Categories
Fréttir Greinar

Ríkisstjórn sem sameinar eða sundrar?

Deila grein

15/02/2025

Ríkisstjórn sem sameinar eða sundrar?

Við upp­haf nýs kjör­tíma­bils standa von­ir margra til þess að stjórn­mál­in verði afl sam­ein­ing­ar frek­ar en sundr­ung­ar. Þjóðin þarf á sam­stöðu að halda, ekki síst á tím­um efna­hags­legra áskor­ana og auk­inn­ar óvissu í alþjóðamál­um. Hins veg­ar vek­ur það áhyggj­ur að ný rík­is­stjórn sýn­ir eng­an skýr­an vilja til slíkr­ar sam­ein­ing­ar, ef marka má stefnuræðu for­sæt­is­ráðherra.

Hús­næðismál í for­gangi

For­gangs­mál Fram­sókn­ar nú við upp­haf þings er þing­mál um 25 ára óverðtryggð lán á föst­um vöxt­um. Sú leið sem við höf­um lagt til, og bygg­ir á vinnu sem sett var af stað í minni tíð í fjár­málaráðuneyt­inu, hef­ur vakið at­hygli enda um mikla kjara­bót að ræða fyr­ir ís­lensk heim­ili. Það er mjög mik­il­vægt fyr­ir lán­tak­end­ur að hafa ör­yggi og fyr­ir­sjá­an­leika við af­borg­an­ir hús­næðislána og nái þessi áform fram að ganga mun það tryggja betri lána­kjör með bætt­um hag fyr­ir heim­il­in.

Upp­bygg­ing leigu­hús­næðis

Við í Fram­sókn mun­um líka styðja við aukna upp­bygg­ingu leigu­hús­næðis í sam­starfi við óhagnaðardrif­in leigu­fé­lög. Það er fagnaðarefni að ný rík­is­stjórn ætli að halda áfram á þeirri braut sem við í Fram­sókn höf­um markað og nú hef­ur verið veitt­ur stuðning­ur til bygg­ing­ar 4.000 íbúða í sam­starfi við óhagnaðardrif­in leigu­fé­lög. Við þurf­um með þess­um hætti að stuðla að fjöl­breytt­ari og hag­kvæm­ari val­kost­um á leigu­markaði. Um 1.000 fjöl­skyld­ur hafa eign­ast sitt eigið hús­næði með til­komu hlut­deild­ar­lána en áfram þarf að efla þetta úrræði og tryggja að það gagn­ist sem flest­um. Með þess­um aðgerðum í hús­næðismál­um get­um við stuðlað að auknu hús­næðis­ör­yggi og aukið lífs­gæði fólks.

For­gang­ur heim­ila og smærri fyr­ir­tækja að raf­orku

Annað for­gangs­mál Fram­sókn­ar er til­laga um for­gang heim­ila og lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja að raf­orku. Um leið er mik­il­vægt að inn­leiða verðvernd og stuðla þannig að hag­kvæmu orku­verði til handa heim­il­um og at­vinnu­lífi. Reynsla annarra þjóða, t.d. Norðmanna, þar sem raf­orku­kostnaður rauk upp er víti til varnaðar.

At­vinna og verðmæta­sköp­un

Sterkt at­vinnu­líf er und­ir­staða góðra lífs­kjara. At­vinnu­leysi á Íslandi er lágt í sam­an­b­urði við önn­ur lönd en ný rík­is­stjórn sýn­ir litla framtíðar­sýn í at­vinnu­mál­um, sér­stak­lega utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Það vek­ur einnig áhyggj­ur að fyr­ir­hugaðar skatta­hækk­an­ir á sjáv­ar­út­veg­inn muni bitna sér­stak­lega á minni og meðal­stór­um fjöl­skyldu­fyr­ir­tækj­um, sem get­ur leitt til enn frek­ari samþjöpp­un­ar í grein­inni.

Hvað verður um ís­lensk­an land­búnað?

Óljós stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar í land­búnaðar­mál­um veld­ur einnig áhyggj­um. Á að svipta bænd­ur rétti sín­um til að reka eig­in fyr­ir­tæki á sama tíma og er­lend­ir bænd­ur njóta slíks rétt­ar? Er verið að hygla stór­um inn­flutn­ingsaðilum á kostnað ís­lenskr­ar mat­væla­fram­leiðslu? Í heimi þar sem fæðuör­yggi verður sí­fellt mik­il­væg­ara ætti rík­is­stjórn­in að leggja áherslu á að styrkja ís­lensk­an land­búnað í stað þess að veikja hann.

Ómark­viss stefna í ferðaþjón­ustu

Ferðaþjón­ust­an er mik­il­væg at­vinnu­grein fyr­ir Ísland og hef­ur skapað fjöl­mörg störf og mik­il verðmæti. Sam­keppn­is­hæfni grein­ar­inn­ar er hins veg­ar viðkvæm og því vek­ur það furðu að rík­is­stjórn­in sé að hringla með óljós­ar skatt­heimtu­hug­mynd­ir sem geta skaðað grein­ina. Stöðug­leiki og skýr stefna eru lyk­il­atriði til að tryggja áfram­hald­andi vöxt ferðaþjón­ust­unn­ar, en af umræðunni að dæma virðist rík­is­stjórn­in ekki hafa neina skýra sýn um framtíð henn­ar.

Þögn­in um þjóðar­at­kvæði

Eitt það at­hygl­is­verðasta við stefnuræðu for­sæt­is­ráðherra var hvað ósagt var látið. Eng­in umræða fór fram um mögu­lega þjóðar­at­kvæðagreiðslu um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu, þrátt fyr­ir að Sam­fylk­ing­in og Viðreisn hafi lagt mikla áherslu á málið. Enn meira kem­ur á óvart að Flokk­ur fólks­ins hafi skipt um stefnu í mál­inu og veiti nú slík­um hug­mynd­um stuðning. Raun­ar virðast fá stefnu­mál flokks­ins, sem kynnt voru svo mynd­ar­lega í aðdrag­anda kosn­inga, hafa hlotið braut­ar­gengi.

Ábyrgð rík­is­stjórn­ar­inn­ar

Það eru vissu­lega tæki­færi til staðar í ís­lensku sam­fé­lagi. En til að nýta þau þarf rík­is­stjórn sem sam­ein­ar þjóðina í stað þess að sundra henni. Við í Fram­sókn erum til­bú­in að vinna að upp­bygg­ingu sam­fé­lags­ins og vinna sam­an að góðum mál­um. En við mun­um einnig veita rík­is­stjórn­inni nauðsyn­legt aðhald þar sem þess ger­ist þörf. Það er ekki nóg að tala um framtíðar­sýn – það þarf að fram­kvæma. Við þurf­um stefnu sem tek­ur til­lit til alls lands­ins, ekki stefnu sem veik­ir lands­byggðina, skaðar at­vinnu­lífið og van­ræk­ir mik­il­væg mál á borð við at­vinnu, innviði og fæðuör­yggi.

Sigurur Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. febrúar 2025.