Categories
Fréttir

Heilbrigðisáætlun taki tillit til þátta eins og samgangna og fjarlægðar milli milli byggðarlaga

Deila grein

02/02/2017

Heilbrigðisáætlun taki tillit til þátta eins og samgangna og fjarlægðar milli milli byggðarlaga

elsa_vef_500x500,,Hæstv. forseti. Í gær flutti ég forgangsþingmál okkar Framsóknarmanna en það var þingsályktunartillaga um heilbrigðisáætlun. Góðar umræður voru um málið og langar mig að nota þetta tækifæri hér og nú til að þakka þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt. Tillagan er nú komin til hv. velferðarnefndar og vona ég sem 1. flutningsmaður málsins að allir þingmenn leggist á eitt við að koma málinu áfram. Ég bind einnig miklar vonir við að hæstv. heilbrigðisráðherra muni vinna þessa heildstæðu tillögu áfram í vinnu sinni við stefnumótun í heilbrigðismálum, það fari ekki fyrir þessari áætlun eins og of mörgum að þær dagi uppi eftir samþykktir hv. þingmanna.
Markmið tillögunnar er að hæstv. heilbrigðisráðherra vinni heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Heilbrigðisáætlunina skal vinna í samráði við fagfólk í heilbrigðisstéttum því að það er það sem þekkir til aðstæðna, sóknarfæra og þess sem betur má fara í kerfinu. Mikilvægt er að fagfólk komi víða að af landinu því að aðstæður geta verið mismunandi í okkar annars ágæta heilbrigðiskerfi eftir því hvort um er að ræða heilsugæslu á landsbyggðinni eða t.d. Landspítalann. Við gerð heilbrigðisáætlunar skal taka tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægðar milli byggðarlaga. Það er nauðsynlegt því að sameinaðar heilbrigðisstofnanir eru víða um landið, þær sinna sumar heilu landsfjórðungunum og oft er um erfiðan veg að fara milli starfsstöðva stofnana.
Við gerð heilbrigðisáætlunar skal einnig taka tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningar sjúkrabifreiða, aðgangs að sjúkraflugi, fjölda ferðamannastaða og sumarhúsabyggða svo eitthvað sé nefnt. Við gerð áætlunarinnar verði jafnframt litið til þess hvort sóknarfæri sé í því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og létta þannig álaginu á Landspítalanum.
Ég hvet hv. þingmenn til að hjálpa okkur Framsóknarmönnum með þetta mikilvæga mál. Við þurfum að svara: Hver er framtíðarsýn stjórnmálamanna og fagfólks í greininni? Hvert ætlum við að stefna? Viljum við efla heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni eða ætlum við okkur að leysa vandann með einkavæðingu eða auknum einkarekstri? Þetta eru stórar spurningar en taka þarf ákvörðun og kominn er tími til.”
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 1. febrúar 2017.