Alþjóðamálin hafa ekki verið jafn þýðingarmikil í áraraðir og það reynir á ríkisstjórn Íslands að tryggja hagsmuni landsins. Það eru viðsjárverðir tímar. Enn sér ekki fyrir endann á hrikalegu stríði í Úkraínu. Norðurskautið er komið í hringiðu alþjóðaumræðunnar vegna áhuga Bandaríkjaforseta á að styrkja stöðu sína á Grænlandi. Forsætisráðherrar Norðurlandanna funduðu vegna stöðunnar og danski forsætisráðherrann er farinn í ferðalag um Evrópu til að tryggja stuðning við þeirra málstað. Í mínum huga snýst málið um vilja Grænlendinga og sjálfstæði þeirra til framtíðar, sem og virðingu fyrir alþjóðalögum. Landfræðileg staða Íslands og Grænlands er mikilvæg sem fyrr og gott að rifja upp margtilvitnuð orð fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Winstons Churchills: „Hver sá sem hefur yfirráð yfir Íslandi heldur á byssu miðaðri á England, Ameríku og Kanada,‘‘ sagði hann um hernaðarlegt mikilvægi Íslands í seinni heimsstyrjöldinni. Æ síðan hefur lega Íslands skipað grundvallarsess í varnarmálum vestrænna ríkja.
Frelsi og öryggi er grundvallarþáttur í velferð okkar. Það var því framsýni þegar íslensk stjórnvöld ákváðu að Ísland yrði stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu. Þar sem herlaus þjóð gat ekki varið sig fór bandalagið þess á leit við Ísland og Bandaríkin að þjóðirnar gerðu ráðstafanir sín á milli með varnarsamningnum árið 1951. Á þeim tíma var varnarleysi landsins talið stofna öryggi þess sjálfs og friðsamra nágranna þess í voða eins og það er orðað í samningum. Staðfesta stjórnvalda þá tryggði aðstöðu hér á landi til að sinna vörnum og varðveita þannig frið og öryggi á svæðinu.
Það er því afar brýnt að haldið sé vel utan um stöðu Íslands og tryggt áframhaldandi vestrænt samstarf. Lega Íslands hefur í för með sér að tryggja verður áframhaldandi samstarf við Bandaríkin í samræmi við sögulegan varnarsamning, ásamt því að rækta samstarfið við hinar Norðurlandaþjóðirnar og samstarfið innan Evrópska efnahagssvæðisins. Okkar velgengni grundvallast á þessum styrku stoðum í öryggis- og varnarmálum. Ýmsir hafa fært rök fyrir því að nauðsynlegt sé að ganga í Evrópusambandið til að tryggja varnir landsins en það á ekki við. Ég minni á að Finnland og Svíþjóð gerðust aðilar að NATO, einmitt vegna þess að þau töldu að varnir ESB dygðu ekki til. Evrópusambandssinnar á Íslandi telja að best sé fyrir landið okkar að ganga í ESB út af stefnu Trumps og eru þar með tilbúnir til að fórna sjálfstæði þjóðarinnar og eignarhaldi á auðlindum okkar. Ég geld varhug við þessari nálgun, því berin eru súr. Ísland hefur átt í farsælu samstarfi við Bandaríkin allt frá lýðveldisstofnun ásamt því að stunda frjáls viðskipti innan EES. Þessi leið hefur skilað mikilli verðmætasköpun og góðum lífskjörum. Það er afar brýnt að ríkisstjórnin vandi sig og mæti til leiks.
Reglulega verða atburðir sem undirstrika mikilvægi þess að huga vel að varnarmálum. Þá vakt þurfum við ávallt að standa og taka virkan þátt með vinaþjóðum okkar í að standa vörð um þá samfélagsgerð sem við þekkjum. Þrátt fyrir að Ísland sé lítið skiptir framlag okkar miklu máli í þessu samhengi – rétt eins og Winston Churchill benti réttilega á.
Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. janúar 2025.