Categories
Fréttir

Ráðherra virðist ætla að styrkja stöðu verslunarinnar

Deila grein

02/02/2017

Ráðherra virðist ætla að styrkja stöðu verslunarinnar

flickr-Þórunn Egilsdóttir,,Hæstv. forseti. Íslenskur landbúnaður hefur verið stoð íslensks samfélags í gegnum tíðina, verið grunnur byggða um allt land og er í raun hryggjarstykkið í flestum byggðum landsins. Á síðasta kjörtímabili var farið í mikla vinnu við endurskoðun búvörusamninga, vinnu sem vissulega var tímabær því að við erum að fara inn í tíma sem krefjast róttækra breytinga á landbúnaði á Íslandi.
Samkvæmt tillögu atvinnuveganefndar var settur á fót samráðshópur sem fékk skýra starfslýsingu og átti m.a. að skoða markmið samninganna, loftslags- og umhverfismál, upplýsingagjöf til neytenda, upprunamerkingar og síðast en ekki síst samkeppnismál og starfsumhverfi.
Þessi hópur var hluti af sáttaferli sem menn litu á sem leið til heildrænnar og málefnalegrar nálgunar. Nú berast þær fréttir að hæstv. landbúnaðarráðherra sé byrjaður að taka til. Auðvitað þurfa menn að koma sér fyrir á nýjum stöðum og setja mark sitt á ný embætti en mér er hulin ráðgáta hvers vegna ráðherra kýs að skipta út þremur af fimm ráðherraskipuðum fulltrúum. Hvergi hef ég séð skýringu á því. Hvers vegna ekki bara öllum? Leyndust kannski í hópnum einstaklingar of hliðhollir bændum? Spyr sú sem ekki veit.
Nú boðar hæstv. ráðherra frumvarp um breytingar á búvörulögum strax á vormánuðum. Þar á að endurskoða úthlutun tollkvóta og undanþágur frá ákvæðum samkeppnislaga. Getur verið að þetta renni í gegnum alla þingflokka stjórnarinnar?
Þá velti ég fyrir mér hvert hlutverk fulltrúa atvinnurekenda er í hópnum. Hver er aðkoma heildsala að samningum bænda og ríkisins?
Hæstv. forseti. Fljótt á litið virðist ráðherra vera að styrkja stöðu verslunarinnar sem á enga aðkomu að samningunum. Samningurinn er við bændur og þeim ber samkvæmt honum að framleiða matvöru að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Fulltrúar bænda leggja áherslu á mikilvægi þess að sátt náist um íslenskan landbúnað. Það er okkur öllum mikilvægt. Útspil ráðherra virðist ekki vera lóð á þá vogarskál.”
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 1. febrúar 2017.