Categories
Fréttir

Reglulegt millilandaflug á landsbyggðinni

Deila grein

19/11/2015

Reglulegt millilandaflug á landsbyggðinni

Þórunn„Hæstv. forseti. Ég vil nýta tíma minn í dag til að vekja athygli á því góða framtaki að ríkisstjórn Íslands hefur að tillögu forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, falið iðnaðar- og viðskiptaráðherra að hefja undirbúning að stofnun Markaðsþróunarsjóðs og Áfangastaðasjóðs með það að markmiði að koma á reglulegu millilandaflugi um aðra flugvelli en Keflavík. Í umræðunni um þetta góða mál hafa einhverjir haldið því á lofti að hér verði um beinar greiðslur úr ríkissjóði að ræða. En markmiðið er að sjóðirnir hafi hvetjandi áhrif á erlenda sem innlenda aðila og skal framlag þeirra vera viðbót við framlag annarra þróunaraðila og greiðast eftir að flug er hafið, nánar tiltekið þegar lágmarkstímabili hefur verið náð og svo mánaðarlega eftir það. Sem sagt, peningar þurfa að koma inn áður en þeir fara út.
Gert er ráð fyrir að framlag ríkisins til sjóðanna muni skila sér til baka í formi skatttekna, en ætla má að beinar skatttekjur af tveimur flugum á viku allt árið yrðu um 300–400 millj. kr. árlega, en ríkissjóður mundi njóta áfram að loknu þriggja ára starfstímabili sjóðanna. Þetta er annar vinkillinn á þessu ágæta máli sem ég vildi vekja athygli á. Hinn er að hér er ekki um tilviljunarkennda byggðaaðgerð að ræða heldur vandaða og vel fram setta áætlun sem unnin er af heimamönnum og þeir hafa kallað eftir. Aðferðafræðin sem unnið hefur verið eftir er vel þekkt frá nágrannalöndum okkar og hefur gefið góðan árangur í byggðamálum.
Með því að koma þessu í framkvæmd munum við efla vaxtarmöguleika fyrirtækja á Norður- og Austurlandi, nýta betur innviði ríkisins, efla hagræn áhrif á svæðinu og landinu öllu, bæta búsetuskilyrði og lífsgæði, svo eitthvað sé nefnt.“
Þórunn Egilsdóttirí störfum þingsins 17. nóvember 2015.