Categories
Fréttir

„Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna 6,9 milljarðar – tæpar 7 þús. milljónir“

Deila grein

13/02/2014

„Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna 6,9 milljarðar – tæpar 7 þús. milljónir“

Í störfum þingsins í gær, miðvikudag, tóku Jóhanna María, Willum og Vigdís til máls. Vigdís fór m.a. yfir hvað það eru orðnar „óheyrilegar upphæðir sem lífeyrissjóðirnir taka í rekstrarkostnað, sérstaklega í ljósi þess að launþegar eiga sjóðina“ og ekki eru þeir ofaldnir.
Jóhanna María Sigmundsdóttir: ræddi framtíð Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og áhyggjur fólks af framtíðarskipan hans. Ekki er hægt að skera meira niður innan stofnunarinnar án þess að það komi niður á náminu eða komi til algjörrar uppstokkunar á starfsemi skólans. „Við sem sinnum hlutverki stjórnvalda þurfum að svara kalli starfsmanna og nemenda skólans, byggðarinnar á Hvanneyri og fólksins í Borgarfirði. Við þurfum að taka af vafann með hag Landbúnaðarháskólans fyrir brjósti og sækja fram.“

 
Willum Þór Þórsson: ræddi fyrirhugað afnám verðtryggingar á neytendalánum. „Verðtryggð neytendalán eru hluti af tilbúnu kerfi þar sem neytendur taka langvarandi kostnað á sig tengdan almennum verðlagsbreytingum í skiptum fyrir lægri greiðslubyrði en borga á endanum fasteignir sínar of dýru verði.“ Og síðar sagði hann: „Tækifærið er núna. Það er einsýnt þessu samkvæmt að fara verður í skuldaleiðréttingu og afnám verðtryggingar samhliða.“

 
Vigdís Hauksdóttir: fór yfir ævintýralegar fréttir af lífeyrissjóðum landsmanna. Á fundi þingmanna með stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða „kom fram að 0,26% af heildareignum lífeyrissjóðanna eru rekstrarkostnaður. Heildareignir lífeyrissjóðanna er 2.656 milljarðar og gerir því rekstrarkostnaðurinn 6,9 milljarða, tæpar 7 þús. milljónir.“ Síðar sagði hún: „Vilhjálmur Birgisson, sem minnst var á hér áðan, verkalýðsforingi af Akranesi, hefur sett fram á bloggsíðu sinni að þetta sé samanlögð sú upphæð sem fer í lögreglu og landhelgisgæslu samkvæmt fjárlögum 2014.“