinargerð með fjármálaáætlun. Án þessara upplýsinga getur þingið ekki rætt grunnforsendur áætlunarinnar, sem dregur úr getu þess til að sinna eftirlitshlutverki sínu. Um hvað á að ræða ef ekkert markvert kemur fram í fjármálaáætlun næstu ára um markmið og mælikvarða í starfsemi málefnasviða?
Hagræðingartillögur og útgjaldastefna
Þá vekur meiri háttar athygli að nánast engin efnisleg umfjöllun er í fjármálaáætluninni um hagræðingartillögur ríkisstjórnarinnar, sem þó voru kynntar opinberlega nýlega – og ríkisstjórnin hefur samþykkt. Ekkert liggur fyrir um hvernig sparnaður upp á tugi milljarða króna á ári á að nást næstu fimm ár, hvaða stofnanir eigi að sameina eða leggja niður, svo dæmi séu tekin. Útgjaldaforsendur áætlunarinnar eru verulega ótryggar. Fólk, þ.m.t. opinberir starfsmenn, veit ekkert um hvað koma skal.
Gilda markmið fyrri ríkisstjórnar frá 2024?
Þar sem nánast engin markmið og mælikvarðar koma fram um starfsemi málefnasviða er réttmæt spurning hvort markmið síðustu fjármálaáætlunar, frá vori 2024, gildi enn og eigi að gilda næstu ár. Ef svo er má spyrja hvernig þau passa við nýja útgjaldaáætlun og stefnu ríkisstjórnarinnar.
Skýrt ósamræmi við lög um opinber fjármál
Samkvæmt 5. og 20. gr. laga um opinber fjármál skal fjármálaáætlun innihalda skýra stefnumörkun fyrir hvert málefnasvið, ásamt markmiðum, mælikvörðum, fjármögnun og áætlaðri tímasetningu aðgerða. Hver sá sem hefur grunnfærni í lestri, hvað þá grunnfærni í hagfræði, veit hvað átt er við. Þar sem þessa efnisþætti vantar uppfyllir fjármálaáætlun 2026-2030 ekki lagalegar kröfur. Í stað þess að gangast við mistökunum og bæta úr þeim mætir fjármálaráðherra og stjórnarþingmenn ábendingunum með fullyrðingum sem í besta falli eru hagræðing á sannleika málsins.
Blindflugið heldur áfram
Skortur á skýrleika, gegnsæi og aðgengi að grunnupplýsingum í fjármálaáætlun 2026-2030, sérstaklega um starfsemi innan málefnasviða s.s. landbúnaðar, sjávarútvegs, hjúkrunarheimila og menntamála, veldur óvissu, dregur úr skilningi almennings og hagaðila á stefnu ríkisstjórnarinnar og veikir almennt traust á stjórnvöldum.
Ríkisstjórnin verður að gera betur. Til að þingmenn geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu verða að liggja fyrir fullnægjandi gögn í samræmi við ákvæði laga. Þau eru ekki til staðar og er með öllu óboðlegt að keyra málið áfram með þeim hætti sem gert var síðastliðinn mánudag í þinginu.
Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. apríl 2025.