Categories
Fréttir

„Rétt næring er liður í forvörnum og lýðheilsu“

Deila grein

11/03/2024

„Rétt næring er liður í forvörnum og lýðheilsu“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, tók undir ályktun sveitarstjórnarráðs Framsóknar, í störfum þingsins, um að sveitarfélög tryggi gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum líkt og að ríkisstjórnin hafi þegar samþykkt. Sú áhersla væri enda í anda Framsóknar að setja fjölskyldufólk í forgang.

Sagði hún miklvægt að þjóðarsátt sé um slíkar áherslur, enda „liður í átt að markmiðum okkar um að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu enda myndu allir vinna með því, bæði heimili og sveitarfélög,“ sagði Halla Signý.

„Mikilvægi skólamáltíða fyrir skólastarfið sjálft er mikið. Góð næring er nauðsynleg fyrir skóladaginn og mikilvægur liður í því að jafna kjör og aðstæður barna að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Það er ekki aðeins brýnt til að draga úr ójöfnuði heldur einnig heilsufarslegt og uppeldislegt atriði. Næring er þýðingarmikil fyrir þroska nemenda og starfsorku og rétt næring er liður í forvörnum og lýðheilsu.“

„Börnin búa við misjöfn kjör og koma úr misjöfnum aðstæðum en þegar þau setjast við morgunhressinguna í skólanum koma þau öll að sama borði. Börn í Reykjavík greiða að jafnaði 12.836 kr. á mánuði fyrir skólamáltíð og eru það um 115.000 kr. yfir veturinn fyrir barnið. Foreldrar greiða þó ekki nema fyrir tvö börn og fá frítt fyrir það þriðja. Þótt þetta sé ekki há upphæð þá getur munað um 230.000 kr. yfir veturinn.“

„Mörg sveitarfélög bjóða nú upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir, t.d. Fjarðabyggð og Vogar, og enn fleiri sveitarfélög hafa lagt mikið kapp á það á undanförnum árum að niðurgreiða skólamáltíðir í grunnskólum. Nú er hins vegar tímabært að taka af skarið og stíga skrefið til fulls,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég er sammála ályktun sveitarstjórnarráðs Framsóknar sem kemur inn á að sveitarfélög tryggi gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum, eins og ríkisstjórnin hefur samþykkt, enda er það í anda Framsóknar að setja fjölskyldufólk í forgang. Kjarasamningar eru í vinnslu og þessi aðgerð myndi greiða fyrir gerð þeirra. Það er mikilvægt að þjóðarsátt náist um jafn mikilvægt mál, öllum til heilla. Það væri liður í átt að markmiðum okkar um að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu enda myndu allir vinna með því, bæði heimili og sveitarfélög. Mörg sveitarfélög í landinu eru skuldug og finna því áþreifanlega fyrir hærri verðbólgu og því vaxtastigi sem nú ríkir í landinu. Mikilvægi skólamáltíða fyrir skólastarfið sjálft er mikið. Góð næring er nauðsynleg fyrir skóladaginn og mikilvægur liður í því að jafna kjör og aðstæður barna að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Það er ekki aðeins brýnt til að draga úr ójöfnuði heldur einnig heilsufarslegt og uppeldislegt atriði. Næring er þýðingarmikil fyrir þroska nemenda og starfsorku og rétt næring er liður í forvörnum og lýðheilsu. Börnin búa við misjöfn kjör og koma úr misjöfnum aðstæðum en þegar þau setjast við morgunhressinguna í skólanum koma þau öll að sama borði. Börn í Reykjavík greiða að jafnaði 12.836 kr. á mánuði fyrir skólamáltíð og eru það um 115.000 kr. yfir veturinn fyrir barnið. Foreldrar greiða þó ekki nema fyrir tvö börn og fá frítt fyrir það þriðja. Þótt þetta sé ekki há upphæð þá getur munað um 230.000 kr. yfir veturinn.

Virðulegi forseti. Mörg sveitarfélög bjóða nú upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir, t.d. Fjarðabyggð og Vogar, og enn fleiri sveitarfélög hafa lagt mikið kapp á það á undanförnum árum að niðurgreiða skólamáltíðir í grunnskólum. Nú er hins vegar tímabært að taka af skarið og stíga skrefið til fulls.“