Categories
Fréttir Greinar

Óboðleg fjármálaáætlun

Deila grein

09/04/2025

Óboðleg fjármálaáætlun

Í síðustu viku lagði rík­is­stjórn­in fram fjár­mála­áætl­un fyr­ir árin 2026-2030. Þrátt fyr­ir yf­ir­lýs­ing­ar um ábyrgð og gegn­sæi vek­ur áætl­un­in áleitn­ar og al­var­leg­ar spurn­ing­ar um skort á skýr­leika og aðgengi Alþing­is og lands­manna að upp­lýs­ing­um um hvert stefn­ir í fjár­mál­um al­menn­ings og hins op­in­bera næstu ár. Hvaða stofn­an­ir verða lagðar niður? Hver verður stefn­an í gjald­töku auðlinda? Hvar á að hagræða? Hvaða verk­efni á að stöðva?

Blind­flug eða lang­tíma­horf­ur

Í mars 2025 kynnti fjár­málaráðherra skýrslu um lang­tíma­horf­ur í efna­hags­mál­um. Þrátt fyr­ir að veita al­menna yf­ir­sýn um áskor­an­ir næstu ára og ára­tuga fjallaði skýrsl­an því miður hvorki um mik­il­væga þætti eins og vax­andi þrýst­ing frá NATO um hærri út­gjöld til varn­ar­mála, tolla­stríð sem gæti haft áhrif á gengi krón­unn­ar og út­flutn­ing (s.s. ferðaþjón­ustu), né tölu­legt um­fang innviðaskuld­ar sem krefst lang­tíma­fjár­fest­inga. Þessi van­ræksla er mjög baga­leg.

Óljós fjár­mála­stefna

Með sama hætti eru for­send­ur ný­fram­lagðrar fjár­mála­stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar til næstu fimm ára (2026-2030) í besta falli óljós­ar. Eins og í skýrslu fjár­málaráðherra um lang­tíma­horf­ur í efna­hags­mál­um, sem birt var í mars, er í fjár­mála­stefn­unni lítið sem ekk­ert fjallað um fyr­ir­huguð auk­in út­gjöld til varn­ar­mála næstu ára, sem ut­an­rík­is­ráðherra hef­ur þó gefið til kynna, nú síðast um liðna helgi.

Þá er eng­an veg­inn fjallað um mögu­leg nei­kvæð áhrif tolla­stríðs á ís­lenskt efna­hags­líf, sér­stak­lega ferðaþjón­ustu. Útlitið er ekki bjart. Það veit fólk sem starfar í grein­inni. Eng­ar tölu­leg­ar for­send­ur eru lagðar fram í því ljósi, sem vek­ur spurn­ing­ar um hvort for­send­ur hag­stjórn­ar séu rétt­ar, hvort tekju- og út­gjalda­for­send­ur stand­ist og hvort af­komu­mark­mið séu raun­hæf.

Óljós fjár­mála­áætl­un

Svo­kölluð fjár­mála­áætl­un er svo enn einn hluti af gang­verki stefnu­mörk­un­ar hins op­in­bera, og kem­ur í kjöl­far fjár­mála­stefnu. Fjár­mála­áætl­un á að veita Alþingi og al­menn­ingi skýra og inni­halds­ríka mynd af þróun út­gjalda og tekna mál­efna­sviða eins og starf­semi fram­halds­skóla, há­skóla, land­búnaðar, sjáv­ar­út­vegs og heil­brigðismála.

Í áætl­un­inni á að birta áhersl­ur, mark­mið og mæli­kv­arða um starf­semi s.s. á sviði mennta- og heil­brigðismála og sýna for­gangs­röðun næstu fimm árin. Nán­ast eng­in slík mark­mið koma fram. Al­menn­ing­ur get­ur eng­an veg­inn áttað sig á hvað ár­angri rík­is­stjórn­in hyggst ná á fyrr­nefnd­um mál­efna­sviðum, enda vant­ar alla mæli­kv­arða.

Alþingi sjálft veit lítið sem ekk­ert og áætl­un­in upp­fyll­ir með engu móti þær kröf­ur sem gera verður til rík­is­valds­ins um vandaða stefnu­mót­un.

Rétt­ur Alþing­is til grunnupp­lýs­inga

Sam­kvæmt lög­um um op­in­ber fjár­mál á Alþingi rétt á aðgangi að skýr­um gögn­um um mark­mið, mæli­kv­arða, tíma­setn­ing­ar og fjár­mögn­un aðgerða inn­an hvers mál­efna­sviðs sem fjalla á um í grein­ar­gerð með fjár­mála­áætl­un. Án þess­ara upp­lýs­inga get­ur þingið ekki rætt grunn­for­send­ur áætl­un­ar­inn­ar, sem dreg­ur úr getu þess til að sinna eft­ir­lits­hlut­verki sínu. Um hvað á að ræða ef ekk­ert markvert kem­ur fram í fjár­mála­áætl­un næstu ára um mark­mið og mæli­kv­arða í starf­semi mál­efna­sviða?

Hagræðing­ar­til­lög­ur og út­gjalda­stefna

Þá vek­ur meiri hátt­ar at­hygli að nán­ast eng­in efn­is­leg um­fjöll­un er í fjár­mála­áætl­un­inni um hagræðing­ar­til­lög­ur rík­is­stjórn­ar­inn­ar, sem þó voru kynnt­ar op­in­ber­lega ný­lega – og rík­is­stjórn­in hef­ur samþykkt. Ekk­ert ligg­ur fyr­ir um hvernig sparnaður upp á tugi millj­arða króna á ári á að nást næstu fimm ár, hvaða stofn­an­ir eigi að sam­eina eða leggja niður, svo dæmi séu tek­in. Útgjalda­for­send­ur áætl­un­ar­inn­ar eru veru­lega ótrygg­ar. Fólk, þ.m.t. op­in­ber­ir starfs­menn, veit ekk­ert um hvað koma skal.

Gilda mark­mið fyrri rík­is­stjórn­ar frá 2024?

Þar sem nán­ast eng­in mark­mið og mæli­kv­arðar koma fram um starf­semi mál­efna­sviða er rétt­mæt spurn­ing hvort mark­mið síðustu fjár­mála­áætl­un­ar, frá vori 2024, gildi enn og eigi að gilda næstu ár. Ef svo er má spyrja hvernig þau passa við nýja út­gjalda­áætl­un og stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Skýrt ósam­ræmi við lög um op­in­ber fjár­mál

Sam­kvæmt 5. og 20. gr. laga um op­in­ber fjár­mál skal fjár­mála­áætl­un inni­halda skýra stefnu­mörk­un fyr­ir hvert mál­efna­svið, ásamt mark­miðum, mæli­kvörðum, fjár­mögn­un og áætlaðri tíma­setn­ingu aðgerða. Hver sá sem hef­ur grunn­færni í lestri, hvað þá grunn­færni í hag­fræði, veit hvað átt er við. Þar sem þessa efn­isþætti vant­ar upp­fyll­ir fjár­mála­áætl­un 2026-2030 ekki laga­leg­ar kröf­ur. Í stað þess að gang­ast við mis­tök­un­um og bæta úr þeim mæt­ir fjár­málaráðherra og stjórn­arþing­menn ábend­ing­un­um með full­yrðing­um sem í besta falli eru hagræðing á sann­leika máls­ins.

Blind­flugið held­ur áfram

Skort­ur á skýr­leika, gegn­sæi og aðgengi að grunnupp­lýs­ing­um í fjár­mála­áætl­un 2026-2030, sér­stak­lega um starf­semi inn­an mál­efna­sviða s.s. land­búnaðar, sjáv­ar­út­vegs, hjúkr­un­ar­heim­ila og mennta­mála, veld­ur óvissu, dreg­ur úr skiln­ingi al­menn­ings og hagaðila á stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar og veik­ir al­mennt traust á stjórn­völd­um.

Rík­is­stjórn­in verður að gera bet­ur. Til að þing­menn geti sinnt lög­bundnu hlut­verki sínu verða að liggja fyr­ir full­nægj­andi gögn í sam­ræmi við ákvæði laga. Þau eru ekki til staðar og er með öllu óboðlegt að keyra málið áfram með þeim hætti sem gert var síðastliðinn mánu­dag í þing­inu.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. apríl 2025.