Categories
Fréttir

Ræða Sigurðar Inga

Það er 1. október 2020 í dag og við erum í miðju stríði við kórónuveiruna. En hver mánaðamót sem renna upp héðan í frá segja okkur líka að það styttist í að lífið færist að nýju í eðlilegt horf. Gleymum því ekki. Sameinumst um að vernda störf og skapa störf því að verkefnið er brýnt og verkefnið er ljóst: Atvinna, atvinna, atvinna. — Góðar stundir.

Deila grein

02/10/2020

Ræða Sigurðar Inga

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formanns Framsóknarflokksins, í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi fimmtudaginn 1. október 2020.

***

Virðulegi forseti. Formaður Miðflokksins fór í ræðu sinni yfir að stefna ríkisstjórnarinnar væri stefna Vinstri grænna. Formaður Samfylkingarinnar kom svo upp og sagði að þessi stefna væri hægri stefna Sjálfstæðisflokksins. Svarið liggur auðvitað í augum uppi: Stefna þessarar ríkisstjórnar er stefna Framsóknarflokksins. [Hllátur í þingsal.] Það er rétt sem formaður Samfylkingarinnar sagði: Vinna, vöxtur, velferð. Þetta eru kjörorð framsóknarstefnunnar og Samfylkingin er að taka þau upp. Þegar hann lýsti síðan hvaða áform þyrfti að fara í í fjárfestingarátakinu var hann lýsa fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar. Það er rétt hjá formanni Samfylkingarinnar að allur heimurinn er að fara í þá átt. Ræða mín er ónýt því að ég þurfti að byrja á þessu en ég ætla samt að fara í nokkra hluti.

Upp er runnin 1. október og áttundu mánaðamótin frá því að kórónuveirufaraldurinn fór fyrir alvöru að hafa áhrif á líf okkar. Fjöldi fólks sem var með vinnu 1. mars er nú án atvinnu. Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa miðað að því að milda þetta mikla högg um leið og heilsa landsmanna er vernduð eftir því sem best er hægt. Og hvað felst í því að milda höggið? Jú, það felst fyrst og fremst í því að standa vörð um atvinnu fólks og lifibrauð þess og líklega er stærsta aðgerðin hlutastarfaleiðin. Eftir því sem á hefur liðið höfum við framlengt hana og framlengt tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Markmiðið er að standa vörð um ráðstöfunartekjur heimilanna eftir því sem kostur er því að mánaðamótin koma með öllum sínum skuldbindingum. Við stöndum vörð um störfin og við sköpum ný störf. Það er atvinna, atvinna, atvinna sem málið snýst um.

Sumarið var ólíkt síðustu sumrum, engir erlendir ferðamenn. Íslendingar fóru hins vegar um landið og ég held að það hafi aukið skilning okkar allra á aðstæðum fólks hringinn í kringum landið og skapað sterkari tilfinningu fyrir landinu. Okkar fagra Ísland er nefnilega ekki bara höfuðborg og landsbyggð. Við eigum landsbyggðir, ólíkar en samt með sömu hagsmuni fólks, hagsmuni þar sem atvinna er efst á blaði, það að geta mætt mánaðamótunum án þess að vera með kvíðahnút í maganum. Um það snýst vinna okkar á Alþingi og í ríkisstjórn, síðustu mánuðina, næstu vikur, næstu mánuði: Að standa vörð um störf og skapa ný störf. Atvinna, atvinna, atvinna.

Næstu mánuði leggjum við grunn að framtíðinni. Það eru viðamikil mennta- og starfsúrræði fram undan fyrir þá sem missa vinnuna auk áherslunnar á að skapa ný störf og ný tækifæri. Það á ekki síst við á þeim svæðum sem hafa orðið harðast úti vegna frosts í ferðaþjónustu, atvinnugreininni sem hefur auk landbúnaðar og sjávarútvegs verið lífæðin í byggðum landsins. Við vitum öll að þegar þessar hörmungar hafa gengið yfir er framtíðin björt í ferðaþjónustu á Íslandi. Náttúran er enn jafn fögur, innviðir enn til staðar og styrkjast með ári hverju með metnaðarfullum samgönguframkvæmdum, og það sem er mikilvægast: Þekkingin hjá fólkinu og krafturinn er enn til staðar og mun springa út sem aldrei fyrr þegar veiran gefur eftir og ferðaþráin springur út að nýju. Nú eiga lítil og meðalstór fyrirtæki allt sitt undir því að fjármagnseigendur séu þolinmóðir og bíði af sér ölduganginn. Þar eru störf fólks og heimili í húfi.

Ég er bjartsýnn að eðlisfari og síðustu mánuðir hafa styrkt þann eiginleika minn því að ég hef upplifað mikla samstöðu þjóðarinnar við erfiðar aðstæður. Þrátt fyrir þá miklu erfiðleika sem við stöndum frammi fyrir, þrátt fyrir að við getum ekki lifað eðlilegu lífi og þrátt fyrir að kreppan komi mismunandi við fólk hefur ríkt skilningur um að við komumst í gegnum þetta saman, með samvinnu, með skilningi á aðstæðum annarra, umburðarlyndi og bjartsýni. Og verkefnið er fyrst og fremst atvinna, atvinna, atvinna.

Í dag er gleðidagur. Eftir margra ára baráttu fyrir bættum samgöngum á sunnanverðum Vestfjörðum hefur sá dómur loks verið kveðinn upp að framkvæmdir geti hafist í gegnum Teigsskóg. Áfram veginn um Teigsskóg.

Fullyrða má að aukningin í nýframkvæmdum á næstu árum í samgöngum vegi á móti samdrætti næstu ára á ýmsum öðrum sviðum. Sú sókn grundvallast annars vegar á metnaðarfullri framtíðarsýn í 15 ára samgönguáætlun og á viðbótarfjármagni sem lagt var í samgönguframkvæmdir og fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar. Samgönguframkvæmdir næstu ára skapa 8.700 störf einar og sér.

Þá er mikilvægt að við séum meðvituð um áhrif okkar sem neytenda þegar við kaupum íslenskar vörur, hvort heldur er lambakjöt eða súkkulaði eða fatnaður. Þannig verjum við störf og sköpum ný. Við höfum val. Íslenskt – gjörið svo vel og Láttu það ganga.

Haustið bítur aðeins í nef okkar og veturinn færist nær. Frá því að þing var sett haustið 2019 hefur margt gengið á, ekki aðeins veiran heldur var síðasti vetur mörgum erfiðum með vályndum veðrum. Óveður sem gengu yfir landið síðasta vetur sýndu svo ekki verður um villst aðstöðumun milli landshluta. Ríkisstjórnin brást við af festu og nú myndu óveður af þessari stærðargráðu ekki hafa slík áhrif. Það er búið að framkvæma.

Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna er breið í eðli sínu. Þar koma saman ólíkir kraftar sem endurspegla að miklu leyti skoðanir þjóðarinnar. Hún hefur verið einbeitt í því að horfa á sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar og vinna að sátt í samfélaginu. Hún er á réttum tíma á réttum stað. Við þurfum að vernda störf, við þurfum að skapa störf. Það er verkefni sem við getum sameinast um. Þegar fer að vora verðum við tilbúin til að snúa vörn í sókn. Framsókn fyrir íslenskt samfélag. Vinna, vöxtur, velferð, formaður Samfylkingarinnar, því að framtíðin ræðst á miðjunni

Það er 1. október 2020 í dag og við erum í miðju stríði við kórónuveiruna. En hver mánaðamót sem renna upp héðan í frá segja okkur líka að það styttist í að lífið færist að nýju í eðlilegt horf. Gleymum því ekki. Sameinumst um að vernda störf og skapa störf því að verkefnið er brýnt og verkefnið er ljóst: Atvinna, atvinna, atvinna. — Góðar stundir.

***