Categories
Fréttir Greinar

Ögurstund fyrir íslenskt samfélag

Deila grein

27/01/2026

Ögurstund fyrir íslenskt samfélag

Núverandi ríkisstjórn hefur sett Evrópumálin hressilega á dagskrá. Ríkisstjórnin hefur uppi áform um að keyra í gegnum þingið bókun 35, enda snýst þetta allt um að búa til gott veður milli Íslands og ESB áður en boðuð þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræður við Evrópusambandið fer fram. Bæði þessi atriði hafa verið boðuð á vorþingi.

Um hvað snýst bókun 35?

Í grunninn var EES-samningurinn gerður til að tengja EFTA-ríkin við innri markað Evrópusambandsins án þess að þau gengju í ESB.

En af hverju er bókun 35 svona umdeild? Vegna þess að margir telja að hún færi EES-samninginn frá því að vera samstarf um markað yfir í að vera kerfi þar sem ESB-reglur fá forgang í landsrétti.

Ef frumvarp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra og formanns Viðreisnar, um bókun 35 við EES-samninginn verður að lögum mun það leiða til þess að reglur frá Evrópusambandinu, sem hafa verið teknar upp í gegnum EES-aðild Íslands, fái sérstaka stöðu í íslenskum rétti. Slíkt regluverk myndi í reynd standa ofar annarri löggjöf sem Alþingi setur, þar sem nýlögleidd forgangsregla yrði tekin upp. Samkvæmt henni myndu EES-reglur ganga framar íslenskum lögum, einfaldlega vegna uppruna síns.

Í ljósi þessa er skiljanlegt að margir virtir lögfræðingar hafi lýst yfir áhyggjum af því að sú leið sem frumvarpið boðar geti stangast á við fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar. Meðal þeirra eru bæði fræðimenn sem telja æskilegt að innleiða bókunina, en leggja áherslu á að það verði ekki gert nema stjórnarskránni verði breytt fyrst, og aðrir sem eru alfarið andvígir henni. Afstaða lögspekinga er því langt frá því að vera einhlít og málið umdeilt. Við slíkar aðstæður hlýtur að vera eðlilegt að túlka stjórnarskrána íslensku fullveldi í hag. Eðlilegt fyrsta skref væri að fá úr því skorið með því að bera málið undir EFTA-dómstólinn.

Einn þeirra sem hafa varað við hugsanlegum árekstrum við stjórnarskrána er Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar. Í grein í afmælisriti EFTA-dómstólsins frá árinu 2014 benti hann á að ekki hefði verið unnt að ganga lengra í framkvæmd bókunar 35 innan þeirra marka sem stjórnarskrá Íslands setur. Hann taldi að stjórnarskráin heimilaði hvorki framsal löggjafarvalds til alþjóðastofnana né að landslög, sem byggjast á alþjóðlegum skuldbindingum á borð við EES-samninginn, öðlist forgang fram yfir aðra almenna löggjöf eingöngu á þeim grundvelli.

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands kemur skýrt fram í 2. gr. að Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.

Komið að ögurstundu fyrir íslenskt samfélag

Íslendingar standa nú frammi fyrir því að þurfa að berjast fyrir því að halda sjálfsákvörðunarrétti sínum innanlands og verja stjórnarskrána og það er ekkert ólíklegt að það muni reyna á forseta lýðveldisins í þeim efnum. Það væri siðlaust að beita 71. grein þingskapalaga til að þvinga fram slíkt mál. Í sumar beitti forseti Alþingis þeirri grein til að stöðva umræðu og knýja fram atkvæðagreiðslu um stórt skattamál. Það frumvarp þótti þó ekki fela í sér stjórnarskrárbrot.

Nú virðist sem forseti þingsins og meirihlutinn séu reiðubúin að nota þetta sama tæki gegn lýðræðinu og fullveldinu. Það væri alvarleg valdníðsla að beita slíku ákvæði í máli sem beinlínis varðar stjórnarskrá landsins og felur í sér framsal á grundvallarrétti fullveldis.

Forsætisráðherra lýsti því yfir í upphafi ferils síns að hún teldi ekki forgangsmál að kljúfa þjóðina með aðildarumræðu um ESB eða með því að knýja fram mál sem gætu falið í sér stjórnarskrárbrot.

Ef það er hins vegar einbeittur vilji utanríkisráðherra og ríkisstjórnar að skapa slíkan ágreining gegn þjóðinni og fullveldinu með svokallaðri „bókun 35“, þá er það skýr og óumdeilanleg krafa að þjóðin fái sjálf að greiða atkvæði um slíkt framsal á fullveldisrétti og þá mun reyna á forseta Íslands.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. janúar 2026.