Categories
Fréttir

Örtungumál vinni að tengslum við alþjóðleg hugbúnaðarfyrirtæki

Deila grein

13/06/2019

Örtungumál vinni að tengslum við alþjóðleg hugbúnaðarfyrirtæki

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, ræddi tillögu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins til þingsályktunar um tungumál í stafrænum heimi, á Alþingi á dögunum, um að Alþingi álykti að skora á ríkisstjórnina í samráði við landstjórn Færeyja og heimastjórn Grænlands að stofna formlegan samstarfsvettvang vestnorrænu landanna um framtíð íslensku, færeysku og grænlensku.
Í greinargerð kemur kemur fram að á ársfundi Vestnorræna ráðsins 2018 hafi veri rætt að tungumálin standi frammi fyrir svipaðri ógn frá enskunni og að mikilvægt sé að kanna hvernig Ísland, Færeyjar og Grænland geti unnið saman á þessu sviði til að vernda og efla tungumál sín.
Þótt málin séu öll örtungumál er staða þeirra vissulega nokkuð mismunandi. Íslenska og færeyska eru mjög skyld tungumál en grænlenska alls óskyld þeim, og færeyska og grænlenska hafa lengi verið í nánu sambýli við dönsku en íslenskan verið næsta einráð á Íslandi. Þrátt fyrir þetta er enginn vafi á því að löndin þrjú geta haft margvíslegt gagn af samstarfi á þessu sviði. Vestnorræna ráðið er augljós vettvangur til að gangast fyrir slíku samstarfi og að löndin þrjú vinni saman að því að ná tengslum við alþjóðleg hugbúnaðarfyrirtæki í því skyni að koma tungumálum sínum inn í vörur þeirra.
„Þessi örtungumál, sem íslenskan tilheyrir, eiga undir högg að sækja í hinum rafræna heimi og maður finnur fyrir því sjálfur sem foreldri að börnin eru ansi ung jafnvel farin að tala saman á ensku og sletta mikið ensku í hversdagslegu tali.“ sagði Silja Dögg.
„Það er gott að kunna fleiri en eitt tungumál, tungumálaþekking er verðmæti. En ekki ef annað tungumál fer að taka yfir og tefja fyrir og rugla eðlilegan málþroska. Það eru fjölmargar rannsóknir sem liggja fyrir um málþroska. Það er óumdeilt að góður málþroski, góð undirstaða í móðurmálinu, lesskilningur, er ákveðið verkfæri til náms þannig að fólk nái að fóta sig ágætlega í samfélaginu til lengri tíma og öðlist ákveðna þekkingu. Annað er að móðurmálið og tungan okkar er hluti af menningararfi, bæði persónulegri og menningarlegri sjálfsmynd. Því er mikilvægt að hver þjóð hlúi að sinni tungu og rækti hana,“ sagði Silja Dögg.
„Niðurstaðan er að góð undirstaða í móðurmáli skipti okkur gríðarlega miklu máli. Það er okkar verkfæri til frekara náms og þroska, mótar okkar persónulegu og menningarlegu sjálfsmynd og við eigum að leita allra leiða nú sem fyrr til að deila reynslu okkar og þekkingu af þeim verkefnum sem unnin eru hér á landi með nágrönnum okkar í Færeyjum og Grænlandi.“
Nýlega hefur verið samin metnaðarfull máltækniáætlun fyrir íslensku og hefur sjálfseignarstofnuninni Almannarómi verið falið að reka miðstöð máltækniáætlunar til að sjá um framkvæmd áætlunarinnar. Mikilvægt er að hafa hliðsjón af því starfi og kanna vel hvort og þá hvernig það gæti einnig nýst til stuðnings færeysku og grænlensku.