Categories
Fréttir

Ríkisstjórn og ráðherrar starfa í samræmi við lagaheimild

Deila grein

09/12/2014

Ríkisstjórn og ráðherrar starfa í samræmi við lagaheimild

Sigmundur-davíðVegna rangra upplýsinga í frétt á forsíðu og á bls. 8 í Fréttablaðinu í dag vill forsætisráðuneytið taka eftirfarandi fram:
Aðstoðarmenn ráðherra og ríkisstjórnar eru ráðnir samkvæmt heimild í 22. gr. laga  nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands. Samkvæmt henni heyra aðstoðarmenn beint undir ráðherra og er meginhlutverk þeirra að vinna að stefnumótun á málefnasviði ráðuneytis undir yfirstjórn ráðherra og í samvinnu við ráðuneytisstjóra. Þá kemur fram að aðstoðarmenn gegni störfum fyrir ráðherra svo lengi sem ráðherra ákveður, þó ekki lengur en ráðherra sjálfur.
Eftirtaldir tveir aðstoðarmenn eru starfandi í forsætisráðuneytinu sem aðstoðarmenn forsætisráðherra:

  • Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður ráðherra.
  • Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður og aðstoðarmaður ráðherra. Ásmundur þiggur ekki laun fyrir störf sín í forsætisráðuneytinu.

Að auki hefur ríkisstjórn Íslands lagaheimild til að ráða þrjá aðstoðarmenn. Sú heimild hefur ekki verið að fullu nýtt en tveir aðstoðarmenn starfa á grundvelli hennar og hafa þeir aðsetur í forsætisráðuneytinu:

  • Benedikt Árnason, efnahagsráðgjafi forsætisráðherra og ráðherranefnda ríkisstjórnarinnar
  • Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar.

Þessu til viðbótar starfar Margrét Gísladóttir sem sérstakur ráðgjafi ráðherra í forsætisráðuneytinu í láni frá utanríkisráðuneytinu.
Aðrir starfsmenn forsætisráðuneytisins sem tilgreindir eru í Fréttablaðinu í dag eru ekki aðstoðarmenn forsætisráðherra. Þeir heyra undir ráðuneytisstjóra og starfa að tímabundnum og afmörkuðum verkefnum. Lilja Alfreðsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri á skrifstofu bankastjóra og alþjóðasamskipta í Seðlabankanum, var ráðin til forsætisráðuneytisins á grundvelli tímabundins vistaskiptasamnings við Seðlabankann til að sinna verkefnum er snúa m.a. að fjármagnshöftum. Hrannar Pétursson, sérfræðingur í samskipta- og upplýsingamálum, hefur það hlutverk að stýra endurskoðun á samskipta- og upplýsingamálum Stjórnarráðsins. Um er að ræða tímabundna ráðningu til tveggja mánaða.
Vegna umfjöllunar Fréttablaðsins er rétt er að benda á, að Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur látið af embætti innanríkisráðherra og tilgreindir aðstoðarmenn hennar eru einnig hættir störfum. Ólöf Nordal, sem tók við embætti innanríkisráðherra þann 4. desember, hefur ekki ráðið sér aðstoðarmenn. Þá skal bent á að Sigurður Ingi Jóhannsson gegnir bæði embætti umhverfis- og auðlindaráðherra og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Honum er því heimilt samkvæmt lögum að ráða 4 aðstoðarmenn.
Heimild: stjornarrad.is
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.