Sjávarflóð og landbrot eru ekki lengur eitthvað sem gerist „af og til“. Þetta er raunveruleg vá sem íbúar Suðurnesja finna fyrir aftur og aftur. Við höfum séð sjóinn brjótast inn í byggð, valda tjóni á hafnarmannvirkjum, leggja kirkjugarða í hættu og skemma eignir bænda og fyrirtækja.
Það er ekki nóg að horfa á vandann og bíða eftir næsta stórflóði. Lög um sjóvarnir 1997 nr. 28 5. maí segja skýrt að ríkið beri ábyrgð á þessum málum – innviðaráðherra hefur yfirstjórn og Vegagerðin framkvæmir. Sveitarfélög og landeigendur eiga aðeins að leggja til lítinn hluta kostnaðar. Þrátt fyrir þetta stöndum við sem sveitarfélag í sífelldri baráttu við að fá nauðsynlegar aðgerðir samþykktar.
Af 17 verkefnum sem Suðurnesjabær lagði fram í samgönguáætlun 2024-2028 fengust aðeins sex samþykkt – og jafnvel þau voru skorin niður. Á meðan er árlegt framlag ríkisins til sjóvarna á öllu landinu aðeins 150 milljónir króna. Sú upphæð dugar ekki einu sinni fyrir brýnum verkefnum í okkar sveitarfélagi, hvað þá annars staðar á landinu.
Við Íslendingar höfum byggt upp Ofanflóðasjóð sem ver íbúa gegn snjóflóðum – og það hefur virkað að miklu leyti. Sjávarflóð eru náttúruvá líkt og ofanflóð. Nú þurfum við sambærilegan Sjávarflóðasjóð, sem tryggir að sveitarfélög um land allt fái raunverulegan stuðning til varna gegn ágangi sjávar. Þetta er spurning um öryggi fólks, atvinnulífs og menningarminja.
Ég skora á ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins að gera sjóvarnir að forgangsmáli strax. Við Suðurnesjamenn höfum séð hvað gerist þegar ekkert er gert. Við getum ekki beðið eftir að sjórinn gangi yfir mannvirki – og það mun að öllum líkindum gerast aftur í vetur ef
ekkert verður að gert. Neyðaraðgerða er þörf víða, meðal annars neðst við Hvalsneskirkju þar sem stórt skarð er í landgarðinum. Það getur valdið miklu tjóni bæði á íbúðarhúsi sem þar er nærri auk þess sem kirkjugarðurinn er í stórhættu. Sama má segja um Nátthaga, sem er á milli Sandgerðis og Garðs, og Útgarð í Garði. Þá hefur hafnarstjórn einnig krafist úrbóta fyrir veturinn til að verjast frekara tjóni á hafnarmannvirkjum í Sandgerðishöfn.
Ríkisstjórnin verður að axla ábyrgð.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. október 2025.