Staða efnahagsmála í sumarlok einkennist af mikilli óvissu og stórum áskorunum. Í fyrsta lagi hefur verðbólga ekki lækkað eins og vonir stóðu til. Í öðru lagi hefur umhverfi utanríkisviðskipta versnað verulega, sem dregur úr samkeppnishæfni. Að lokum skortir skýra og gagnsæja stefnu í ríkisfjármálum.
Verðbólga mælist 4% á ársgrundvelli og hækkanir mælast á breiðum efnahagslegum grunni. Á sama tíma hefur ávöxtunarkrafa verðtryggðra ríkisskuldabréfa til lengri tíma hækkað umtalsvert. Væntingar markaðarins um þróun verðbólgu og raunvaxta til lengri tíma hafa einnig aukist. Þetta þýðir að vextir til heimilanna verða einnig hærri til lengri tíma, þar sem fjármögnunarkostnaður ríkisins er grunnur að verðlagningu alls kerfisins. Þótt styrking krónunnar ætti að vega á móti verðbólguþrýstingi hefur sterkara gengi ekki enn skilað sér til almennings. Margt bendir til þess að krónan geti veikst í haust vegna aukins viðskiptahalla og mikillar óvissu á alþjóðamörkuðum.
Óvissan hefur sjaldan verið meiri í alþjóðahagkerfinu. Tollastríðið sem nú geisar í alþjóðaviðskiptum er án fordæma. Fyrirséð var að bandarísk stjórnvöld myndu hefja tímabil ný-kaupauðgisstefnu, sem felur í sér að auka útflutning Bandaríkjanna, draga úr innflutningi og hækka tolla til að auka tekjur ríkissjóðs. Hér er um nýja efnahagsstefnu að ræða, þar sem utanríkisviðskipti eiga að koma með beinum hætti að hagstjórn í auknum mæli. Á sama tíma hefur forseti Bandaríkjanna verið að styrkja lagalega umgjörð rafmynta, og verður fróðlegt að fylgjast með samspili þess og hvort eftirspurn aukist að nýju eftir bandarískum ríkisskuldabréfum. Markmið efnahagsstefnunnar er að minnka þrálátan viðskiptahalla og auka fjárfestingar innanlands. Það sem hefur komið á óvart eru fyrirhugaðir refsitollar Evrópusambandsins á framleiðslu kísilmálma og að þeim skuli verða beitt gagnvart EES-ríkjum. Ólíklegt þykir að Evrópusambandið haldi sig við þessa stefnu til lengri tíma og virði ekki EES-samninginn. Mikið er í húfi fyrir þjóðarbúið að EES-samningurinn sé virtur.
Fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar verður kynnt í september. Ríkisfjármálaáætlunin hefur verið samþykkt og þar er gert ráð fyrir auknu aðhaldi, en útfærsla þess hefur ekki verið kynnt og eykur því óvissu. Vantað hefur upp á ákveðin gögn og fyrirsjáanleikinn því minnkað.
Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er óvissuferð. Brýnt er að forgangsraða í þágu verðlagsstöðugleika og hagsmunagæslu fyrir land og þjóð. Allt stefnir í aukinn viðskiptahalla ef ríkisstjórnin hugar ekki betur að samkeppnishæfni og að efla íslenska framleiðslu. Efnahagslegar afleiðingar eru þekktar. Lífskjör þjóðarinnar ráðast af því hvernig til tekst!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. ágúst 2025.