Categories
Fréttir

Ríkisstjórnin hefur ekkert aðhafst vegna sjómannaverkfallsins

Deila grein

02/02/2017

Ríkisstjórnin hefur ekkert aðhafst vegna sjómannaverkfallsins

lilja____vef_500x500,,Virðulegi forseti. Mig langar að fara aðeins aftur yfir eitt mál sem var til umræðu í óundirbúnum fyrirspurnum í gær. Þá kom í ljós að ríkisstjórnin hefur ekkert haft fyrir því að meta hið þjóðhagslega tap sem verður vegna sjómannaverkfallsins. Ráðherrann kom í pontu og hún gat ekki sagt mér neitt um hvert tapið væri. Mér fannst ótrúlegt að heyra ráðherrann segja að ekki stæði til að fara í neinar aðgerðir, ekki stæði heldur til að íhuga lagasetningu er varðar þetta mál, en hins vegar var heldur ekki búið að skoða málið hjá ríkisstjórninni. Ég verð að segja eins og er að þegar maður skoðar þær tölur sem um er að ræða þá sér maður að á meðan allur íslenski skipaflotinn liggur óhreyfður þá glatast auðvitað verðmæti. Ég leit aðeins á greiningu Sjávarklasans sem var birt 27. janúar sl. og þar segir, með leyfi forseta:
„Þó má ætla að því lengra sem líður á verkfallið og bæði viðskiptasambönd glatast og framleiðsla minnkar geti það numið allt að 900–1.300 milljónum króna á dag …“
Verið er að tala um tapaðar útflutningstekjur upp á 640 millj. kr. Fyrir utan það er mjög dýrt að hafa skip, verksmiðjur og fólk iðjulaust svo dögum skiptir. Tæknifyrirtæki hafa verulegar áhyggjur af þessu, að verkefni tefjist, og flutningafyrirtæki eru sögð hafa orðið fyrir tapi eða samdrætti frá 20% til 90%. Alvarlegustu afleiðingarnar eru þó þær að við glötum erlendum mörkuðum.
Það verður að segjast eins og er að fyrri ríkisstjórnir hafa skipað vinnuhópa og starfshópa vegna málefna sem ekki eru jafn umfangsmikil. Ég held að það sé afskaplega brýnt að ríkisstjórnin átti sig á því um hversu stórt mál er að ræða. Ég er hins vegar sammála því sem hv. þm. Gunnar I. Guðmundsson segir, auðvitað skiptir alveg gríðarlegu máli að sjómenn og allir geti samið um sín kjör, en við getum ekki horft fram hjá því hversu alvarleg staðan er.”
Lilja Dögg Alfreðsdóttir í störfum þingsins 1. febrúar 2017.