Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og menningar- og viðskiptaráðherra flutti öfluga ræðu á 37. Flokksþingi Framsóknar, sem fram fór síðastliðna helgi.
Ræðuna má sjá hér: https://fb.watch/rEFT1w85Oe/
Ræða Lilju Daggar í heild
Þingforseti, formaður Framsóknarflokksins, og kæru félagar
Það er ávallt frábær tilfinning að koma hingað til fundar við ykkur og deila flokksþingi með ykkur vegna þess að það er eitt það skemmtilegasta sem ég geri í stjórnmálunum að koma hingað vegna þess að hér sækir maður kraftinn, hugsjóninaog samvinnuhugsjónina til þess að halda áfram í störfum okkar fyrir ykkur.
Í yfir 107 ár hefur Framsóknarflokkurinn fylgt þjóðinni og sótt umboð til hennar í þágu þess að gera samfélagið okkar betra í dag en það var í gær.
Það er mikill heiður fyrir hvern þann flokk sem fær hið lýðræðislega umboð kjósenda til þess að stýra landinu, enda er það megin grundvöllur þess þjóðfélagsskipulags sem við búum við.
Kæru félagar, í ár er haldið upp á 80 ára lýðveldisafmæli þjóðarinnar. Umskipti og framfarir einnar þjóðar á þessum tíma eru feykileg. Frá því að vera ein fátækasta þjóðin í Evrópu, í það að vera með hæstu meðaltekjur í álfunni. Samkvæmt nýrri mælingu Sameinuðu þjóðanna er best að búa í þremur löndum það eru Sviss, Noregur og Ísland.
Mig langar að biðja ykkur að fara í smá ferðalag með mér og rifja upp þær áskoranir sem samfélagið okkar stóð frammi fyrir ca. 80 árum. Á þessum nákvæmlega sama degi var sumardagurinn fyrsti, og þjóðin, hún var full eftirvæntingar eftir því að sólin myndi hækka á lofti og líka eftir hinu langþráða sjálfstæði þjóðarinnar. En á sama tíma var auðvitað seinni heimstyrjöldin í algleymingi og forsíður blaðanna voru eitthvað á þessa lund: Gagnsókn Þjóðverja fer harðnandi – Allhörð árás á London, og auðvitað er það enn í dag þannig því miður þannig að við búum við ófrið, enn er hið hræðilega stríð í Úkraínu og mikill ófriður fyrir botni Miðjarðarhafsins.
En það auðvitað svo að á sama tíma erum við mjög þakklát fyrir það að búa hér á Íslandi, fjarri vígaslóðum. Mig langar líka kæru félagar að minna okkur á það að er svo miklum ólíkindum að fyrir sléttum 80 árum stóð yfir sjöunda flokksþing Framsóknarflokksins, og þá var hinn ungi nýji leiðtogi, Hermann Jónasson, formaður flokksins, og þegar ég var að undirbúa mig fyrir þetta flokksþing þá fór ég að líta á þær stjórnmálaályktanir sem voru samþykktar. Það er alveg ljóst að rauði þráðurinn í gegnum þær allar er skýr: Aukin verðmætasköpun er undirstaða velferðar.
Og þannig komust flokksmenn til að mynda að orði í atvinnumálayfirlýsingu sinni, með leyfi fundarstjóra: Flokksþingið telur að landið ráði yfir nægum auðlindum til þess að veita öllum þeim er byggja fullnægjandi lífsnauðsynjar og lífsþægindi. Það er nú bara þannig kæru félagar með okkur framsóknarfólk, að við þurfum ekkert að finna upp hjólið í þessum efnum. Grunngildi okkar og stefna hún hefur nefnilega staðist tímans tönn og á þeim grundvelli hefur flokkurinn okkar staðið með borg, bæjum og að sjálfsögðu sveitum landsins.
Svo svona aðeins á léttu nótunum, þá er gaman að fylgjast með forsetakosningunum, það er eins og allir hafi fengið svona framsóknarmennskuna bara beint í æð. Það eru allir frambjóðendur komnir í lopapeysuna, farnir út á land og það er mynd af þeim með hundum eða lambi og allir brosandi, og það má eiginlega segja að við séum að hofa uppá svona lítinn Guðna Ágústsson í hverjum einasta frambjóðanda.
En kæru félagar, talandi um svona framsóknarmennsku þá hefur það verið mjög merkilegt að fylgjast með stjórnmálaþróun síðustu misserin. Það er eins og ákveðinn stjórnmálaflokkur hafi eignilega ákveðið að ganga alveg inn í okkar flokk en samt ekki. Og um hvaða flokk er ég að tala, að sjálfsögðu Samfylkinguna. Það er þannig að hún er komin með nýja stefnu og nýjan formann. Og nú er stefnan sirka svona: Engin innganga í Evrópusambandið, nú vilja þau greiða fyrir að ráðast í nýtingu fleiri virkjanakosta, og vilja raunsæjar og skynsamar breytingar á málefnum útlendinga, svo nokkur dæmi séu tekin.
Það hefur verið alveg gríðarlega merkilegt að fylgjast með þessari U-beygju, hverri U-beygjunni á fætur annarri í málflutningi Samfylkingarinnar og þau eru í raun og veru að keppast við það að gera okkar stefnu að þeirra stefnu. Ég er ekkert hissa á því, því við erum með frábæra stefnu. Það er auðvitað þessi góða miðjustefna. En svo ég taki þetta nú svona á aðeins alvarlegra plan, því hver tekur Samfylkinguna alvarlega, nei ég er bara að grínast, þetta var bara létt grín.
En þá er það bara þannig að þú getur ekki tekið Samfylkinguna úr Samfylkingunni algjörlega. Og þú getur heldur ekki snúið þínu eigin DNA á hvolf, sí svona, meira og minna í öllum helstu málum. Ég er sannfærð um það að verði Samfylkingin leiðandi í íslenskum stjórnmálum þá verði Evrópusambandsaðild komin á dagskrá íslenskra stjórnmála og með tilheyrandi sjálfstæðisfórn, og það er alveg ljós í mínum huga að við framsóknarfólk verðum að koma í veg fyrir það. Og það er gríðarlega mikilvægt, sérstaklega þegar við erum að fagna 80 ára lýðveldisafmælinu að við stöndum þessa vakt. Það er þannig að þjóðinni alveg frá landnámi hefur alltaf vegnað best þegar við höfum efnahagslegt sjálfstæði og það getur ekki og það má ekki vera þannig að við sofnum eitthvað á þeirri vakt. Ég get lofað ykkur því að þá fer að fjara undan þessum góðu lífsgæðum sem við höfum hér á Íslandi í dag.
En eins og við þekkjum kæru félagar þá verða lífsgæði ekki til í tómarúmi. Það þarf að hafa fyrir verðmætasköpun og það þarf að hafa kjark og þor til þess að búa svo um hnútana að það sé hægt. Þannig hefur græn raforkuframleiðsla verði einn helsti burðarás lífskjarasóknar í landinu og lagt grunninn að því samkeppnisforskoti sem við höfum á alþjóðavísu og það er svo að fjölmargar þjóðir líta hingað til okkar og líta á þann
árangur sem við höfum náð. Ég ætla ekki að neita því að sú kyrrstaða sem hefur verið í raforkuvinnslu hér á landi hún veldur auðvitað gríðarlegum áhyggjum. Við þessi fámenna þjóð séum að flækja hlutina svo mikið þegar kemur að nýtingu virkjanakosta að við endum á því að brenna jarðefnaeldsneyti til að knýja atvinnulífið áfram.
Ég get bara lofað ykkur því að hefði framsóknarmanneskja verið að stýra orkumálunum eins og við gerðum hérna fyrir nokkrum árum, þá hefði þetta aldrei gerst, ég get bara lofað ykkur því. Og auðvitað er það þannig að eitt af forgangsmálunum verður núna að rjúfa þessa kyrrstöðu, að fara frá rauðu ljósi yfir á grænt ljós í orkumálunum. Það er nefnilega þannig að þeim hagkerfum sem vegnar vel í dag og mun vegna vel í framtíðinni, þau búa öll við næga orku og það er þannig að ef við ætlum að taka þátt í framtíðarhagkerfinu, sem gengur út á allar þessar grunnstoðir okkar, en í auknum mæli út á að nýta gervigreind, þá verður að vera til næg orka, og þau ríki sem búa hana til á hagkvæman og grænan hátt, þau verða leiðandi í framtíðinni. Við verðum að sjá til þess að svo verði.
Mig langar aðeins að nefna og formaðurinn kom inn á þjóðarfyrirtækið okkar Landsvirkjun. Það er gríðarlega mikilvægt að þjóðin átti sig á þeim verðmætum sem eru þar. Núna á síðustu misserum hafa komið 55 milljarðar í arðgreiðslur frá Landsvirkjun, og það er alveg ljós að á okkar vakt út af mikilvægi fyrirtækisins fyrir framtíðina og af því að öll þjóðin hefur tekið þátt í að byggja það upp þá erum við aldrei að fara gefa því eitthvað undir fótinn að það verði mögulega hægt að einkavæða það að einhverjum hluta eða brjóta fyrirtækið upp.
Það verður þannig að það verður ekki einn dropi einkavæddur hjá Landsvirkjun á okkar vakt. Aðeins að matvælaframleiðslu. Ég man þá tíð að það þótti næstum því púkalegt að tala um fæðuöryggi þjóðarinnar og mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu, en alveg eins og það er orðið svakalega svalt að vera í lopapeysu og halda á lömbum, þá er orðið mjög svalt líka að tala um landbúnaðarframleiðslu og að það hafi þurft í raun og veru heilan heimsfaraldur til þess að fólk áttaði sig á því hvað þetta skiptir miklu máli fyrir þjóðaröryggi að hlúa að íslenskum landbúnaði er auðvitað með ólíkindum. En þetta vitum við kæru félagar að skiptir gríðarlega miklu máli að þjóðin geti séð til þess að hér sé sjálfbær og heilnæmur landbúnaður og ég er gríðarlega stolt af því að vera í flokki þar sem við erum með allar þessar hetjur sem hafa staðið með landbúnaðinum gegnum súrt og sætt og við skulum halda áfram að gera það og passa upp það að hann sé samkeppnishæfur og við séum ekki að reglurnar í kringum íslenskan landbúnað að þær séu miklu strangari og erfiðari en gengur og gerist í nágrannaríkjum okkar. Þannig að ég er mjög stolt af því hvað við höfum verið að gera á þingi á síðustu misserum.
Aðeins að hagkerfinu okkar. Nú er það svo að hagvöxtur á Íslandi hann hefur verið mikill. Um 20% á þremur árum og þetta er fáheyrður vöxtur. Allt sem hagfræðin og efnahagsspekúlantar eru að tala um þessa dagana er leitin að hagvexti framtíðar. Bæði erum við lánsöm um að það hefur verið mikill hagvöxtur og hagvaxtar horfur Íslands eru líka mjög góðar. Við höfum því miður þó þurft að vera kljást við mikla verðbólgu, en hún er sem betur fer lækkandi og ég tel að það sé algjört grundvallaratriði að við náum henni niður og setjum ávallt eins og við höfum verið að gera heimilin í fyrsta sæti og það sem við gerðum í síðustu kjarasamningum var svo sannarlega það með því að bjóða upp á aukinn vaxtastuðning og gjaldfrjálsar skólamáltíðir og við verðum alltaf að vera þessi flokkur að vita að fólkið þarf að vita að hjartað okkar það slær með heimilinum í landinu, af því að ef heimilin eru ekki sterk þá er Ísland ekki sterkt.
En kæru félagar, ég vildi nefna það hér að ég er gríðarlega þakklát og stolt að fá að starfa í ykkar umboði og ég er líka rosalega þakklát fyrir það samstarf sem við öll og ég á persónulega við formann flokksins Sigurð Inga. Sigurður Ingi, hann hefur leitt flokkinn til forystu og sigurs á síðustu árum og jafnvel þó að þetta hafi á tímabili þegar ég og Sigurður vorum nýbúin að taka við verið dálítil brekka en með samvinnu góðum samskiptum og alveg frábæru baklandi þá hefur okkur öllum í sameiningu tekist að leiða flokkinn okkar til sigurs og ljósi þess þá hef ég mikinn áhuga á því að leita eftir endurnýjuðu umboði ykkar til þess að gegna stöðu varaformanns áfram.
En svona alveg í lokin, því þið eruð öll dálítið mikið skemmtileg þá vildi ég bara segja ég hlakka mjög mikið til þess að eyða helginni með ykkur og ég vænti mikils af ykkur hérna seinna í kvöld, þið vitið hvað ég meina, og svo bara kærar þakkir fyrir mig og njótið þess að vera saman hér í dag og um helgina. Takk fyrir.