Við upphaf nýs kjörtímabils standa vonir margra til þess að stjórnmálin verði afl sameiningar frekar en sundrungar. Þjóðin þarf á samstöðu að halda, ekki síst á tímum efnahagslegra áskorana og aukinnar óvissu í alþjóðamálum. Hins vegar vekur það áhyggjur að ný ríkisstjórn sýnir engan skýran vilja til slíkrar sameiningar, ef marka má stefnuræðu forsætisráðherra.
Húsnæðismál í forgangi
Forgangsmál Framsóknar nú við upphaf þings er þingmál um 25 ára óverðtryggð lán á föstum vöxtum. Sú leið sem við höfum lagt til, og byggir á vinnu sem sett var af stað í minni tíð í fjármálaráðuneytinu, hefur vakið athygli enda um mikla kjarabót að ræða fyrir íslensk heimili. Það er mjög mikilvægt fyrir lántakendur að hafa öryggi og fyrirsjáanleika við afborganir húsnæðislána og nái þessi áform fram að ganga mun það tryggja betri lánakjör með bættum hag fyrir heimilin.
Uppbygging leiguhúsnæðis
Við í Framsókn munum líka styðja við aukna uppbyggingu leiguhúsnæðis í samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög. Það er fagnaðarefni að ný ríkisstjórn ætli að halda áfram á þeirri braut sem við í Framsókn höfum markað og nú hefur verið veittur stuðningur til byggingar 4.000 íbúða í samstarfi við óhagnaðardrifin leigufélög. Við þurfum með þessum hætti að stuðla að fjölbreyttari og hagkvæmari valkostum á leigumarkaði. Um 1.000 fjölskyldur hafa eignast sitt eigið húsnæði með tilkomu hlutdeildarlána en áfram þarf að efla þetta úrræði og tryggja að það gagnist sem flestum. Með þessum aðgerðum í húsnæðismálum getum við stuðlað að auknu húsnæðisöryggi og aukið lífsgæði fólks.
Forgangur heimila og smærri fyrirtækja að raforku
Annað forgangsmál Framsóknar er tillaga um forgang heimila og lítilla og meðalstórra fyrirtækja að raforku. Um leið er mikilvægt að innleiða verðvernd og stuðla þannig að hagkvæmu orkuverði til handa heimilum og atvinnulífi. Reynsla annarra þjóða, t.d. Norðmanna, þar sem raforkukostnaður rauk upp er víti til varnaðar.
Atvinna og verðmætasköpun
Sterkt atvinnulíf er undirstaða góðra lífskjara. Atvinnuleysi á Íslandi er lágt í samanburði við önnur lönd en ný ríkisstjórn sýnir litla framtíðarsýn í atvinnumálum, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins. Það vekur einnig áhyggjur að fyrirhugaðar skattahækkanir á sjávarútveginn muni bitna sérstaklega á minni og meðalstórum fjölskyldufyrirtækjum, sem getur leitt til enn frekari samþjöppunar í greininni.
Hvað verður um íslenskan landbúnað?
Óljós stefna ríkisstjórnarinnar í landbúnaðarmálum veldur einnig áhyggjum. Á að svipta bændur rétti sínum til að reka eigin fyrirtæki á sama tíma og erlendir bændur njóta slíks réttar? Er verið að hygla stórum innflutningsaðilum á kostnað íslenskrar matvælaframleiðslu? Í heimi þar sem fæðuöryggi verður sífellt mikilvægara ætti ríkisstjórnin að leggja áherslu á að styrkja íslenskan landbúnað í stað þess að veikja hann.
Ómarkviss stefna í ferðaþjónustu
Ferðaþjónustan er mikilvæg atvinnugrein fyrir Ísland og hefur skapað fjölmörg störf og mikil verðmæti. Samkeppnishæfni greinarinnar er hins vegar viðkvæm og því vekur það furðu að ríkisstjórnin sé að hringla með óljósar skattheimtuhugmyndir sem geta skaðað greinina. Stöðugleiki og skýr stefna eru lykilatriði til að tryggja áframhaldandi vöxt ferðaþjónustunnar, en af umræðunni að dæma virðist ríkisstjórnin ekki hafa neina skýra sýn um framtíð hennar.
Þögnin um þjóðaratkvæði
Eitt það athyglisverðasta við stefnuræðu forsætisráðherra var hvað ósagt var látið. Engin umræða fór fram um mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að Evrópusambandinu, þrátt fyrir að Samfylkingin og Viðreisn hafi lagt mikla áherslu á málið. Enn meira kemur á óvart að Flokkur fólksins hafi skipt um stefnu í málinu og veiti nú slíkum hugmyndum stuðning. Raunar virðast fá stefnumál flokksins, sem kynnt voru svo myndarlega í aðdraganda kosninga, hafa hlotið brautargengi.
Ábyrgð ríkisstjórnarinnar
Það eru vissulega tækifæri til staðar í íslensku samfélagi. En til að nýta þau þarf ríkisstjórn sem sameinar þjóðina í stað þess að sundra henni. Við í Framsókn erum tilbúin að vinna að uppbyggingu samfélagsins og vinna saman að góðum málum. En við munum einnig veita ríkisstjórninni nauðsynlegt aðhald þar sem þess gerist þörf. Það er ekki nóg að tala um framtíðarsýn – það þarf að framkvæma. Við þurfum stefnu sem tekur tillit til alls landsins, ekki stefnu sem veikir landsbyggðina, skaðar atvinnulífið og vanrækir mikilvæg mál á borð við atvinnu, innviði og fæðuöryggi.
Sigurur Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. febrúar 2025.