Categories
Fréttir

Minna fúsk meiri fagmennsku

Deila grein

02/02/2017

Minna fúsk meiri fagmennsku

silja_vef_500x500,,Hæstv. forseti. Við stöndum á tímamótum, ekki bara hér á litla Íslandi heldur heimurinn allur. Við tölum um ný stjórnmál, inn með samtalið og út með það sem sumir vilja kalla „gamaldags karlapólitík“, minna fúsk og meiri fagmennsku og allt það.
Hæstv. forseti. Ég get vel tekið undir sumar þessar fullyrðingar og ég er ótrúlega upp með mér og ánægð yfir því trausti sem mér er sýnt með því að fá að starfa að framtíðarþróun lands okkar, fá að leggja mitt af mörkum til að gera gott land enn betra. Þess vegna veldur það mér meiri háttar vonbrigðum að þeir flokkar sem nú sitja saman í ríkisstjórn og kenna sig við frjálslyndi, samræðustjórnmál og fleiri fína frasa hagi sér ekki í samræmi við það sem þeir segjast vilja vera og gera. Hvað á það að þýða að þingmenn Sjálfstæðisflokksins sitji sem formenn í sex af átta fastanefndum Alþingis, fulltrúi Bjartrar framtíðar í einni og fulltrúi Viðreisnar í annarri? Hvað á það að þýða að stjórnmálaflokkar sem sitja í mjög veiku lýðræðislegu umboði með aðeins eins manns meiri hluta einoki formannssæti í öllum nefndum þingsins?
Slíkt á ekkert skylt við samráð og samtal. Ég vona að menn sjái sóma sinn í því að bæta úr þessu. Ef menn vilja í alvörunni aukna samvinnu skulu þeir sýna það í verki með því að láta formannssæti eftir til minni hlutans á þinginu. Eða eru þingmenn stjórnarflokkanna kannski bara sáttir við þetta fyrirkomulag?
Forseti. Hv. þingmenn. Veikur meiri hluti verður enn veikari með þessu áframhaldi. Þetta er ekki góð byrjun hjá nýrri ríkisstjórn. Ég spái því að hún verði ekki langlíf með þessu áframhaldi.”
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 1. febrúar 2017.